Menu

UNICEF og Forsætisráðuneytið auglýsa eftir umsóknum í ungmennaráð Heimsmarkmiðanna

Spennandi tækifæri fyrir ungmenni á aldrinum 13 til 18 ára.

 

UNICEF á Íslandi og Forsætisráðuneytið kalla eftir umsóknum frá ungmennum um allt land í ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. UNICEF á Íslandi heldur utan um starfsemi ráðsins, en opnað hefur verið fyrir umsóknir á vefsíðu Stjórnarráðsins. Fjölmargar umsóknir hafa nú þegar borist, en umsóknarfrestur er til og með 16. febrúar. Hægt er að sækja um hér.

Um er að ræða mjög spennandi tækifæri fyrir ungmenni á aldrinum 13 til 18 ára. Meginmarkmið ungmennaráðsins verður að vekja athygli á Heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, bæði meðal jafningja sem og samfélagsins í heild sinni. Ungmennaráðið mun fræðast og fjalla um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna ásamt því að vinna og miðla gagnvirku efni á samfélagsmiðlum.

Hvatt til aukinnar þáttöku barna og ungmenna

Eitt af meginstefum Heimsmarkmiðanna er samvinna milli ólíkra hagsmunaaðila, þ.á m. ungmenna, við innleiðingu markmiðanna. Í ljósi þess, og einnig 12. og 13. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveða skýrt á um rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif á málefni er þau varða, var ákveðið að virkja þátttöku ungmenna á Íslandi í gegnum ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Er það í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að framfylgja skuli ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, m.a. um aukin áhrif barna í samfélaginu.  

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkjanna í september 2015 og tóku gildi í byrjun árs 2016. Ungmennaráðinu er ætlað að vera lifandi vettvangur þar sem Heimsmarkmiðin og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna eru höfð að leiðarljósi og rædd með gagnrýnum og lausnamiðuðum hætti. Ungmennum er með þessum hætti gefinn vettvangur til að vekja athygli á Heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun og skapa þannig jafningjum tækifæri til að láta rödd sína heyrast um fyrrgreind málefni. 

UNICEF vill hvetja alla sem áhuga hafa á að sækja um fyrir föstudaginn 16. febrúar, en alls verða 12 fulltrúar valdir í ungmennaráðið.

Hægt er að lesa meira og sækja um hér.

Ég vil gefa mánaðarlega

Þitt framlag

Eða

Önnur upphæð