15. mars 2019

8 ár af stríði í Sýrlandi

„Það virðist ríkja sá alvarlegi misskilningur að átökin í Sýrlandi séu á hröðu undanhaldi – það er rangt. Börn, sérstaklega á ákveðnum svæðum, eru í jafn mikilli hættu í dag og á síðastliðnum átta árum,“ segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF.

„Það virðist ríkja sá alvarlegi misskilningur að átökin í Sýrlandi séu á hröðu undanhaldi – það er rangt. Börn, sérstaklega á ákveðnum svæðum, eru í jafn mikilli hættu í dag og á síðastliðnum átta árum,“ segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF.


Dagurinn í dag, 15. mars, markar þau sorglegu tímamót að átta ár eru liðin frá því að Sýrlandsstríðið hófst. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, minnir stríðandi aðila og alþjóðasamfélagið enn einu sinni á, að það eru börn Sýrlands sem þjást mest og það er þeirra framtíð sem er í húfi.

UNICEF áætlar að um 8 milljónir barna þurfi hjálp, bæði innan Sýrlands og í nágrannaríkjunum. Hægt er að styðja neyðaraðgerðir UNICEF í Sýrlandi með því að senda sms-ið STOPP í nr 1900 (1.900 krónur) eða með því að styðja hér.

Árið 2018 var það mannskæðasta fyrir börn í sögu stríðsins, en á síðasta ári létust 1.106 börn í Sýrlandi vegna átakanna. Þetta eru þau dauðsföll sem Sameinuðu þjóðirnar hafa getað fengið staðfest, og því líklegt að raunverulegur fjöldi látinna barna sé mun hærri. Jarðsprengjur eru ein helsta orsök meiðsla og dauðsfalla barna, en vetrarkuldi og heft aðgengi lækna og hjálparstofnana að ákveðnum svæðum landsins ógna lífi barna á hverjum einasta degi. Á síðasta ári voru auk þess gerðar 262 árásir á skóla og heilsugæslur.

„Við höfum sérstaklega miklar áhyggjur af ástandinu í Idlib-héraði í norðvesturhluta Sýrlands. Á síðustu vikum hafa um 60 börn látið lífið vegna vaxandi átaka í héraðinu,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. „Aðstæður fjölskyldna í Rukban, við landamæri Jórdaníu, eru skelfilegar þar sem aðgengi hjálparstarfsfólks hefur verið mjög takmarkaður og fólkið sem þar er býr við ömurlegar aðstæður og getur hvergi farið. Nýfædd börn deyja vegna þess að enga læknisþjónustu er að fá,“ segir Bergsteinn.

Versnandi skilyrði í Al-Hol flóttamannabúðunum eru einnig mikið áhyggjuefni. Í flóttamannabúðunum búa nú 65.000 manns, þar af 240 fylgdarlaus börn. Flóttamannabúðirnar eru yfirfullar af konum og börnum sem flúðu bardaga í austurhluta landsins, langa vegalengd yfir eyðimörkina. Þau komu þangað bæði vannærð og örmagna.

„Það er ótrúlega sorglegt að þurfa að færa þessar fréttir frá Sýrlandi núna áttunda árið í röð. Með hverjum deginum sem líður er verið að ræna milljónir barna barnæsku sinni og óttinn við óvissu framtíðarinnar vofir yfir. Það er löngu orðið tímabært að segja stopp,“ segir Bergsteinn.

Á hverju ári ná UNICEF og samstarfsaðilar til milljóna barna í Sýrlandi og nágrannaríkjunum, oft við mjög erfiðar aðstæður. UNICEF leggur áherslu á að ná til allra barna sem þurfa hjálp og veita börnum og fjölskyldum þeirra lífsnauðsynlega neyðaraðstoð og sálrænan stuðning. Nú í febrúar náði UNICEF meðal annars að bólusetja þúsundir barna í Rukban gegn mislingum og mænusótt, en samtökin voru hluti af bílalest á vegum Sameinuðu þjóðanna sem fékk að koma hjálpargögnum til barna og fjölskyldna á þessu afskekkta svæði.

UNICEF sinnir nú auknum neyðaraðgerðum í Al-Hol flóttamannabúðunum og kappkostar að ná til þeirra tveggja milljóna barna um allt Sýrland sem eru ekki í skóla, meðal annars með því að setja upp bráðabirgða kennslusvæði. Þetta er gert til að koma í veg fyrir „týnda kynslóð“ barna sem fer á mis við menntun og hjálpa börnunum um leið að vinna úr áföllum sínum.

Hægt er að styðja neyðaraðgerðir UNICEF í Sýrlandi með því að senda sms-ið STOPP í nr 1900 (1.900 krónur) eða með því að styðja hér.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn