9. desember 2021 Aldrei fyrr í 75 ára sögu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, höfum við staðið frammi fyrir annarri eins krísu fyrir börn um allan heim en vegna afleiðinga Covid-19. Í nýrri skýrslu UNICEF sem ber heitið Preventing a lost decade: Urgent action to reverse the devastating impact of COVID-19 on children and young people er kastljósinu beint að því hvernig COVID-19 hefur grafið undan áratuga framförum í þágu réttinda barna. Afleiðingarnar eru aukin fátækt, skert heilbrigðisþjónusta, aðgengi að menntun, næringu, barnavernd og geðheilbrigðisþjónustu. Réttindum barna er ógnað nú sem aldrei fyrr.
„Í gegnum tíðina hefur UNICEF lagt grunn að heilbrigðara og öruggara umhverfi fyrir börn um allan heim með frábærum árangri fyrir milljónir barna. Þessum árangri er nú ógnað,“ segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, í tilefni útgáfu skýrslunnar.
Stærsta ógnin við réttindi barna
„Heimsfaraldur COVID-19 er stærsta ógn við framfarir í þágu barna í 75 ára sögu okkar. Fleiri börn á heimsvísu búa nú við hungur, ofbeldi, misnotkun, fátækt, skert aðgengi að menntun, heilbrigðisþjónustu, matvælaöryggi og grunnþjónustu. Staða barna hefur tekið mörg skref aftur á bak.“
Í skýrslunni kemur fram að börnum sem búa nú við fjölþætta fátækt vegna heimsfaraldursins hefur fjölgað um 100 milljónir eða sem nemur 10 prósenta aukningu frá árinu 2019. Samkvæmt niðurstöðu skýrslunnar er áætlað, jafnvel þó miðað sé við bestu mögulegu sviðsmyndina, að það muni taka sjö til átta ár að ná jafnvægi í þeim fjölda barna sem búa við fátækt og endurheimta þá stöðu sem var fyrir heimsfaraldur COVID-19.
Meðal annarra niðurstaðna skýrslunnar eru að börnum sem búa á heimili þar sem fjárhagsleg fátækt ríkir hefur fjölgað um 60 milljónir frá því fyrir heimsfaraldurinn og að árið 2020 hafi 23 milljónir barna misst af grunnbólusetningum eða fjórum milljónum fleiri börn en árið 2019.
Aðrar niðurstöður:
- Á hápunkti faraldursins voru 1,6 milljarðar barna ekki í skóla vegna lokana;
- Geðheilbrigðisvandi hefur hrjáð rúmlega 13 prósent ungmenna á aldrinum 10-19 ára á heimsvísu. Þá raskaði heimsfaraldurinn nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu hjá 93% þjóða á heimsvísu;
- 10 milljón fleiri barnahjónabönd munu verða að veruleika vegna afleiðinga faraldursins næsta áratuginn;
- Fjöldi barna í barnaþrælkun hefur náð 160 milljónum á heimsvísu og hefur sá fjöldi aukist um 8,4 milljónir á síðustu fjórum árum. Fátækt vegna faraldursins setur 9 milljónir barna til viðbótar í hættu á að vera hrakin til vinnu fyrir árslok 2022.
- 50 milljónir barna þjást af rýrnun, hættulegustu tegund vannæringar, og áætlað er að þessi tala hækki um 9 milljónir fyrir árslok 2022.
Stödd á krossgötum
En ekki eru allar ógnir sem steðja að réttindum barna tengdar COVID-19. 426 milljónir barna, nærri eitt af hverjum fimm börnum, búa á átakasvæðum. Þörf á mannúðaraðstoð er í 80% tilfella tengd átökum. Aukinheldur búa 1 milljarður barna í löndum sem eru í mikilli hættu vegna áhrifa hamfarahlýnunar. Það er því óhætt að segja að skýrsla þessi dragi upp ansi dökka mynd. UNICEF ætlar sér þó nú, sem endranær, að halda áfram þrotlausri baráttu sinni gegn þessari þróun og í þágu réttinda barna.
„Á tímum heimsfaraldurs, aukinna átaka og hamfarahlýnunar hefur aldrei verið mikilvægara að setja börnin í fyrsta sætið,“ segir Henrietta Fore.
„Við erum stödd á krossgötum. Á meðan við höldum áfram að vinna með stjórnvöldum, styrktaraðilum og öðrum stofnunum um allan heim í að kortleggja sameiginlega vegferð okkar til næstu 75 ára, þá verðum við að auka fjárfestingu í málefnum barna. Setjum fjárfestingu í börnum í fyrsta sætið og niðurskurð í málefnum barna í það síðasta. Loforð okkar um bætta framtíð er byggt á grunni þess hvað við setjum í forgang í nútíðinni.“
Heimsforeldrar og aðrir velunnarar UNICEF á Íslandi leggja sitt af mörkum til að styðja áframhaldandi baráttu UNICEF fyrir réttindum barna um allan heim. Stuðningur þinn við verkefni Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna er mikilvægari en nokkru sinni fyrr nú þegar framundan er mikil og löng vinna við að endurheimta það sem heimsfaraldurinn hefur haft af börnum.
Skýrsluna í heild sinni má lesa hér.