24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi

Sameiginlegt ákall um réttindi allra barna á Íslandi til bólusetninga

Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant, Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, yfirlæknir bólusetninga sóttvarnarsviði embættis landlæknis, Sólveig Jóhannsdótir, hjúkrunarfræðingur á Heilsugæslunni Efstaleiti og Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi afhjúpa veggspjald vitunarvakningarátaksins. Mynd/Sigurður H. Ásgeirsson

Í dag hefst alþjóðleg vika bólusetninga og af því tilefni efna UNICEF á Íslandi og Controlant ásamt sóttvarnalækni, til vitundarvakningar um bólusetningar barna á Íslandi og hvetja til átaks til að fyrirbyggja útbreiðslu lífshættulegra sjúkdóma og stuðla að heilbrigðri æsku.

Bólusetningar bjarga 6 lífum á hverri mínútu

Bólusetningar eru ein mikilvægasta og árangursríkasta leiðin til að koma í veg fyrir að börn veikist alvarlega eða deyi af völdum sjúkdóma sem hægt er að koma í veg fyrir, sjúkdóma á borð við mislinga, mænusótt, stífkrampa, barnaveiki og kíghósta. Bóluefnin vernda ekki einungis einstaklinginn sem fær bólusetningu heldur stuðla einnig að hjarðónæmi og koma þannig í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma til þeirra sem hafa ekki fengið bólusetningu, til dæmis vegna skerts ónæmiskerfis eða skorts á aðgengi að bóluefnum. 

Samkvæmt nýjum tölum frá UNICEF og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni hafa bólusetningar bjargað 6 lífum á hverri einustu mínútu á síðustu 50 árum, 154 milljónum einstaklinga samanlagt. Árangur bólusetninga á Íslandi er einnig verulegur en samkvæmt gögnum sóttvarnalæknis má áætla að um 2,500 lífum ung- og smábarna hafi verið bjargað frá 1950 með almennum bólusetningum. 

Í dag geta bóluefni verndað börn og fullorðna gegn hátt í 20 alvarlegum og lífshættulegum sjúkdómum. Þessum árangri ber að fagna en á sama tíma benda UNICEF, sóttvarnalæknir og Controlant á að það er mikilvægt að taka þessum árangri ekki sem gefnum og sofna ekki á verðinum. 

Þátttaka ófullnægjandi til þess að hindra útbreiðslu mislinga

Í nýjustu gögnum sóttvarnalæknis um þátttöku í almennum bólusetningum barna á Íslandi kemur fram að þátttaka barna hefur dregist saman um allt að 6% á fjögurra ára tímabili frá 2018 til 2022. Til að mynda er viðvarandi dræm þátttaka fjögurra ára barna í viðhaldsbólusetningu gegn kíghósta, barnaveiki og stífkrampa, en hún hefur dregist saman úr 93% frá 2018 í 87% árið 2022. Þátttaka í bólusetningu gegn mislingum-, hettusótt- og rauðum hundum hefur einnig farið dvínandi. Þátttaka í fyrsta af tveimur skömmtum var 94% árið 2018 en 91% árið 2022 og þátttaka í öðrum skammti drógst saman úr 95% árið 2018 í 89% 2022. Bólusetningarþátttaka er því ófullnægjandi til að hindra útbreiðslu meðal barna ef mislingar berast til landsins. 

Um þúsund börn misst af bólusetningu

Áhrif heimsfaraldurs COVID-19 ýttu undir mestu afturför í bólusetningum barna á heimsvísu í þrjá áratugi og hafði heimsfaraldurinn einnig áhrif á aðgengi og afkastagetu í almennum bólusetningum hér á landi. Frá upphafi heimsfaraldursins hafa tvöfalt fleiri börn á Íslandi misst af fjögurra ára bólusetningu árlega miðað við meðalár fyrir heimsfaraldur. Tæplega eitt þúsund börn sem hefði átt að bólusetja við mislingum árið 2020 misstu af bólusetningunni og flest þeirra hafa enn ekki verið bólusett. 

„Þökk sé góðri þátttöku í almennum bólusetningum um nokkurra kynslóða skeið höfum við verið að mestu laus við sjúkdóma s.s. mislinga, hettusótt og kíghósta áratugum saman. Sama á ekki við um mörg Evrópulönd sem hafa átt við t.d. stóra mislingafaraldra endurtekið undanfarin 5-6 ár. Það sem af er þessu ári hafa allir þessir sjúkdómar borist til landsins en þökk sé bólusetningum hafa hvorki mislingar né hettusótt náð víðtækri útbreiðslu. Til að stuðla að því að áfram verði lítil útbreiðsla þótt sjúkdómarnir berist hingað hefur nýtt vefsvæði verið opnað til að auðvelda aðgengi að upplýsingum um fyrirkomulag almennra bólusetninga á Íslandi og hvar þær fara fram o.fl. Upplýsingarnar eru aðgengilegar á fjölda tungumála, þ.á m. rúmensku, úkraínsku og arabísku,“ segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, yfirlæknir bólusetninga hjá sóttvarnasviði embætti landlæknis. 

Öll börn eiga rétt á bólusetningum

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er leiðandi á heimsvísu í að tryggja réttindi barna til bólusetninga og útvega samtökin yfir 40% barna í efnaminni ríkjum bólusetningar. UNICEF styður við reglubundnar bólusetningar barna í yfir 100 löndum og vekur athygli á réttindum barna til bólusetninga um allan heim. Ísland er þar ekki undanskilið. Árlega efnir UNICEF til vitundarvakningar á heimsvísu um mikilvægi bólusetninga barna og ítreka samtökin að það þurfi samtakamátt til að snúa við þeirri þróun sem heimsfaraldur COVID-19 skapaði til að koma í veg fyrir að banvænir sjúkdómar fari að breiðast út aftur. Ef ekki er gripið inn í er heimurinn langt frá því að ná Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um heilsu og vellíðan.

„Öll börn eiga rétt á bólusetningum gegn lífshættulegum sjúkdómum. Það á einnig við um þau börn sem búa eða dvelja hér á landi, óháð þjóðerni, ríkisfangi eða félagslegri stöðu. Sjúkdómar virða engin landamæri og með bólusetningum er hægt að koma í veg fyrir að börn veikist alvarlega og eins vernda þau börn sem ekki geta þegið bólusetningar vegna ungs aldurs eða undirliggjandi sjúkdóma. Með þessu átaki viljum við lyfta upp þessu stórkostlega kraftaverki mannkynsins sem bólusetningar eru og fagna þeim milljónum mannslífa sem bólusetningar hafa bjargað. Við vonumst til að ná til sem flestra foreldra og forsjáraðila á Íslandi með upplýsingar um mikilvægi bólusetninga og hvert sé hægt að fara með börn til að fá reglubundnar bólusetningar,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. 

Órofin aðfangakeðja grundvöllur bólusetninga

Controlant og UNICEF á Íslandi hafa verið í samstarfi frá 2023 með áherslu á bólusetningar barna, en Controlant er leiðandi á heimsvísu í rauntíma vöktunarlausnum í aðfangakeðju lyfja, þar á meðal bóluefna. Rétt eins og með önnur lyf, eru gerðar strangar gæðakröfur til bóluefna. Órofin, skilvirk og örugg aðfangakeðja er grundvöllur þess að hægt sé að bjóða öllum börnum upp á reglubundnar bólusetningar og uppfylla þannig 24. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um að öll börn eigi rétt á bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á, hreinu drykkjarvatni, hollum mat og hreinu og öruggu umhverfi.

„Lykilþáttur í því að öll börn hafi tækifæri á lífsbjargandi bólusetningum, hvar sem þau eru í heiminum, er órofin aðfangakeðja þar sem rétt hitastig og gæði eru tryggð við hvert skref. Lausnir Controlant stuðla að skilvirkum, öruggum og sjálfbærum flutningi lyfja og bóluefna á heimsvísu. Í samstarfi okkar við UNICEF síðastliðið ár, höfum við lagt ríka áherslu á bólusetningar barna. Það er okkur mikil ánægja að taka þátt í þessu mikilvæga framtaki ásamt sóttvarnalækni og UNICEF sem við hrindum nú af stað með það markmið að tryggja að öll börn geti notið réttar síns til bólusetninga og haft tækifæri til heilbrigðrar og farsællar æsku og lífshlaups,“ segir Gísli Herjólfsson, forstjóri og einn stofnenda Controlant að lokum. 

Sem hluta af vitundarvakningunni kynntu UNICEF, sóttvarnalæknir og Controlant nýtt veggspjald í dag sem verður dreift um allt land. Hægt er að hlaða niður veggspjaldinu í fullum gæðum hér.

Einnig opnaði nýtt vefsvæði á vef embætti landlæknis með upplýsingum um almennar bólusetningar barna á fjölda tungumála:

Sjá hér:

Vefsíða á íslensku: Er barnið þitt bólusett?

Vefsíða á ensku: Is your child vaccinated?

Fjölmenningardeild, á vegum Vinnumálastofnunar, er ráðgefandi í vitundarvakningunni.

Fleiri
fréttir

29. apríl 2024

Bútan fær lof fyrir frábæran árangur í bólusetningum barna
Lesa meira

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira
Fara í fréttasafn