19. september 2019

Barn eða móðir deyr á ellefu sekúndna fresti

Fleiri börn og konur eru að lifa af núna en nokkru sinni samkvæmt nýrri skýrslu stofnana Sameinuðu þjóðanna, undir forystu UNICEF, og Alþjóðheilbrigðsmálastofnunarinnar (WHO) á barnadauða í heiminum sem birt var í dag.

19. september 2019 Fleiri börn og konur eru að lifa af núna en nokkru sinni samkvæmt nýrri skýrslu stofnana Sameinuðu þjóðanna, undir forystu UNICEF, og Alþjóðheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um barnadauða í heiminum sem birt var í dag.

Þar kemur fram að frá árinu 2000 hefur barnadauði dregist saman um næstum helming og mæðradauða um þriðjung. Þessum árangri er að mestu að þakka bættu aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

„Í löndum þar sem öllum stendur til boða örugg, ódýr og góð heilbrigðisþjónusta lifa konur og börn og þrífast,“ segir Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður WHO. „Þetta er máttur heilbrigðisþjónustu fyrir alla.“

Þrátt fyrir þennan góða árangur sem náðst hefur þá gera áætlanir ráð fyrir að 6,2 milljónir barna undir 15 ára aldri hafi látist í fyrra og ríflega 290 þúsund konur látist á meðgöngu eða vegna vandkvæða tengdum fæðingu árið 2017. Af heildartölu látinna barna þá létust 5,3 milljónir þeirra á fyrstu fimm árum ævinnar, þar af helmingur á fyrsta mánuðinum.

Í skýrslunni segir að konur og nýfædd börn séu eðlilega viðkvæmari fyrir hvers kyns vandkvæðum í og strax eftir fæðingu. Áætlað er að 2,8 milljónir óléttra kvenna og hvítvoðunga látist á ári, það er ein kona eða barn á 11 sekúndna fresti, að mestu leyti af orsökum sem koma mætti í veg fyrir.

„Um allan heim er fæðing barns hamingjustund. En samt, á ellefu sekúndna fresti, breytist fæðing í fjölskylduharmleik,“ segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF.

„Hæfar hendur til að hjálpa móður og barni í fæðingu, hreint vatn, fullnægjandi næring, lyf og bólusetningar geta skilið milli lífs og dauða. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma á heilbrigðiskerfi fyrir alla til að bjarga þessum dýrmætu lífum sem tapast.“

Skýrslan sýnir einnig að ójafnt er gefið í þessum efnum eftir heimshlutum. Í löndum sunnan Sahara-eyðimerkurinnar í Afríku eru lífslíkur umtalsvert verri en annars staðar. Mæðradauði er fimmtíu sinnum hærri hjá konum þar og börn þeirra eru tíu sinnum líklegri til að látast á fyrsta mánuði ævi sinnar en í velmegunarsamfélögum.

Á síðasta ári lést eitt af hverju þrettán barni í sunnanverðri Afríku fyrir fimm ára afmæli sitt. Það er fimmtán sinnum hærri dánartíðni en barn stendur frammi fyrir í Evrópu þar sem eitt af hverjum 196 börnum yngri en fimm ára láta lífið.

Raunar má rekja 80 prósent af barna- og mæðradauða heimsins til landa sunnan Sahara í Afríku og suðaustur Asíu.

Þetta eru augljóslega hrollvekjandi tölur en góðu fréttirnar í þessu eru þrátt fyrir allt þær að umtalsverður árangur hefur náðst í að draga úr þeim. Frá árinu 1990 hefur til að mynda dauðsföllum barna undir 15 ára aldri dregist saman um 56 prósent. Farið úr 14,2 milljónum dauðsfalla í 6,2 milljónir í fyrra. Mestur árangur hefur náðst í austur og suðausturhluta Asíu þar sem dauðsföllum barna undir fimm ára aldri hefur fækkað um 80 prósent.

Á árunum 2000 til 2017 hefur mæðradauði dregist saman í heildina um 38 prósent. Mestur árangur þar hefur náðst í Mið- og Suður– Asíu þar sem tilfellum mæðradauða hefur fækkað um 60 prósent.

Niðurstaða skýrslunnar er að þennan árangur megi rekja til pólitísks vilja til að bæta aðgang að gæðaþjónustu í heilbrigðiskerfinu, fjárfestingu í heilbrigðisstarfsfólki og því að mæðrum og nýfæddum börnum sé boðið upp á ókeypis mæðravernd og ungbarnaeftirlit.

Fleiri
fréttir

27. mars 2024

Níu ár af stríði í Jemen: Milljónir barna vannærð
Lesa meira

15. mars 2024

Þrettán ár af stríði í Sýrlandi: UNICEF aðstoðaði milljónir í fyrra en þörfin aldrei meiri
Lesa meira

13. mars 2024

Sögulegur árangur í baráttunni gegn barnadauða
Lesa meira
Fara í fréttasafn