Menu

Safnaði 1,7 milljónum króna fyrir vannærð börn

Söfnun Ernu Kristínar vakti mikla athygli

 

Listakonan og snapparinn Erna Kristín er engum lík. Henni tókst í desember að safna meira en 1,7 milljónum króna fyrir vannærð börn í Nígeríu! Ástandið er verst í norðausturhluta Nígeríu þar sem talið er að nærri 75.000 vannærð börn muni láta lífið fái þau ekki meðferð. Það eru fleiri en 200 börn á dag.

Erna Kristín vakti ítrekað athygli á ástandinu í Nígeríu á Snapchat-reikningi sínum, Ernulandi, og minnti á söfnunina. Hún fékk auk þess fjölmarga þekkta snappara til að benda á hana. Viðbrögðin létu ekki á sér standa.

„Framtakið hjá Ernu Kristínu er frábært. Þetta var ótrúlega skemmtilegt og virkilega gaman að fylgjast með henni og viðbrögðunum við söfnuninni,“ segir Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi.

Erna Kristín sagði í desember að ef hún myndi ná tveimur milljónum króna myndi hún raka af sér allt hárið en það gerði hún fyrir nokkrum árum og safnaði þá 600.000 krónum fyrir börn í Keníu.

„Niðurstaðan varð sú að Erna heldur gullfallega hárinu sínu og að árangurinn af framtakinu hennar er ótrúlegur. Það er ekki lítið að ná að virkja svona marga með sér og safna jafnhárri fjárhæð,“ segir Sigríður.

„Það er fólk eins og Erna sem hjálpar okkur að bregðast við og bjarga lífi vannærðra barna. Við erum innilega þakklát og færum henni og öllum sem studdu framtakið hennar okkar allra bestu þakkir.“

Ég vil gefa mánaðarlega

Þitt framlag

Eða

Önnur upphæð