Neyðarbólusetningarátak fyrir börn á Gaza gegn mænusótt heldur áfram af krafti og dagana 22. – 26. febrúar er stefnt á að ná til rúmlega 590 þúsund barna undir 10 ára aldri. Líkt og fram hefur komið greindist lömunarveiki í sýnum á Gaza á síðasta ári og var mannúðarhlé til bólusetninga nýtt vel til að ná til hundruð þúsunda barna víðs vegar um Gaza.
Smelltu hér til að styrkja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn á Gaza.
Í tilkynningu UNICEF og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) segir að enn sé hætta á útbreiðslu þar sem enn séu glufur í netinu vegna íbúa sem lítið eða ekkert ónæmi hafi gegn sjúkdómnum. Ástandið á Gaza nú, í mannmergð flóttamannabúða, þar sem innviðir vatns og hreinlætisþjónustu séu bágbornar eða vart til staðar í sumum tilfellum skapi kjöraðstæður fyrir útbreiðslu sjúkdóma eins og mænusóttar.
Mænusóttarveira greindist í nýlegum sýnum
Síðan ráðist var í hina umfangsmiklu bólusetningarherferð í september og október síðastliðinn hefur ekkert tilfelli mænusóttar greinst síðan 10 mánaða barn greindist í ágúst. En mænusóttarveira fannst í umhverfissýnum sem tekin voru í desember og janúar síðastliðnum í Deir al Balah og Khan Younis, sem sýnir fram á að hættan er vissulega til staðar.
Í bólusetningunni nú er sem fyrr segir stefnt á að ná til barna undir 10 ára aldri, þar á meðal þeirra sem ekki náðist að bólusetja í fyrri umferðum á síðasta ári og þar með stoppa í göt hjarðónæmis sem til staðar eru og koma í veg fyrir faraldur.
Palestínska heilbrigðisráðuneytið fer fyrir herferðinni með stuðningi frá WHO, UNICEF og UNRWA.
Mænusóttarbóluefni eru örugg, engin takmörk eru fyrir því hversu oft má bólusetja börn með þeim og hver skammtur eykur aðeins vörn einstaklinga gegn veirunni, að því er segir í tilkynningu UNICEF og WHO. Að lokum fagna UNICEF og WHO núverandi vopnahléi og kalla eftir að það verði varanlegt og leiði til langtímafriðar.
Smelltu hér til að styrkja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn á Gaza.