06. júní 2017

Vika rauða nefsins hefst í dag

Vika rauða nefsins er skemmti- og góðgerðarvika sem haldin er í fyrsta sinn í ár meðal fyrirtækja hér á landi. Fjölmörg fyrirtæki hafa ákveðið að setja upp rauða nefið og sprella með starfsfólki. Má þar nefna Vodafone, Kviku, Lindex, Icelandair Hotels, Creditinfo og 66° Norður.

6. júní 2017

Fjölmörg fyrirtæki hafa ákveðið að setja upp rauða nefið og sprella með starfsfólki í tilefni af viku rauða nefsins sem hefst í dag. Má þar nefna Vodafone, Kviku, Lindex, Icelandair Hotels, Creditinfo og 66° Norður. Sjálfur dagur rauða nefsins hjá UNICEF er næsta föstudag, 9. júní.

Vika rauða nefsins er skemmti- og góðgerðarvika sem haldin er í fyrsta sinn í ár meðal fyrirtækja hér á landi. Hún er innblásin af góðgerðarvikum framhaldsskólanna, þar sem starfsfólk fyrirtækja mun taka ýmsum fyndnum áskorunum og styðja um leið við baráttu UNICEF fyrir réttindum barna. Markmið viku rauða nefsins er að skapa fjör og góðan móral og fá starfsmenn til að gerast heimsforeldrar UNICEF – mánaðarlega styrktaraðila sem hjálpa börnum um allan heim.

Mikið hefur verið um að vera í tilefni dags rauða nefsins og margt skemmtilegt framundan. Strætó setti upp rautt nef á dögunum, Sturla Atlas hannaði nýtt trúðanef og Kött Grá Pjé kynnti lagið fyrir dag rauða nefsins, Opnum dyrnar. Um helgina fór auk þess fram stórleikur í fúsball á KEX-Hostel þar sem kvennalandsliðið í fótbolta sigraði utandeildarliðið KF Mjöðm á lokasekúndunni í æsispennandi uppbótartíma.

Í vikunni sem nú er að hefjast verður mikið fjör. Ísgerðin Skúbb býður upp á ís rauða nefsins, Reykjavík Chips mun kynna sérstakar franskar fyrir stóra daginn og Jonathan Duffy stendur fyrir hörku Lip Sync-keppni í Tjarnarbíó á miðvikudagskvöld.

Vika rauða nefsins nær síðan hámarki föstudaginn 9. júní í nokkurra klukkustunda beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV. Grínistar, leikarar, fjölmiðlafólk og tónlistarmenn munu búa til ógleymanlegt kvöld og skora á áhorfendur að hjálpa börnum og gerast heimsforeldrar UNICEF.

Hægt verður að fylgjast með öllu fjörinu á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #rauttnef og #heimsforeldri.

Fleiri
fréttir

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira
Fara í fréttasafn