10. janúar 2020

Börn hverfa sporlaust úr búðum Róhingja

Aukning hefur orðið í tilkynningum á týndum börnum og staðfestum tilfellum mannráns innan flóttamannabúða Róhingja í Cox‘s Bazar í Bangladess.

10. janúar 2020 Aukning hefur orðið í tilkynningum á týndum börnum og staðfestum tilfellum mannráns innan flóttamannabúða Róhingja í Cox‘s Bazar í Bangladess. Mannshvörfin eru í mörgum tilfellum talin tengjast mansalshringjum og flóttamannasmyglurum samkvæmt UNICEF.

Ljóst er að ekkert gott bíður þeirra barna sem lenda í klóm þessar glæpamanna sem selja þau áfram í hagnaðarvon til annarra glæpamanna í nærliggjandi löndum.

Samkvæmt umfjöllun UNICEF er þekkt að mismunandi tegundir af mansali eigi sér stað í Cox‘s Bazar. Oft er þó erfitt að sanna ásakanir í þessum málum og erfitt að staðfesta raunverulegt umfang vandans þar sem ekki öll tilfelli eru tilkynnt og það getur tekið langan tíma að gera það. Sérstaklega þegar börn og ungmenn hverfa algjörlega sporlaust.

Fátækt og algjör skortur á tækifærum til að vinna fyrir sér í búðunum eru talin helsti drifkraftur þessarar glæpastarfsemi. Flóttamönnum er bannað að vinna fyrir sér sem gerir til dæmis þær hundruð þúsunda sem búa í flóttamannabúðum Róhingja í Bangladess algjörlega háð mannúðaraðstoð. Aðstæður sem þessar ala á örvæntingu, áhættusækni og auka hættuna á misnotkun ýmiskonar. Örvæntingarfullar fjölskyldur senda oft börnin sín í hættuleg störf utan búðanna því það er engin önnur leið til að vinna fyrir sér innan þeirra. Gylliboð glæpamanna um betra líf annars staðar geta síðan verið lokkandi fyrir þennan gríðarviðkvæma hóp. Mansalsfórnarlömb enda oft annars staðar í Bangladess, eða í Malasíu, Taílandi, Indlandi og Evrópu og átta sig ekki á þeim hættulegu aðstæðum sem þau eru í fyrr en það er um seinan.

UNICEF fær reglulega upplýsingar í gegnum samstarfsaðila um stöðu þessara mála. Á fyrstu sex mánuðum síðasta árs var tilkynnt um 281 mansalsmál þar sem börn áttu í hlut. 156 stúlkur og 125 drengir. Síðan 1. september síðastliðinn var staðan sú að 1.100 mál þar sem grunur var um mansal á börnum höfðu verið skrá síðan í ágúst 2017.

UNICEF vinnur öflugt starf við að upplýsa fólk um hættur mansals, aðstoða og vernda börn og ungmenni í þessum búðum ásamt samstarfsfélögum.

Meira þarf þó að gera innan þessara búða eins og að auka tækifæri kvenna, stúlka, drengja og unglinga innan þeirra til að bæta líf sitt svo gylliboð glæpamanna heilli ekki lengur.

Hér fyrir neðan fylgja nokkrar átakanlegar sögur fólks sem misst hefur börnin sín í hendur mansalshringja og smyglara sem starfsfólk UNICEF á vettvangi hefur skrásett.

Fatima Begum (á mynd hér fyrir ofan) situr á heimili sínu og grætur í kjól dóttur sinnar, hinnar sextán ára gömlu Jannat Ara, sem hvarf fyrir níu mánuðum síðan. Fatima telur víst að dóttir hennar hafi verið seld mansali.

Hún útskýrir að fyrir níu mánuðum síðan hafi maður komið að máli við fjölskylduna og óskað eftir að fá að giftast Jannat. Þeirri beiðni var hafnað enda taldi fjölskyldan hana of unga til að giftast. Nokkrum dögum síðar var hún horfin. Hún hafið verið á leið sinni til vinnu í skólamiðstöð þar sem hún starfaði sem sjálfboðaliði við að annast börn.

Fjölmörgum vikum síðar heyrði fjölskyldan loks frá Jannat. Hún útskýrði að hún hefði gifst manni og þau byggju nú í Jammu í norðurhluta Indlands. Mánuðir liðu án þess að það heyrðist frá henni aftur. Snemma morguns einn daginn fékk fjölskyldan svo símtal frá ættingja sem býr í Indlandi. Sá útskýrði að hann hefði fengið fréttir af því að Jannat hefði verið handtekin fyrir að geta ekki framvísað neinum persónuskilríkjum og nauðsynlegum pappírum. Þegar hún var handtekin var hún að reyna að komast aftur yfir landamæri Indlands og Bangladess.

„Ég trúi því að dóttir mín hafi verið göbbuð til að giftast þessum manni og þegar þau komu til Indlands seldi hann hana. Hann er mannræningi sem tók dóttur mína,“ segir Fatima og tárin streyma niður kinnar hennar. „Ég er svo áhyggjufull. Ég hef ekki talað við hana í marga mánuði. Hún er í fangelsi, ein á ókunnugum stað.“

Salim Taallah (á mynd hér fyrir ofan) heldur á fótboltatreyju sonar síns, hins tólf ára gamla Korimullah. Fyrir sex mánuðum síðan fór Korimullah út að leika sér skammt frá heimili fjölskyldunnar í Balukhali-búðunum í Cox‘s Bazar. Hann hefur ekki sést síðan.

„Það eru svo margir drengir og stúlkur sem hverfa í þessum búðum að ég óttast að sonur minn hafi verið seldur mansali. Ég er fastur hérna, dæmdur til að lifa við þann yfirþyrmandi sársauka að hafa misst barn og geta ekkert gert. Ekki einu sinni farið út fyrir búðirnar að leita að honum. Yfirvöld banna mér það,“ segir Salim, sem leitaði sonar síns alls staðar í búðunum eftir að hann hvarf.

Hin þrítuga Anjuma Bengum er á myndinni hér fyrir ofan með fimm ára dóttur sinni Lölu Bibi á heimili þeirra í Balukhali-búðunum í Cox‘s Bazar. Asma, níu ára dóttir Anjumu, hvarf sporlaust þegar hún var á leið á markaðinn að sækja matvöru.

„Ég er handviss um að dóttir mín var tekin. Hún hefði ekki týnst annars. Ég bið á hverjum degi að hún sé örugg, hvar sem hún er.“

Kulsum Bahar (27) er hér á myndinni fyrir ofan að líta eftir ungum syni sínum sem sefur í vöggu. Hún rifjar upp þegar átta ára gömul dóttir hennar, Jannatara, hvarf fyrir fjórtán mánuðum síðan.

Jannatara var á leið heim úr skólamiðstöðinni í Balukhali-búðunum í Cox‘s Bazar. Kulsum telur víst að dóttur hennar hafi verið rænt og hún seld mansali.

„Ef ég aðeins vissi hvort hún væri á lífi og að hún hefði það gott. Ég myndi faðma hana að mér og segja henni að ég elska hana,“ segir Kulsum og beygir af. „Ég finn á mér að ef hún er á lífi, þá sé hún einhvers staðar langt í burtu.“

---

UNICEF á Íslandi stóð fyrir neyðarsöfnun fyrir Róhingja á flótta í lok árs 2017 og framlög frá almenningi hér á landi nýttust í að veita börnum sem voru nýkomin í flóttamannabúðirnar lífsnauðsynlega hjálp. Framlög heimsforeldra hafa einnig runnið til neyðaraðgerða UNICEF fyrir börn á flótta frá Mjanmar. Þú getur líka gerst Heimsforeldri með því að skrá þig hér.

Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn