Menu

Börn fá orðið á alþjóðadegi barna

■ Teljum niður til 20. nóvember ■ Fyrstu Réttindaskólar UNICEF á Íslandi fá viðurkenningu ■ Ungmennaráð UNICEF gefur börnum orðið ■ David Beckham ræðir heimsmálin við börn

 

Á alþjóðadegi barna, þann 20. nóvember, munu börn um allan heim fá orðið í fjölmiðlum, stjórnmálum, íþróttum og listum, í þeim tilgangi að tala fyrir menntun, réttindum og öryggi allra barna. Dagurinn, sem haldinn er 20. nóvember ár hvert, er einnig afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í tilefni dagsins fá fyrstu Réttindaskólar UNICEF á Íslandi viðurkenningu, en það eru Flataskóliog Laugarnesskóli ásamt frístundaheimilunum Dalheimum, Laugaseli og Krakkakoti. Í samstarfi við UNICEF leggja þessir skólar og frístundaheimili Barnasáttmálann til grundvallar í öllu sínu í starfi.

UNICEF á Íslandi hvetur fjölmiðla, skóla, foreldra og ráðamenn til að gefa börnum orðið alla daga, og vill nýta alþjóðadag barna til þess að minna á það. UNICEF á Íslandi vill að 20. Nóvember fái börn tækifæri til að tjá skoðanir sínar, og tala fyrir réttindum sínum og annarra barna heima hjá sér, í skólanum og úti í samfélaginu. 

„Nú þegar kosningar eru nýafstaðnar þykir okkur mikilvægt að hlustað sé eftir skoðunum barna“ segir Steinunn Jakobsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi. „Börn eru ekki með kosningarétt, en eru hins vegar sá þjóðfélagshópur sem treystir hvað mest á vilja stjórnvalda til að tryggja menntun þeirra og öryggi.“

Börn fá orðið um allan heim

Í aðdraganda 20. nóvember mun UNICEF gefa börnum um allan heim orðið svo þau geti talað fyrir réttindum sínum og annarra barna, því þrátt fyrir miklar framfarir undanfarinna áratuga er staðan í heiminum enn sú að:

  • 385 milljón börn búa við mikla fátækt
  • 264 milljón börn og ungmenni eru utan skóla
  • 5,6 milljón börn undir fimm ára aldri létust á síðasta ári af fyrirbyggjanlegum orsökum

Alþjóðlega munu þekktir leikarar, íþróttafólk og þjóðarleiðtogar taka þátt í deginum. Sem dæmi má nefna að:

  • David Beckham, góðgerðarsendiherra UNICEF, mun spyrja börn út í skoðanir þeirra á stöðu heimsmála í stuttmynd sem gefin verður út á alþjóðadegi barna;
  • Börn munu taka yfir verkefni ríkisstjórna, borgarstjóra, íþróttafólks og leikfangafyrirtækja á borð við Lego;
  • Leikkonurnar Dafne Keen (Logan) og Isabela Moner (Transformers: the Last Knight), ásamt Nickelodeon munu stýra samkomu 150 barna í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.

Hér á Íslandi má búast má við skemmtilegum uppákomum í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum sem fylgjast má með undir myllumerkinu #börnfáorðið. Ungmennaráð UNICEF á Íslandi er einnig að vinna að myndböndum með nokkrum börnum þar sem þau velta fyrir sér framtíðinni og verður spennandi að fylgjast með. 

UNICEF á Íslandi hlakkar til að fagna alþjóðadegi barna og hvetur alla til að taka þátt!

Kynningarmyndband um alþjóðadag barna má sjá hér

#börnfáorðið

Ég vil gefa mánaðarlega

Þitt framlag

Eða

Önnur upphæð