11. desember 2016

UNICEF fagnar 70 ára baráttu í þágu barna heimsins

Á 70 ára afmæli sínu, sem fram fer í dag, fagnar UNICEF þeim mikla árangri sem náðst hefur í þágu barna í heiminum síðastliðna áratugi. Um leið ítreka samtökin ákall sitt um hjálp handa þeim milljónum barna sem eru í hættu vegna átaka, fátæktar og ójöfnuðar.

Á 70 ára afmæli sínu, sem fram fer í dag, fagnar UNICEF þeim mikla árangri sem náðst hefur í þágu barna í heiminum síðastliðna áratugi. Um leið ítreka samtökin ákall sitt um hjálp handa þeim milljónum barna sem eru í hættu vegna átaka, fátæktar og ójöfnuðar.

Sleitulaus vinna UNICEF á mörgum af erfiðustu og fátækustu stöðum heims á þátt í þeim gríðarlegu framförum sem orðið hafa fyrir börn vítt og breitt um veröldina síðastliðna áratugi. Hundruð milljóna barna hafa brotist út úr fátækt og þeim börnum sem ekki ganga í skóla hefur fækkað um 40% síðan 1990. Helmingi færri börn láta lífið fyrir fimm ára aldur nú en fyrir 25 árum.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, var komið á fót af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna til að veita stríðshrjáðum börnum í Evrópu, Kína og Miðausturlöndum neyðarhjálp eftir Seinni heimsstyrjöldina. Markmiðið var að ná til allra barna í neyð, óháð því hvaða afstöðu landið þeirra hefði haft í styrjöldinni. Samtökin voru fjármögnuð með frjálsum framlögum, stækkuðu fljótt og voru árið 1955 farin að hjálpa börnum í yfir 90 ríkjum.

Í dag vinnur UNICEF í yfir 190 ríkjum – nærri öllum ríkjum heims, og er langstærstu barnahjálparsamtök heims. Markmiðið er sem fyrr að ná til allra barna, enda eiga öll börn sömu réttindi, óháð því hvar þau fæðast og hvar þau búa.

Á fimmta áratugnum útvegaði UNICEF börnum í stríðshrjáðri Evrópu nauðsynlega næringu.

  • Á þessu ári hefur UNICEF séð til þess að nærri þrjár milljónir barna vítt og breitt um heiminn hafi fengið meðferð við alvarlegri vannæringu.

Á sjötta áratugnum leiddi UNICEF fyrstu átaksverkefnin í heiminum við að bólusetja börn gegn sjúkdómum eins og berklum og himberjasótt.

  • Í fyrra útveguðu samtökin nærri 3 milljarða skammta af bóluefnum fyrir börn heimsins.

Á sjötta áratugnum hóf UNICEF sitt fyrsta vatns- og hreinlætisverkefni.

  • Á milli 1990 og 2015 fengu 2,6 milljarðar manna í heiminum aðgang að betri vatnsuppsprettum en áður, með hreinna vatni og tilheyrandi fækkun niðurgangspesta og ýmissa sjúkdóma.

Á sjöunda áratugnum fór UNICEF að leggja áherslu á menntun barna.

  • Í dag hefja yfir 90% barna í fátækari ríkjum heims skólagöngu.

Árið 1965 fékk UNICEF friðarverðlaun Nóbels fyrir að sameina heimsbyggðina í að berjast fyrir réttindum barna.

Árið 1989 var Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna samþykktur á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

  • Öll ríki heims, nema eitt, hafa fullgilt hann. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, er nefnd sérstaklega í sáttmálanum.

Upp úr aldamótum setti UNICEF baráttuna gegn HIV-smiti milli móður og barns á dagskrá hjá alþjóðasamfélaginu.

  • Frá árinu 2000 hefur dauðsföllum vegna alnæmis hjá ungum börnum fækkað um 70% og HIV-laus kynslóð barna er í augsýn.

Frá því að UNICEF hóf starfsemi sína fyrir 70 árum hafa samtökin brugðist mörg þúsund sinnum við þegar neyðarástand hefur skapast, svo sem eftir náttúruhamfarir eða vegna stríðsátaka.

„Án alls þess hugrakka fólks sem gerir allt sem það getur til að ná til þeirra barna sem eru mest berskjölduð – og án stuðning frá heimsforeldrum, fyrirtækjum, stjórnvöldum og öllum þeim sem styðja UNICEF um allan heim hefði UNICEF aldrei náð þeim mikla árangri sem við höfum orðið vitni að. Á afmælinu erum við því fyrst og fremst þakklát,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Fleiri
fréttir

27. mars 2024

Níu ár af stríði í Jemen: Milljónir barna vannærð
Lesa meira

15. mars 2024

Þrettán ár af stríði í Sýrlandi: UNICEF aðstoðaði milljónir í fyrra en þörfin aldrei meiri
Lesa meira

13. mars 2024

Sögulegur árangur í baráttunni gegn barnadauða
Lesa meira
Fara í fréttasafn