28. nóvember 2019

4.500 börn dáið af völdum mislinga í Kongó í ár

Það sem af er ári hafa rúmlega 5 þúsund manns, þar af 4.500 börn yngri en fimm ára, látið lífið af völdum mislinga í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó.

28. nóvember 2019 Það sem af er ári hafa rúmlega 5 þúsund manns, þar af 4.500 börn yngri en fimm ára, látið lífið af völdum mislinga í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Í austurhluta landsins hefur á árinu geisað ebólufaraldur sem heimt hefur ríflega tvö þúsund líf og fengið mikla alþjóðlega athygli. Mislingar eru hins vegar að valda tvöfalt meiri skaða, segir Edouard Beigbeder, fulltrúi UNICEF í Kongó.

„Átök og öryggisleysi, skortur á aðgengi að heilsugæslu og skortur á bóluefni á verst settu svæðunum gera það að verkum að börn fara á mis við bólusetningar með banvænum afleiðingum,“ segir Beigbeder. Þá séu ýmsar menningar- og trúarlegar hindranir í vegi þegar kemur að bólusetningum og meðhöndlun smitaðra sem þurfi að takast á við.

Beigbeder segir að þrátt fyrir þessar áskoranir þá sé lausnin til staðar, í formi bólusetningar, lykillinn sé bara að komast að hverju barni burtséð frá staðsetningu.

„UNICEF og samstarfsfélagar eru að bólusetja gegn mislingum á þessum verst settu svæðum auk þess að sjá heilsugæslustöðvum fyrir hjálpargögnum til meðhöndlunar á sjúkum. Það sem af er höfum við getað dreift 1.317 svokölluðum mislingapökkum sem innihalda m.a. sýklalyf, vítamín og önnur lyf á þessum svæðum,“ segir Beigbeder en bendir á að þessar aðgerðir séu aðeins skammtímalausn sem stendur.

„Fjárfestingar er þörf í bólusetningarátaki Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó sem og heilbrigðiskerfinu almennt til að tryggja heilsu og velferð barna landsins.“

Þó að þessar fréttir séu sláandi þá eru góðu fréttirnar þær að þú getur tekið beinan þátt í að kaupa bóluefni gegn mislingum með Sönnum gjöfum UNICEF. Gefðu von, líf og umbúðalausa gjöf um þessi jólin með annað hvort 50 skömmtum af bóluefni gegn mislingum eða 100 skammta pakka. UNICEF mun nú sjá til þess að gjöfin berist til barna sem þurfa á henni að halda.

Þá má geta þess að Heimsforeldrar taka virkan þátt í baráttu UNICEF um allan heim, meðal annars í baráttunni fyrir bólusetningu barna í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Á Íslandi eru yfir 27.000 heimsforeldrar sem hjálpa UNICEF í verkefnum sínum.

Þú getur skráð þig sem Heimsforeldri hér.

Fleiri
fréttir

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira

15. apríl 2024

Ár af stríði í Súdan: Hvergi fleiri börn á flótta í heiminum
Lesa meira

11. apríl 2024

Þrjár ungar stúlkur létu lífið undan ströndum Grikklands
Lesa meira
Fara í fréttasafn