26. ágúst 2020

Er skóli í dag?

Nú þegar skólastarf er víða að hefjast á ný ríkir neyðarástand í menntamálum um allan heim. Í dag kom út skýrsla á vegum UNICEF um menntun barna á tímum COVID sem sýnir hversu gífurleg áhrif heimsfaraldurinn hefur haft og mun hafa á tækifæri barna til náms.

Nú þegar skólastarf er víða að hefjast á ný ríkir neyðarástand í menntamálum um allan heim. Í dag kom út skýrsla á vegum UNICEF um menntun barna á tímum COVID-19 sem sýnir hversu gífurleg áhrif heimsfaraldurinn hefur haft og mun hafa á tækifæri barna til náms. Þegar skólar þurftu að loka til að hefta útbreiðslu COVID-19 í vor hafði það áhrif á menntun 1,5 milljarða barna í 190 löndum. Í skýrslunni kemur fram að a.m.k þriðjungur skólabarna gat ekki stundað fjarnám (í gegnum sjónvarp, útvarp, síma eða tölvu) þegar skólarnir þeirra lokuðu. Þetta eru um 463 milljónir barna. Verst er staða barna í Afríku sunnan Sahara, en þar hafði helmingur skólabarna engan aðgang að fjarkennslu.

Heil kynslóð í hættu

Á meðan ekkert land er undanskilið áhrifum kórónaveirunnar þá varpar skýrslan ljósi á mikla misskiptingu milli heimshluta þegar kemur að tækifærum barna til menntunar. Skýrslan sýnir einnig að lokun skóla hefur bitnað hvað verst á þremur hópum barna: þeim yngstu, sem undir venjulegum kringumstæðum væru að hefja skólagöngu sína, þeim fátækustu og þeim sem búa á afskekktustu svæðunum.

„Heimurinn stendur frammi fyrir fordæmalausum aðstæðum sem geta grafið undan margra áratuga árangri í menntamálum og aukið ójöfnuð til muna. Það dylst engum hversu neikvæð áhrif langvarandi lokun skóla getur haft á börn og ungmenni og því lengur sem skólar eru lokaðir og engin önnur tækifæri bjóðast til menntunar, því meiri hætta er á að börn flosni upp úr námi,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Forgangsraða opnun skóla

Að tryggja menntun barna um allan heim er forgangsatriði hjá UNICEF. Skólinn er ekki eingöngu staður til að læra. Skólinn getur til að mynda veitt börnum stöðugleika og daglega rútínu, getur hjálpað börnum að komast yfir sálræn áföll og kvíða og komið í veg fyrir að stúlkur séu gefnar barnungar í hjónaband. Auk þess eru skólamáltíðarnar oft eina heita máltíðin sem börn fá yfir daginn og þar fá börn einnig mikilvægar bólusetningar.

Á meðan kórónaveiran heldur áfram að herja á heimsbyggðina verður óhjákvæmilegt að skólar muni loka víða og að nemendur og kennarar þurfi að styðjast við fjarkennslu til lengri eða skemmri tíma. Með skýrslunni bendir UNICEF á hversu mikilvægt það er að laga sig að þessum breytta veruleika og sendir ákall til ríkisstjórna heimsins að efla leiðir til fjarkennslu fyrir þau hundruð milljóna barna sem hafa ekki tólin og tækin sem þarf til að læra þar sem þau búa. Einnig biðlar UNICEF til ríkisstjórna að forgangsraða opnun skóla þegar mögulegt er að létta á aðgerðum.

„Þetta er eitt stærsta verkefni á sviði menntamála sem UNICEF hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir. Aðstæður eru erfiðar og hindranirnar margar en allt kapp er lagt á að finna lausnir. Heil kynslóð gæti misst af skólagöngu og því brýnt að bregðast við,“ segir Birna.

Heimsforeldrar tryggja börnum menntun á tímum COVID

UNICEF hefur í áratugi barist fyrir því að öll börn geti menntað sig og gegna heimsforeldrar mikilvægu hlutverki í þeirri baráttu. Heimsforeldrar hafa gert okkur kleift að koma á fjarkennslu á afskekktum svæðum, setja upp viðunandi hreinlætisaðstöðu í skólum til að tryggja sóttvarnir, útdeila námsgögnum í flóttamannabúðum og vinna með foreldrum skólabarna til að þau geti stutt menntun barna sinna á þessum tímum, svo nokkuð sé nefnt.

Aldrei hefur stuðningur heimsforeldra verið eins mikilvægur og nú. Öll börn eiga rétt á góðri grunnmenntun og UNICEF vinnur í stórborgum jafnt sem sveitaþorpum við að leita leiða til að börn geti haldið áfram að læra þrátt fyrir að komast ekki í skólann. Með samvinnu og stuðningi getum við tekist á við þessa áskorun þar sem framtíð heillar kynslóðar er í húfi.

Þú getur hjálpað okkur að tryggja réttindi barna til menntunar með því að ganga í lið heimsforeldra.

Hægt er að fræðast meira um það sem UNICEF gerir til að tryggja menntun barna á tímum kórónaveirunnar hér.

Gerast heimsforeldri.

Skýrsluna The Remote Learning Reachability má nálgast hér.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn