Menu

Strumparnir hjálpa til við að búa til glaðlegri, friðsamlegri og sanngjarnari heim

Strumparnir hjálpa til við að vekja athygli á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna

 

Hinir sívinsælu strumpar hvetja börn, ungt fólk og fullorðna til að gera heiminn glaðlegri, friðsamlegri, sanngjarnari og heilbrigðari með átaksverkefni sem fer af stað í dag í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar, UNICEF, og sérstakan sjóð á vegum SÞ.

Átakið heitir „Small Smurf Big Goals“ (ísl. litlir strumpar, stór markmið) og er ætlun þess að hvetja alla til að læra um og styðja heimsmarkmiðin 17; markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Heimsmarkmiðiðin voru samþykkt af 193 meðlimum Sameinuðu þjóðanna árið 2015. 

Fólk getur gengið í lið með strumpunum með því að fara inn á SmallSmurfsBigGoals.com til að finna þær leiðir sem sem henta því best til að hjálpa til svo markmiðin náist og sjá hvaða markmið snúa að eigin áhugasviði. 

„Afþreyingariðnaðurinn hreyfir við fólki á öllum aldri og við hjá Sameinuðu þjóðunum þökkum vinum okkar hjá Sony Pictures Animation og strumpunum fyrir þetta skapandi átak til að efla stuðning við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun,“ segir Maher Nasser, yfirmaður á samskiptasviði SÞ í fréttatilkynningu sem Sena sendi út í dag.

„Við vonum að átakið muni hvetja milljónir ungra bíógesta og fjölskyldur þeirra til að taka þátt í að binda endi á fátækt, draga úr ójöfnuði og vernda plánetuna okkar. Þetta eru þrír meginþættir sem munu auka vellíðan og hamingju fólks um heim allan.“

Allir geta náð stórum markmiðum

Strumparnir munu vekja athygli á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun allt fram að Alþjóðlega hamingjudeginum þann 20. mars, þegar átakið nær hámarki og honum fagnað í höfuðstöðvum SÞ í New York. Á alþjóðlega hamingjudeginum í ár verða heimsmarkmiðin í brennidepli og það hvernig þau mynda grunninn að hamingju fólks. Hér á landi munu Sena og UNICEF á Íslandi taka höndum saman á óvenjulegri kvikmyndasýningu um miðjan mars. 

„Ef ákveðin málefni snerta streng í hjörtum barna og ungmenna þá eru fáir í veröldinni sem eru öflugri málsvarar fyrir þau en unga fólkið. Við þurfum að halda áfram að finna nýjar leiðir til að valdefla börn og ungmenni og hjálpast að við að skapa heim án ójöfnuðar og óréttlætis. Við hjá UNICEF á Íslandi erum spennt fyrir átaksverkefninu og því að kynna heimsmarkmiðin fyrir börnum og fjölskyldum þeirra. Hér á landi munum við líka hafa skemmtilega tengingu við heimsforeldra UNICEF en þeir hjálpa okkur á hverjum degi að gera veröldina að betri stað og vinna að heimsmarkmiðunum,“ segir Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi. 

„Það skiptir ekki máli hversu smá við erum, þetta snýst bara um að hafa góð áhrif á heiminn. Hvort sem við erum lítil þjóð, litlir krakkar eða litlir strumpar: Allir geta náð stórum markmiðum!“ segir Salka Sól sem talar fyrir Strympu í nýju myndinni um Strumpana; Strumparnir: Gleymda þorpið.  

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru sautján talsins og taka á þeim stóru áskorunum sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir.

Ég vil gefa mánaðarlega

Þitt framlag

Eða

Önnur upphæð