25. mars 2020

Sameinuðu þjóðirnar hrinda í framkvæmd alþjóðlegri aðgerðaáætlun vegna COVID-19

Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna (S.Þ.), lagði í dag fram 2 milljarða dala alþjóðlega aðgerðaáætlun í mannúðarmálum til að berjast gegn COVID-19 veirunni í viðkvæmum löndum. Verja þarf milljónir manna og stöðva veiruna áður en hún fer aðra umferð um heiminn. Þetta kemur fram í sameiginlegri fréttatilkynningu Sameinuðu þjóðanna og stofnana þeirra, þar á meðal UNICEF

Framlög íslenska ríkisins til verkefna UNICEF 2014 - 2016 (í milljónum króna). Árið 2016 veitti íslenska ríkið 213 milljónum til tvíhliða samstarfsverkefnis Íslands og UNICEF í Mósambík. Verkefnið er til fjögurra ára og felur í sér uppbyggingu vatnsveitu og salerna við skóla í dreifbýli í Zambézíufylki.

25. mars 2020 Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna (S.Þ.), lagði í dag fram 2 milljarða dala alþjóðlega aðgerðaáætlun í mannúðarmálum til að berjast gegn COVID-19 veirunni í viðkvæmum löndum. Verja þarf milljónir manna og stöðva veiruna áður en hún fer aðra umferð um heiminn. Þetta kemur fram í sameiginlegri fréttatilkynningu Sameinuðu þjóðanna og stofnana þeirra, þar á meðal UNICEF.

Rúmlega sextán þúsund manns hafa látið lífið á heimsvísu vegna COVID-19 og er fjöldi staðfestra tilfella nærri 400 þúsund. Veiran hefur náð fótfestu um nær allan heim og nú náð til landa sem þegar stóðu frammi fyrir mannúðarkrísu vegna stríðsátaka, náttúruhamfara eða loftslagsbreytinga.

Aðgerðaáætlunin verður innleidd og framkvæmd af stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Stefnt er að því að:

  • Afhenda nauðsynlegan búnað fyrir rannsóknarstofur til að skima fyrir veirunni og hjálpargögn til að meðhöndla sjúka.
  • Koma upp handþvottastöðum í flóttamannabúðum og öðrum nýlendum fólks á flótta.
  • Fara af stað með upplýsingaherferð fyrir almenning um hvernig ber að verjast veirunni og frekari dreifingu hennar.
  • Koma á loftbrú milli Afríku, Asíu og S-Ameríku til að ferja hjálparstarfsfólk og hjálpargögn þangað sem þörfin er mest.

Í tilkynningunni er haft eftir Antonio Guterres:

„COVID-19 ógnar nú mannkyninu svo mannkynið þarf að taka höndum saman og berjast á móti. Viðbragð einstakra landa mun aldrei duga til. Við verðum að koma hinum berskjölduðu og viðkvæmu til aðstoðar. Þeim milljónum sem síst geta björg sér veitt. Þetta er spurning um grundvallarsamstöðu mannfólks og lykilatriði í að berjast gegn veirunni. Þetta er tíminn til að stíga upp fyrir þá sem minna mega sín.“

Mark Lowcock, mannúðarmálastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir í tilkynningunni:

„COVID-19 hefur þegar sett daglegt líf ríkustu þjóða heims á hliðina. Nú er veiran að ná til staða þar sem fólk býr á stríðssvæðum, hefur ekki aðgang að hreinu vatni og sápu og á enga möguleika á að komast í sjúkrarúm verði það veikt. Það væri bæði miskunnarlaust og óráðlegt að skilja okkar fátækustu þjóðir eftir til að mæta örlögum sínum. Ef við leyfum kórónaveirunni að dreifa sér óhindrað á þessum svæðum setjum við milljónir manna í aukna hættu. Heilu landsvæðin færu í algjöra óreiðu og veiran fengi tækifæri til að fara annan hring um hnöttinn.“

Lowcock segir að þjóðir sem berjist nú við heimsfaraldurinn séu réttilega að forgangsraða fyrir fólkið sem þar býr.

„En sannleikurinn er bara sá að með því að aðstoða ekki okkar fátækustu lönd eru þjóðir að bregðast sínum eigin borgurum líka. Forgangsatriði okkar er að hjálpa þessum þjóðum að undirbúa sig og halda áfram að hjálpa þeim milljónum sem reiða sig á mannúðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna til að lifa af. Með nægilegu fjármagni mun þessi alþjóðlega aðgerðaáætlun veita mannúðarstofnunum okkar allt sem þarf til að berjast gegn veirunni, bjarga lífum og hjálpa til við að draga úr frekari útbreiðslu COVID-19 á heimsvísu.“

Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) segir:

„Veiran dreifir sé nú til landa sem þegar standa frammi fyrir mannúðarkrísu og heilbrigðiskerfin eru veikburða. Þessar þjóðir þurfa á stuðningi okkar að halda, fyrst og fremst til að sýna samstöðu en líka til að verja okkur öll og koma böndum á þennan heimsfaraldur. Á sama tíma megum við ekki berjast gegn þessum heimsfaraldri á kostnað allra annarra mannúðarkrísa í heilbrigðismálum.“

Henriette Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, segir í tilkynningunni:

„Börn eru földu fórnarlömb COVID-19 heimsfaraldursins. Útgöngubönn, skólalokanir og annað hafa áhrif á menntun, geðheilsu og aðgang þeirra að grundvallarheilbrigðisþjónustu. Hættan á að þau séu beitt ofbeldi eða misnotuð eykst á tímum sem þessum. Bæði hjá stúlkum og strákum. Fyrir börn á vergangi eða annarra sem búa á átakasvæðum geta afleiðingarnar verið verri en við höfum áður séð. Við megum ekki bregðast þeim.“

Leiðtogarnir komu saman með aðstoð tækninnar til að kynna aðgerðaáætlunina á myndbandsfundi í dag. Í sameiningu lögðu þau fram ákall til aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um að þau legðust á eitt við að koma viðkvæmum og berskjölduðum þjóðum til aðstoðar í baráttunni við heimsfaraldurinn með því að styrkja þessa aðgerðaáætlun. En á sama tíma draga ekki úr fjárstuðningi sínum til annarrar mannúðaraðstoðar S.Þ. sem hjálpar nú þegar rúmlega 100 milljónum manna um allan heim.

Til að koma aðgerðaáætluninni af stað veitti Mark Lowcock 60 milljónir dala úr Neyðarsjóði Sameinuðu þjóðanna (CERF) og hefur sjóðurinn þá lagt 75 milljónir dala til styrktar mannúðaraðstoð vegna COVID-19 heimsfaraldursins.

Þetta er eitt stærst framlag í sögu CERF og mun:

  • Styðja Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) til að viðhalda samfellu í birgðakeðju, flutningi starfsfólks og hjálpargagna.
  • Styðja Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) í aðgerðum sem miða að því að stöðva útbreiðslu heimsfaraldursins.
  • Styðja aðrar stofnanir sem veita mannúðaraðstoð og þeim vernd sem verst hafa orðið fyrir barðinu á heimsfaraldrinum, þar á meðal stúlkum, konum, flóttafólki og fólki á vergangi sem hefur þurft að flýja heimili sín. Stuðningurinn mun felast í að tryggja matvælaöryggi, líkamlega og andlega heilsu, aðgang að hreinu vatni, hreinlætisvörum, næringu og vernd

Nánar má lesa um áætlanir og fjárþörf UNICEF í tengslum við áætlunina hér.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn