05. október 2021

UNICEF á Íslandi sendir ákall um aðgerðir í geðheilbrigðismálum barna á Íslandi

„Við, eins og fleiri, höfum miklar áhyggjur af stöðu geðheilbrigðisþjónustu barna og ungmenna hér á landi. Það kom skýrt fram í kosningabaráttunni að flestir ráðamenn eru sammála um að geðheilbrigðismál eru eitt stærsta samfélagsmálið sem við glímum við í dag og að vandinn sé margþættur. Nú er tækifærið til að setja markmið og tryggja fjármögnun fyrir málaflokkinn til næstu fjögurra ára,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Eitt af hverjum sjö börnum og ungmennum á aldrinum 10 til 19 ára í heiminum er með greinda geðröskun. Á hverju ári taka um 46 þúsund ungmenni í heiminum sitt eigið líf. Áhrif COVID-19 hefur gert slæmt ástand verra og ætla má að neikvæð áhrif heimsfaraldursins á geðheilsu og líðan barna og ungmenna gætu varað í mörg ár. Á sama tíma er verulegt ósamræmi á milli þarfa barna og ungmenna og þess fjármagns sem varið er í geðheilbrigðismál á heimsvísu. Að meðaltali er einungis 2,1% af útgjöldum ríkja til heilbrigðismála varið í geðheilbrigðismál. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, um stöðu barna í heiminum sem kom út í dag.

Þema skýrslunnar, State of the World‘s Children 2021, er geðheilbrigðismál og er hún ítarlegasta greining Barnahjálparinnar á geðheilsu barna, ungmenna og umönnunaraðila þeirra á þessari öld. Sérstök áhersla er lögð á hvernig áhætta og verndandi þættir á heimilum barna, í skólanum og úti í samfélaginu hafa áhrif á geðheilbrigði þeirra. UNICEF sendir með skýrslunni skýrt ákall til ríkisstjórna heimsins um að grípa til alvöru aðgerða og fjárfestinga í geðheilbrigðismálum barna og ungmenna þvert á svið, stórbæta aðgengi að snemmtækri þjónustu og upplýsingagjöf og vinna markvisst gegn fordómum gagnvart geðsjúkdómum.

UNICEF á Íslandi tekur undir þetta alþjóðlega ákall og hefur sent formönnum allra stjórnmálaflokka sem náðu kjöri í nýafstöðnum Alþingiskosninum tillögur sem má sjá hér að neðan.

Loforðum fylgir ábyrgð

„Við, eins og fleiri, höfum miklar áhyggjur af stöðu geðheilbrigðisþjónustu barna og ungmenna hér á landi. Það kom skýrt fram í kosningabaráttunni að flestir ráðamenn eru sammála um að geðheilbrigðismál eru eitt stærsta samfélagsmálið sem við glímum við í dag og að vandinn sé margþættur. Nú er tækifærið til að setja markmið og tryggja fjármögnun fyrir málaflokkinn til næstu fjögurra ára,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Í fyrstu áfangaskýrslu stýrihóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins sem vaktar óbein áhrif COVID-19 á geðheilsu kemur fram að áhrif þeirra samfélagsbreytinga sem urðu hér á landi hafi haft alvarlegri áhrif á líðan ungmenna í framhaldsskólum en almennings í heild. Þar segir jafnframt að staðan hafi verið sú við upphaf faraldursins að almennur biðtími á Barna- og unglingageðdeild var yfir sjö mánuðir og búist var við að biðlistar myndu lengjast enn frekar. Á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2021 varð 34% aukning á bráðakomum og bráðainnlögnum, samanborið við sama tímabil árið 2020. Þá hefur orðið mikil aukning á tilvísunum vegna átröskunarvanda. Auk þess hefur tilkynningum vegna ofbeldis og vanrækslu til barnaverndar fjölgað verulega á tímabilinu. Slík áföll og neikvæðar upplifanir í æsku geta haft veruleg áhrif á andlega líðan barna til lengri tíma.  

Ungmenni krefjast aðgerða

Þrátt fyrir mörg jákvæð skref til að bæta þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra á síðustu árum er staðan engu að síður sú að mannekla veldur enn löngum biðlistum og fáliðaðar heilsugæslur eiga erfitt með að sinna öðru en bráðatilfellum. Þrátt fyrir að gjaldfrjáls sálfræðiþjónusta sé í boði fyrir börn og umönnunaraðila á heilsugæslustöðvum um allt land er biðtími eftir þjónustu víðast hvar alltof langur, allt upp í 20 mánuðir á landsbyggðinni og 3-9 mánuðir á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er langur tími í lífi barns og ljóst að ómeðhöndlaður vandi bitnar harkalega á rétti þess til lífs og þroska.

Ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna hefur beitt sér fyrir því að stjórnvöld beini kröftum sínum í bætt geðheilbrigði barna og ungmenna. Ungmennaráðið kynnti tillögur sínar á fundi með þáverandi ríkisstjórn í ágúst á þessu ári og er það von ráðsins að tekið verði mið af þeirra ráðleggingum í komandi ríkisstjórn. Meðal tillagna þeirra var að stöðva fordóma í kringum andlega heilsu og auka fræðslu og aðgengi að sálfræðiþjónustu í grunn- og framhaldsskólum. Tillögur Ungmennaráðsins má sjá hér.

UNICEF á Íslandi tekur undir með ungmennaráðinu og öðrum börnum og ungmennum sem hafa lengi kallað eftir bættri þjónustu við hæfi allra barna. Jafnt aðgengi að snemmtækri sálrænni aðstoð, óháð búsetu eða efnahag, er nauðsynleg til að hægt sé að grípa börn í vanda fljótt og leysa úr vandamálum áður en þau verða of alvarleg.

UNICEF á Íslandi sendir ákall til stjórnvalda

„Það er ljóst að nýrrar ríkisstjórnar bíður ærið verkefni að byggja upp geðheilbrigðisþjónustu við börn til framtíðar. Andleg heilsa er hluti af líkamlegri heilsu og við höfum ekki efni á að líta á hana sem nokkuð annað. Það er góð fjárfesting að auka framlög til geðheilbrigðismála með það fyrir augum að grípa börn og ungmenni sem þurfa aðstoð sem fyrst. Von okkar er sú að tekið verði á málum af festu og réttur barna til að þroskast og rækta hæfileika sína tryggður,“ segir Birna.

UNICEF á Íslandi skorar á formenn stjórnmálaflokka sem náðu kjöri í alþingiskosningum að setja málefni barna í forgang í viðræðum um stjórnarsamstarf - og skapa sameiginleg, skýr markmið um að bæta geðheilbrigði barna á Íslandi. UNICEF hvetur formenn þeirra flokka sem hyggjast mynda næstu ríkisstjórn að setja eftirfarandi atriði í stjórnarsáttmála: 

  • Minnka fordóma í kringum andlega heilsu, innleiða fræðslu í grunn- og framhaldsskólum og hafa sálfræðiþjónustu aðgengilega fyrir alla, óháð fjárhagslegri stöðu, í samræmi við tillögur Ungmennaráðs Heimsmarkmiðanna;
  • Skýra ábyrgð á málaflokknum og móta sameiginlega sýn sem hvílir á samstarfi þvert á stjórnarráð og stjórnsýslustig;
  • Ryðja burt stjórnsýslu- og tæknihindrunum sem standa í vegi fyrir framförum í geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn;
  • Auka samstarf og þekkingu allra starfsstétta sem sinna börnum og gera þannig fleira fólk fært um að sinna andlegri heilsu barna og veita fyrstu viðbrögð;
  • Auka þekkingu og færni foreldra til að stuðla að góðri andlegri heilsu barna sinna;
  • Sjá til þess að börn og ungmenni sem glíma við geðrænan vanda þurfi ekki að bíða eftir viðeigandi úrræðum;
  • Huga sérstaklega að réttindum viðkvæmra hópa barna, s.s. barna af erlendum uppruna, fatlaðra barna, barna með taugaþroskaraskanir og barna sem verða fyrir ofbeldi.

Skýrslu UNICEF, State of the World‘s Children 2021, má nálgast hér.

Fleiri
fréttir

27. mars 2024

Níu ár af stríði í Jemen: Milljónir barna vannærð
Lesa meira

15. mars 2024

Þrettán ár af stríði í Sýrlandi: UNICEF aðstoðaði milljónir í fyrra en þörfin aldrei meiri
Lesa meira

13. mars 2024

Sögulegur árangur í baráttunni gegn barnadauða
Lesa meira
Fara í fréttasafn