Menu

Sjö ár frá upptökum átaka í Sýrlandi

■ Aðstæður barna í Sýrlandi aldrei verið verri ■ Fötluð börn í sérstaklega mikilli hættu ■ Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi enn í fullum gangi

 

Stríðið í Sýrlandi hefur nú staðið yfir í sjö ár og árásir á óbreytta borgara halda áfram að kosta börn lífið eða slasa þau alvarlega. Aldrei hafa fleiri börn látið lífið vegna stríðsins í Sýrlandi en á síðasta ári og á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2018 hafa 1.000 börn látið lífið eða særst alvarlega í sprengjuárásum. Þetta kemur fram í nýrri úttekt frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Ef áfram heldur sem horfir verður árið 2018 það mannskæðasta í sögu stríðsins.

Eftir sjö ár af stríði þurfa 5,3 milljónir barna neyðaraðstoð innan Sýrlands og 2,6 milljónir eru á flótta í nágrannaríkjunum. Hægt er að styðja neyðaraðgerðir UNICEF í Sýrlandi með því að senda sms-ið STOPP í nr 1900 (1.900 krónur) eða með því að styðja hér.

Fötluð börn þau allra viðkvæmustu

UNICEF vekur sérstaka athygli á stöðu barna sem eru fötluð vegna stríðsins. Sprengjum hefur verið varpað á skóla, sjúkrahús og íbúðarhverfi í Sýrlandi. Fjöldi barna hefur týnt lífi og enn fleiri særst og örkumlast. Sameinuðu þjóðirnar áætla að um 360 börn hafi særst alvarlega í sprengjuárásum á síðasta ári, og mörg þeirra misst útlimi. Ætla má að raunveruleg tala sé mun hærri.

“Þegar átök geisa eru fötluð börn þau allra viðkvæmustu,” segir Geert Cappelaere, svæðisstjóri UNICEF í Miðausturlöndum og Norður Afríku. “Þau þurfa oft mjög sérhæfða meðferð og þjónustu. Sem börn hafa þau einnig aðrar þarfir en fullorðnir. Án aðgengis að þjónustu, skóla og hjálpartækjum eins og hjólastólum eru mörg fötluð börn í mikilli hættu á að einangrast, vera vanrækt og vera útskúfuð í samfélaginu á meðan átök halda fram að geisa.”

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, bendir á að fötluð börn séu í mun meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi og eiga erfiðara með að fá aðgengi að grunnþjónustu, þar á meðal heilsuvernd og menntun.

“UNICEF einsetur sér að vernda öll börn, og sérstaklega þau allra viðkvæmustu. Börn sem hafa misst útlimi í sprengjuárásum á heimili sín og skóla þurfa aðstoð fagfólks við að vinna úr andlegum og líkamlegum áföllum og byggja upp líf sitt á ný. Endurteknar árásir á heilsugæslustöðvar og skóla hafa hindrað það að þessi börn fái þá aðstoð og þjónustu sem þau þurfa. Binda þarf enda á árásirnar og veita hjálparstofnunum óheft aðgengi að þeim börnum sem þurfa hjálp,” segir Bergsteinn

Þverbrotin réttindi og samfélög í herkví

Þrátt fyrir að stríðið hafi nú staðið yfir í sjö ár hafa átökin ekki brotið niður baráttuvilja barna í Sýrlandi.  “Þrautsegja barnanna í Sýrlandi þekkir engin mörk“, segir Cappelaere. “Þegar fötluð börn og fjölskyldur þeirra fá þá aðstoð sem þau þurfa, þá hafa þau náð að sigrast á áskorunum sínum og náð að endurheimta barnæsku sína, reisn og drauma.”

UNICEF ákallar alla stríðandi aðila, áhrifavalda þeirra og alþjóðasamfélagið allt að tryggja tafarlausa pólitíska lausn á stríðinu í Sýrlandi. Enn fremur að hætta að þverbrjóta réttindi barna – hætta að drepa þau, særa þau, fá þau til liðs við herflokka og hætta árásum á skóla og sjúkrahús. Aflétta verður öllum umsátrum um byggðarlög og veita þarf óheft aðgengi hjálparsamtaka að börnum í neyð, hvar sem þau eru í Sýrlandi.

UNICEF hefur verið í Sýrlandi fyrir stríð og verður þar áfram.  Neyðaraðgerðir UNICEF í Sýrlandi og nágrannaríkjunum leggja áherslu á að ná til allra barna sem þurfa hjálp og aðstoða sérstaklega fötluð börn. Það er meðal annars gert með því að veita börnum og fjölskyldum þeirra sálrænan og fjárhagslegan stuðning, sérhæfða þjónustu og endurhæfingu. Unnið er að því bæta aðgengi að grunnþjónustu fyrir fötluð börn, þar á meðal heilsuvernd, menntun og barnavernd, og útvega hjálpartæki á borð við hjólastóla, gerviútlimi og stoðtæki. Auk þess vinnur UNICEF með samfélögum til að fötluð börn séu ekki útskúfuð og einangruð.

Hægt er að styðja neyðaraðgerðirnar hér og með því að senda sms-ið STOPP í nr 1900 (1.900 kr).

Emine og systkini hennar á leið í skólann

Umfangsmiklar neyðaraðgerðir UNICEF á síðasta ári

Neyðaraðgerðir UNICEF í Sýrlandi og nágrannaríkjunum eru þær umfangsmestu frá stofnun samtakanna. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður hefur UNICEF náð að veita milljónum barna lífsnauðsynlega neyðaraðstoð. Hér að neðan má sjá dæmi um neyðaraðgerðir UNICEF í Sýrlandi og nágrannaríkjunum árið 2017:

  • Níu milljónir barna í Sýrlandi, Jórdaníu, Írak og Egyptalandi voru bólusett gegn mænusótt;
  • Í Sýrlandi og nágrannarikjunum fengu 773.000 börn sálræna aðstoð;
  • 3,2 milljónum barna var hjálpað að byrja aftur í skóla;
  • Settar voru upp vatns- og hreinlætisaðstöður á 558 stöðum innan Sýrlands;  
  • Tæplega 6.000 börnum með förlun innan Sýrlands var veitt félagsaðsoð, meðal annars í gegnum fjárstuðning;
  • Í flóttamannabúðum í Jórdaníu styður UNICEF fjórar miðstöðvar sem bjóða ungmennum uppá verkmenntun og starfsþjálfun, með sérstöku aðgengi fyrir fötluð ungmenni ;
  • Í Líbanon fengu 755 fötluð börn sérhæfða þjónustu.

Ég vil gefa mánaðarlega

Þitt framlag

Eða

Önnur upphæð