02. september 2016

Eliza Reid hóf kaffihúsaátak UNICEF á Íslandi og Te & Kaffi

Eliza Reid, forsetafrú, hóf í morgun átakið Klárum málið sem er átaksverkefni UNICEF á Íslandi og Te & Kaffi. Næstu tvær vikur býðst landsmönnum að taka virkan þátt í baráttunni gegn mænusótt, einnig þekkt sem lömunarveiki. Te & Kaffi gefur andvirði einnar bólusetningar gegn mænusótt af hverjum seldum drykk fram til 18. september og viðskiptavinum er boðið að gera það sama.

Eliza Reid, forsetafrú, hóf í morgun átakið Klárum málið sem er átaksverkefni UNICEF á Íslandi og Te & Kaffi. Næstu tvær vikur býðst landsmönnum að taka virkan þátt í baráttunni gegn mænusótt, einnig þekkt sem lömunarveiki. Te & Kaffi gefur andvirði einnar bólusetningar gegn mænusótt af hverjum seldum drykk fram til 18. september og viðskiptavinum er boðið að gera það sama.

Mænusóttarveiran er mjög smitandi og getur valdið bæði lömun og dauða. Engin lyf eru til sem lækna mænusótt. Einungis er hægt að koma í veg fyrir að fólki fái veikina og það er gert með bólusetningu. Skammtur af bóluefninu kostar einungis 25 krónur.

Þetta er í fjórða sinn sem Te & Kaffi stendur fyrir kaffihúsaátaki með UNICEF á Íslandi og í þriðja sinn sem safnað er vegna mænusóttar. Framtakinu hefur verið tekið frábærlega hér á landi og samtals safnast andvirði 218.744 bólusetninga gegn mænusótt.

Þegar ráðist var í fyrsta kaffihúsaátakið á Íslandi, árið 2013, var mænusótt landlæg í þremur ríkjum og 416 tilvik af sjúkdómnum komu upp á heimsvísu. Núna eru ríkin tvö, Afganistan og Pakistan, og einungis 21 tilvik hafa komið upp í heiminum á árinu.

Margir létust eða lömuðust á Íslandi

Á fyrrihluta 20. aldar var mænusótt einn af þeim sjúkdómum sem fólk óttaðist hvað mest í heiminum. Hér á landi lést fjöldi fólks, auk þess sem margir sem veiktust og lömuðust glíma enn í dag við afleiðingar veikinnar. Eftir að bóluefni gegn mænusótt kom fram á sjónarsviðið og barst hingað til lands tókst á skömmum tíma að ráða niðurlögum sjúkdómsins á Íslandi.

Þökk sé bóluefninu náðist mikill árangur næstu áratugina í baráttunni gegn mænusótt á heimsvísu. Fátækari ríki sátu hins vegar eftir. Árið 1988 var veikin enn landlæg í 125 ríkjum og alþjóðlegt bandalag var myndað til að útrýma sjúkdómnum alfarið úr heiminum, líkt og gert hafði verið með bólusótt. Bandalagið mynda UNICEF, Rótarý-hreyfingin, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og fleiri, auk þess sem 20 milljónir sjálfboðaliða hafa tekið þátt. Baráttan hefur skilað gríðarlegum árangri og mænusóttartilfellum fækkað um 99,99% á heimsvísu síðan hafist var handa árið 1988.

„Meðan eitt barn veikist af sjúkdómnum eru öll börn í hættu. Ef okkur mistekst að ráða endanlega niðurlögum sjúkdómsins í heiminum og ef hann fer aftur á flug er talið að á um tíu árum gætu árlega um 200.000 börn um allan heim veikst. Það er því mjög brýnt að klára málið og ná að útrýma sjúkdómnum úr heiminum. Við erum stolt af því að leggja okkar af mörkum í þeirri baráttu og gera það með okkar dyggu samstarfsaðilum Te & Kaffi og fólki hér á landi,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

„Við hjá Te & Kaffi erum stolt af samstarfinu við UNICEF á Íslandi og þykir afskaplega vænt um það. Við erum búin að vera stoltur styrktaraðili frá árinu 2008 og höfum á þeim tíma safnað um 30.000.000 kr og erum hvergi nærri hætt. Samstarfið við UNICEF er hryggjarstykkið í okkar stefnu um samfélagslega ábyrgð og nýtur hún mikils stuðnings starfsmanna alls staðar í fyrirtækinu,“ segir Guðmundur Halldórsson hjá Te & Kaffi.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn