20. mars 2020

Hin mörgu andlit COVID-19: Aukin hætta á að börn sæti ofbeldi

UNICEF hvetur stjórnvöld um allan heim til að tryggja öryggi og velferð barna í því félags- og efnahagslega ástandi sem skapast hefur vegna Covid-19 heimsfaraldursins.

20. mars 2020

UNICEF hvetur stjórnvöld um allan heim til að tryggja öryggi og velferð barna í því félags- og efnahagslega ástandi sem skapast hefur vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Miðað við fyrri reynslu má áætla að hundruð milljóna barna um allan heim séu í aukinni hættu á að sæta vanrækslu, kynbundnu ofbeldi, misnotkunar og félagslegrar útilokun vegna þeirra aðgerða sem grípa hefur þurft til.

UNICEF ásamt samstarfsaðilum sínum hjá Alliance for Child Protection in Humanitarian Action (Alliance) hafa gefið frá sér leiðbeiningar fyrir stofnanir og stjórnvöld til að styðjast við í þessum efnum.

Á nokkrum vikum hefur Covid-19 raskað lífi barna og fjölskyldna um allan heim verulega. Sóttvarnaraðgerðir á borð við skólalokanir og útgöngubann hafa, þrátt fyrir mikilvægi sitt, raskað verulega rútínu og stuðningskerfi barna. Þá setja aðgerðinar aukið álag á foreldra og forráðamenn sem missa úr vinnu á erfiðum og efnahagslega viðkvæmum tímum.

Í tilkynningu frá UNICEF segir að fregnir hermi að í Kína hafi aukning orðið á heimilisofbeldi gegn stúlkum og konum í kjölfar faraldursins þar.

„Þessi sjúkdómur er á margan hátt að ná til barna og fjölskyldna langt umfram þá sem sýkst hafa,“ segir Cornelius Williams, yfirmaður barnaverndar hjá UNICEF. „Skólum hefur verið lokað, foreldrar eiga erfitt með að hugsa um börnin og láta enda ná saman. Hættumerkin eru víða sé litið til barnaverndar. Þessar leiðbeiningar veita stjórnvöldum grunn af praktískum atriðum til að byggja á til að tryggja öryggi barna á þessum óvissutímum,“ bætir Williams við.

Í gegnum tíðina hefur það sýnt sig að tilfellum ofbeldis og misnotkunar gegn börnum hefur fjölgað í kringum faraldra og mikla heilbrigðisneyð. Svo dæmi sé tekið urðu skólalokanir í ebólafaraldrinum í Vestur-Afríku frá 2014 til 2016 til þess að veruleg aukning varð á barnaþrælkun, vanrækslu, kynferðislegri misnotkun og þungunum hjá unglingsstúlkum. Til dæmis tvöfaldaðist fjöldi þungana hjá unglingsstúlkum í Síerra Leone í 14 þúsund í faraldrinum.

Alliance mælir með því að stjórnvöld í hverju landi gæti þess að barnavernd verði hluti allrar áætlanagerðar um Covid-19 forvarnar og meðhöndlunarúrræði. Skjalið sem Alliance hefur nú gefið út má nálgast til niðurhals hér á vef UNICEF.

Ofbeldi gegn börnum of algengt á Íslandi

Í þessu samhengi er vert að minnast átaksins Stöðvum feluleikinn sem UNICEF á Íslandi fór af stað með í fyrravor til að vekja athygli á ofbeldi gegn börnum hér á landi. Var það gert í kjölfar birtingar á nýjum tölum í málaflokknum sem sýndu fram á að af rúmlega 80 þúsund börnum sem búa á Íslandi verði 13 þúsund þeirra fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdag sinn. Sum hver daglega. Í ljósi þessarar svörtu niðurstöðu kallaði UNICEF á Íslandi eftir vitundarvakningu og aðgerðum.

Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn