19. nóvember 2021

Börn eru bjartsýnni á betri heim en fullorðnir

Ný alþjóðleg könnun UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, og Gallup sýnir að ungt fólk í dag er helmingi líklegra en fullorðnir til að telja heiminn fara batnandi. Niðurstöður könnunarinnar voru birtar í tilefni alþjóðadags barna, sem haldinn er hátíðlegur um allan heim þann 20. nóvember.

Ný alþjóðleg könnun UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, og Gallup sýnir að ungt fólk í dag er helmingi líklegra en fullorðnir til að telja heiminn fara batnandi – Þau eru þó óþolinmóðari eftir aðgerðum gegn yfirvofandi krísum og mikill meirihluti þeirra telur hættur steðja að börnum á netinu. Niðurstöður könnunarinnar voru birtar í tilefni alþjóðadags barna, sem haldinn er hátíðlegur um allan heim þann 20. nóvember. Dagurinn er einnig afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, útbreiddasta mannréttindasáttmála heims.

Ungt fólk sér sig sem hluta af lausninni

Kynslóðakönnunin, sem ber yfirskriftina The Changing Childhood Project, er sú fyrsta sinnar tegundar þar sem nokkrar kynslóðir eru spurðar út í heimssýn sína og hvernig það sé að vera barn í dag. Könnunin náði til 21 þúsund einstaklinga í tveimur aldurshópum, 15-24 ára og 40 ára og eldri í 21 landi í Afríku, Asíu, Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku. Hægt er að skoða niðurstöðurnar á skemmtilegri gagnvirkri heimasíðu þar sem hægt er að máta eigin viðhorf við niðurstöður könnunarinnar.

„Það er enginn skortur á ástæðum til svartsýni í heiminum í dag: Hamfarahlýnun, heimsfaraldur, fátækt og misskipting, aukið vantraust og þjóðernishyggja. En hér er ástæða til bjartsýni: Börn og ungmenni neita að horfa á heiminn í gegnum sömu svartsýnisgleraugun og fullorðnir,“ segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF. „Í samanburði við eldri kynslóðir þá er æska heimsins vongóð, alþjóðlega þenkjandi og staðráðin í að gera veröldina að betri stað. Unga fólkið í dag hefur vissulega áhyggjur af vandamálum framtíðarinnar en sjá sig frekar sem hluta af lausninni.“

Börn opnari fyrir alþjóðlegu samstarfi

Niðurstöður könnunarinnar sýna að börn og ungmenni eru nærri 50% líklegri en eldri kynslóðir til að telja að heimurinn fari batnandi með hverri kynslóð. Yfirgnæfandi meirihluti ungs fólks telur að heilbrigðisþjónusta, menntun og öryggi barna sé betra nú en þegar foreldrar þeirra voru börn.

Þrátt fyrir þessa bjartsýni þá eru ungmenni fjarri því að vera einfeldningsleg í sýn sinni á samfélagsmein nútímans. Þau lýsa áhyggjum sínum og óþolinmæði varðandi aðgerðir gegn hamfarahlýnun, þau eru gagnrýnin á þær upplýsingar sem haldið er að þeim á samfélagsmiðlum og glíma einnig við erfiðar tilfinningar á borð við þunglyndi og kvíða. Börn og ungmenni eru mun líklegri en eldri kynslóðir til að líta á sig sem heimsborgara og eru opnari fyrir alþjóðlegu samstarfi í baráttunni gegn hættum eins og heimsfaraldri COVID-19.

Auk ofangreinds þá sýna niðurstöðurnar að börn og ungmenni treysti frekar stjórnvöldum, vísindamönnum og alþjóðlegum fréttaveitum sem áreiðanlegum heimildum fyrir upplýsingar. Þau eru hins vegar meðvituð um hætturnar sem að þeim og heimsbyggðinni steðja:

  • Meirihluti ungs fólks telur hættur steðja að börnum á netinu svo sem í gegnum ofbeldisfullt- eða kynferðislegt efni (78%) eða neteinelti (79%);
  • Aðeins 17% ungmenna segja að hægt sé að treysta samfélagsmiðlum til að finna réttar upplýsingar;
  • 64% ungs fólks í lág- og millitekjuríkjum telja að börn í þeirra landi muni hafa það fjárhagslega betra en foreldrar þeirra en ungmenni í hátekjuríkjum bera lítið traust til efnhagsmála. Þar telja innan við þriðjungar svarenda að börn í dag muni hafa það betra fjárhagslega en foreldrar þeirra;
  • Rúmlega þriðjungur ungmenna segjast oft upplifa áhyggjur eða kvíða og nærri einn af hverjum fimm segist oft finna fyrir þunglyndi og áhuga- og framtaksleysi;
  • Að meðaltali telja 59% ungmenna að börn í dag lifi við meiri pressu að gera betur en foreldrar sínir.

Börn vilja að hlustað sé á þau

Niðurstöðurnar sýna einnig að ungmenni eru óþreyjufyllri eftir árangri í baráttunni gegn hvers kyns mismunun, meira samstarfi milli þjóða og að stjórnvöld hlusti á þau.

  • Að meðaltali telja nærri 75% ungmenna, sem eru meðvituð um loftslagsbreytingar, að stjórnvöld eigi að grípa til harðari aðgerða til að taka á þeim. Þetta hlutfall er hærra, 83%, í lág- og millitekjuríkjum þar sem búast má við að áhrif loftslagsbreytinga verði verst.
  • Í nærri öllum löndum taldi meirihluti ungs fólks að betur hefði gengið í baráttunni við COVID-19 ef ríki heims hefðu unnið skipulega saman í stað þess að takast á við vandann hvert í sínu horni.
  • Ungt fólk sýndi meiri stuðning við réttindabaráttu LGBTQ fólks og jafnréttisbaráttu kvenna.
  • Að meðaltali töldu 58 prósent ungmenna á aldrinum 15-24 ára að mjög mikilvægt væri fyrir þjóðarleiðtoga að hlusta á börn.

„Við getum aldrei vitað hvað ungt fólk er að hugsa ef við spyrjum ekki. Þessi könnun UNICEF sýnir mikilvægi þess að hlusta á komandi kynslóðir og skilja sjónarhorn þeirra,“ segir Joe Daly, stjórnandi hjá Gallup. „Börn dagsins í dag eru leiðtogar framtíðarinnar. Það er nauðsynlegt fyrir eldri kynslóðirnar að gera sitt til að tryggja að þessi börn erfi betri heim.“

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn