20. apríl 2020

COVID-19 eykur enn á neyð barna í Mið-Austurlöndum og N-Afríku

Á meðan við Íslendingar sjáum jákvæð teikn á lofti varðandi útbreiðslu COVID-19 þá heldur veiran áfram að breiðast hratt út í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku

20. apríl 2020 Á meðan við Íslendingar sjáum jákvæð teikn á lofti varðandi útbreiðslu COVID-19 þá heldur veiran áfram að breiðast hratt út í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Veiran barst tiltölulega seint til margra landa á þessu svæði miðað við annars staðar í heiminum en nú þegar eru staðfest tilfelli orðin rúmlega 105 þúsund og 5.700 dauðsföll rakin til kórónaveirunnar. Flest tilfellin, eða 80 prósent, má rekja til Íran. Heimsfaraldur drepsóttar var það síðasta sem börn í þessum heimshlutum þurftu.

„Hvergi í heiminum eru fleiri börn í neyð vegna áframhaldandi stríðsátaka en á þessu svæði,“ segir Ted Chaiban, svæðisstjóri UNICEF í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, í tilkynningu frá UNICEF í dag.

„Hvergi er atvinnuleysi hærra meðal ungs fólks og helmingur barna býr við margvíslegan skort og fátækt. Þau njóta ekki grunnþjónustu á borð við menntunar, húsnæðis, næringar, heilbrigðisþjónustu, hreins vatns, hreinlætisaðstöðu eða aðgengi að upplýsingum,“ segir Chaiban og heldur áfram.

„Þetta samspil skorts á grunnþjónustu, áralangra átaka, fátæktar og nú COVID-19 leggst þyngst á viðkvæmustu börnin. Það gerir erfið líf þeirra óbærileg. Því lengur sem þetta varir því djúpstæðari verða áhrifin, einkum á börnin.“

Á þessu svæði búa 25 milljónir barna í neyð, þar á meðal börn á flótta og á vergangi. Meirihluti þessara barna var rifinn upp með rótum vegna stríðsátaka í Sýrlandi, Jemen, Súdan, Palestínu, Írak og Líbíu. UNESCWA áætlar að 1,7 milljón störf glatist á þessu ári vegna afleiðinga COVID-19 á efnahags- og atvinnulíf þjóða. Búist er við að þetta muni fjölga fólki sem býr við fátækt á svæðinu um 8 milljónir. UNICEF áætlar að helmingur þeirra, eða fjórar milljónir, séu börn. Afleiðingar þessa, án viðunandi inngrips og öryggisnets, eru þekktar. Fjölskyldur munu í neyð sinni þurfa að senda börn sín í erfiðisvinnu og þrælkun, gefa dætur sínar í hjónaband og draga börn sín úr skóla.

„Það er mikil gæfa að tilfelli COVID-19 meðal barna eru ekki mörg en á sama tíma er augljóst að þessi heimsfaraldur hefur beinar og alvarlegar afleiðingar í för með sér á líf þeirra engu að síður. Margar fjölskyldur eru að sökkva í fen fátæktar og fyrirvinna heimilisins missa atvinnuna.“

UNICEF vinnur með samstarfsaðilum í öllum löndum þessa svæðis í baráttunni gegn COVID-19 og afleiðingum hennar. UNICEF stendur í umfangsmestu mannúðaraðgerðum veraldar í Sýrlandi og Jemen.

  • UNICEF starfar með stjórnvöldum og öðrum frjálsum félagasamtökum við að ná til barna, ungmenna og fjölskyldna þeirra með nýjar upplýsingar og fræðslu um hvernig hægt sé að draga úr smithættu og viðhalda líkamlegri og andlegri velferð allra á þessum erfiðu tímum. Á undanförnum vikum hefur UNICEF náð til 22 milljóna manna í gegnum sjónvarp, útvarp og dagblöð auk þess sem við náðum í 7 milljónir manna með stafrænum hætti.
  • Þrátt fyrir lokun landamæra og lamaðar flugsamgöngur hefur UNICEF samt sem áður afhent 1,6 milljónir eininga af margvíslegum hjálpargögnum innan svæðisins, meðal annars með því að útvega þau hjá innlendum fyrirtækjum, stórum og smáum til að styðja efnahags viðkomandi þjóða. Þá er meðtalinn stuðningur við heilbrigðisráðuneyti, heilbrigðisstarfsmenn og framlínustarfsmenn í heilbrigðisþjónustu sem fengið hafa nauðsynleg hjálpargögn á borð við andlitsgrímur, hanska, hlífðarsloppa og gleraugu, COVID-19 prufur, hreinlætisvörur, hitamæla og fræðslu fyrir starfsfólk um meðhöndlun veirunnar og smitvarnir.
  • UNICEF hefur starfað með samstarfsaðilum við að viðhalda og gera við vatnsdreifikerfi til að tryggja öruggt og rennandi vatn í samfélögum víðs vegar um svæðið því gríðarmikilvægt er að auka aðgengi að hreinu, rennandi vatni til að viðhalda hreinlæti og handþvotti til að draga úr smiti. UNICEF hefur útvegað vatn, hreinlætisvörur, drykkjarvatn, sápu, sjampó, handspritt og annað slíkt svo aðeins fátt eitt sé nefnd.
  • 110 milljónir barna í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku eru nú ekki í skóla vegna ástandsins. UNICEF er að styðja við aðgerðir menntamálaráðuneyta við að tryggja fjarkennslu og koma upp nauðsynlegum tæknilausnum svo hægt sé að tryggja áframhaldandi nám í gegnum útvarp, sjónvarp, á netinu og í gegnum útprentað efni.
  • UNICEF hefur einnig sinnt því mikilvæga starfi að veita foreldrum og forráðamönnum sem eru heima að hugsa um börnin afþreyingarefni og aukanámsefni til að auðvelda þeim heimasetuna.
  • UNICEF hefur líka staðið í framlínunni í baráttunni gegn falsfréttum og rangupplýsingum í tengslum við heimsfaraldurinn og unnið að því að bæði í prenti og á netinu að koma réttum og áreiðanlegum upplýsingum til almennings í samstarfi við aðrar stofnanir.

UNICEF í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku áætlar að safna þurfi 92,4 milljónum Bandaríkjadala til að halda starfi þessu áfram. Þú getur hjálpað.

UNICEF þarf á þínum stuðningi að halda til að ná til, vernda og aðstoða viðkvæman hóp barna og fjölskyldur þeirra í erfiðum aðstæðum í heimsfaraldri Covid-19 kórónaveirunnar. Þú getur lagt þitt af mörkum. Sendu sms-ið BARN í númerið 1900 (1.900 kr.).

Þú getur einnig styrkt söfnun UNICEF á Íslandi með framlagi að eigin vali hér.

Fleiri
fréttir

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira
Fara í fréttasafn