Menu

Sannar gjafir vinsælar um fermingarnar

Vekja samkennd og eru falleg leið til að láta gott af sér leiða

 

Sannar gjafir njóta æ meiri vinsælda á Íslandi og fyrir jólin var slegið met í sölu þeirra hér á landi. Um er að ræða lífsnauðsynleg hjálpargögn fyrir börn. Nú fyrir fermingarnar hafa sannar gjafir síðan runnið út.

„Við höfum orðið vör við að fólki finnist þetta fallegar og sniðugar fermingargjafir – og erum hjartanlega sammála því. Enda eru þetta gjafir sem vekja samkennd og falleg leið til að láta gott af sér leiða,“ segir Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi.

Sannar gjafir virka þannig að fermingarbarnið fær eigulegt gjafabréf sem gefandinn skrifar persónulega kveðju á. UNICEF sér hins vegar um að koma gjöfinni sjálfri til skila til barna í neyð. Sannar gjafir geta verið hlý teppi, moskítónet, námsgögn, vatnshreinsitöflur og í raun allt milli himins og jarðar sem kemur börnum til aðstoðar. Hægt er að velja um sannar gjafir í öllum verðflokkum. 

Hægt er að kaupa sannar gjafir á vefnum sannargjafir.is. Velja má um gjafabréf sem sent er heim með pósti eða að fá það sent samstundis í tölvupósti og prenta út sjálfur. Auk þess að vera gefnar sem fermingargjafir hafa sannar gjafir verið vinsælar sem kort á fermingarpakkana.

Samtals gáfu Íslendingar um 320.000 hjálpargögn á síðasta ári, sem sannar gjafir. „Þetta er algjörlega frábært. Þarna á meðal eru 6.309 hlý teppi, svo dæmi séu tekin, og nærri 80.000 pokar af vítamínbættu jarðhnetumauki. Þetta sýnir að margt smátt gerir eitt stórt og að saman höfum við svo sannarlega áhrif,“ segir Sigríður hjá UNICEF.

 

Námsgögn eru alltaf vinsæl sem sannar gjafir. Námsgögn fyrir 40 börn kosta 2.100 kr.

Hægt er að gefa sérstakan „fermingarpakka“ sem sanna gjöf. Í fermingarpakkanum eru teppi, námsgögn og vatnshreinsitöflur! Fermingarpakkinn kostar 3.729 kr.

Ofurhetjupakkinn slær verndarhjúpi yfir líf varnarlausra barna og hjálpar til við að vernda þau gegn vondu köllum barnæskunnar – lífshættulegum og skelfilegum sjúkdómum á borð við malaríu og mænusótt. Hann kostar 7.623 kr.

Viltu gefa ofurhetjupakka í fermingargjöf? Námsgögn, hlý teppi, skyndihjálpartösku eða moskítónet? Úrvalið er endalaust. 

Ég vil gefa mánaðarlega

Þitt framlag

Eða

Önnur upphæð