05. desember 2019

UNICEF: 59 milljónir barna í neyð á næsta ári

Í árlegri skýrslu UNICEF, Humanitarian Action for Children, sem birt hefur verið kemur fram að stofnunin þurfi 4,2 milljarða bandaríkjadala til að ná til 59 milljóna barna í 64 löndum víðs vegar um heiminn á næsta ári.

5. desember 2019 Í árlegri skýrslu UNICEF, Humanitarian Action for Children, sem birt hefur verið kemur fram að stofnunin þurfi 4,2 milljarða bandaríkjadala til að ná til 59 milljóna barna í 64 löndum víðs vegar um heiminn á næsta ári. 4,2 milljarðar dala jafngilda 520 milljörðum íslenskra króna. Er þetta stærsta ákall Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna í sögunni.

„Um allan heim erum við að sjá meiri fjölda barna í neyð en nokkurn tímann,“ segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, í tilkynningu frá stofnuninni.

„Aldrei fyrr í sögunni hafa fleiri börn neyðst til að flýja heimili sín. Aldrei fyrr hafa fleiri börn þurft á aðstoð, vernd og öryggi að halda. Átök í heiminum halda áfram að vera aðaldrifkraftur sundrungar og neyðar í heiminum sem verst kemur niður á börnum. Hungur, smitsjúkdómar og öfgar í veðri tengdir hamfarahlýnun þvinga milljónir til viðbótar til að leita sér neyðaraðstoðar,“ bætir Fore við.

Skýrslan, Humanitarian Action for Children 2020 (HAC2020), útlistar ákall UNICEF um að veita börnum á stríðs- og hamfarasvæðum um allan heim aðgang að hreinu vatni, hreinlætisvörum, næringu, menntun og heilbrigðisþjónustu. Áætlunin gerir ráð fyrir að auk fullorðinna nái aðgerðirnar til 95 milljóna manna.

Mest er neyðin metin tengd sýrlensku flóttafólki í Egyptalandi, Jórdaníu, Líbanon, Írak og Tyrklandi eða rúmlega 864 milljónir dala (104 milljarðar króna).

Þar á eftir kemur Jemen þar sem þörf er á 535 milljónum dala (65 milljörðum króna), Sýrland með 294 milljónir dala (35 milljarða króna), Lýðstjórnarlýðveldið Kongó með 262 milljónir dala (32 milljarða króna) og loks Suður-Súdan með 180 milljónir dala (22 milljarða króna).

Fore segir að ekki aðeins sé þörf á auknu fjármagni, heldur þurfi fjármagnið líka að vera „sveigjanlegt.“ Það er, ekki bundið við tiltekna neyð og auðveldi UNICEF að bregðast skjótt við þegar tilefni er til annars staðar.

Sveigjanlegt fjármagn sem þetta hjálpaði UNICEF að bregðast skjótt við erfiðum aðstæðum í Búrkína Fasó og Malí en betur má ef duga skal því aðeins fimmtungur neyðaraðstoðar í þessum löndum hefur verið fjármagnaður.

Árið 2019 áætlaði UNICEF fjárþörf fyrir neyðaraðstoð 3,9 milljarða dala sem síðar var hækkað við endurskoðun í 4,1 milljarð dala. Þann 1. nóvember síðastliðinn hafði sú heildarupphæð aðeins verið fjármögnuð að 57 prósentum. Ljóst er því að þörfin fyrir stuðning hefur aldrei verið meiri ef Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna á að ná markmiðum sínum og ná til allra barna.

Þá má geta þess að Heimsforeldrar taka virkan þátt í baráttu UNICEF um allan heim og leggja sitt að mörkum svo UNICEF nái markmiðum sínum.

Á Íslandi eru yfir 27.000 heimsforeldrar sem hjálpa UNICEF í verkefnum sínum með mánaðarlegum framlögum.

Þú getur skráð þig sem Heimsforeldri hér.

Fleiri
fréttir

29. apríl 2024

Bútan fær lof fyrir frábæran árangur í bólusetningum barna
Lesa meira

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira
Fara í fréttasafn