Menu

Þriðja hvert barn frá Sýrlandi fætt eftir að stríðið braust út

■ Fimm ár eru liðin frá því að stríðið í Sýrlandi hófst ■ 3,7 milljónir barna fæddar í stríði ■ Stríðandi aðilar sækja í að gera sífellt yngri börn að hermönnum

 

Fimm ár eru liðin á morgun frá upphafi stríðsins í Sýrlandi. Frá því að stríðið hófst hafa alls 3,7 milljónir barna fæðst þar í landi eða á flótta í nágrannaríkjunum. Þriðjungur sýrlenskra barna hefur þannig fæðst á stríðstímum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá UNICEF, sem kom út í morgun og ber nafnið Enginn staður fyrir börn.

Stríðið í Sýrlandi hefur haft skelfileg áhrif. Innviðir landsins eru í rúst, meira en 200.000 börn búa á svæðum sem haldið er í herkví stríðandi aðila og meira en 8 milljónir barna eru í þörf fyrir neyðaraðstoð. Enginn staður er öruggur fyrir börn í Sýrlandi í dag.

„Eftir fimm ár af stríðsátökum hafa milljónir barna neyðst til að fullorðnast allt of hratt,“ segir Peter Salama, svæðisstjóri UNICEF í Mið-Austurlöndum. „Á meðan átökin halda áfram eru börn látin berjast í stríði fullorðinna, þau þurfa að hætta í skóla, neyðast til að vinna og stúlkur eru látnar ganga í hjónaband á barnsaldri.“ 

STOPP! – ekki fleiri börn í hafið – ekki fleiri börn viðskila við fjölskyldur sínar – ekki fleiri börn strand á landamærum – ekki fleiri börn spreyjuð með táragasi – ekki fleiri árásir á skóla, leikskóla og barnaspítala – ekki fleiri börn í barnaþrælkun – ekki fleiri bæir í herkví – ekki fleiri börn án menntunar – ekki fleiri börn sem glata barnæsku sinni – ...

Mikill árangur þrátt fyrir erfiðar aðstæður

Fjöldi flóttafólks í nágrannaríkjum Sýrlands hefur tífaldast frá árinu 2012. Helmingur flóttamannanna eru börn.

Þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður innanlands í Sýrlandi hafa UNICEF og samstarfsaðilar náð miklum árangri og veitt milljónum barna neyðarhjálp. Á síðasta ári voru nærri þrjár milljónir barna yngri en fimm ára aldri bólusett gegn mænuveiki í Sýrlandi til að koma í veg fyrir faraldur, nærri 850.000 börn fengu sálrænan stuðning, um 800.000 börn fengu hlý föt og teppi og rúmlega 700.000 börn voru skimuð fyrir bráðri vannæringu. Í nágrannaríkjunum fengu milljónir barna á flótta sömuleiðis neyðarhjálp.

UNICEF á Íslandi stendur nú fyrir átakinu #segjumSTOPP til að minnast þess að fimm ár eru liðin frá því að stríðið í Sýrlandi hófst. Krefja þarf valdhafa um markvissar aðgerðir til að stöðva stríðið, veita þarf börnum og fjölskyldum þeirra neyðarhjálp og tryggja þeim alþjóðlega vernd. Hægt er að styðja neyðarsöfnunina með því að senda sms-ið STOPP í nr 1900 (1.900 kr).

Börn neydd til að taka þátt í átökum

Árið 2015 skráði UNICEF nærri 1.500 alvarleg brot gegn börnum í Sýrlandi. Meira en 60% þessara brota voru tilvik þar sem börn létust eða særðust alvarlega vegna sprengjuárása í þéttbýli. Af þeim sem létust dó meira en þriðjungur í skólanum eða á leið til eða frá skóla. Í skýrslu UNICEF kemur jafnframt fram að stríðandi aðilar sæki í auknum mæli í að gera yngri börn að hermönnum. Fyrstu ár stríðsins voru flestir barnahermenn drengir á aldrinum 15 til 17 ára, en á síðasta ári var hins vegar helmingur þeirra barnahermanna sem UNICEF komst í tæri við undir 15 ára aldri – og þeir yngstu aðeins sjö ára.

Í skýrslunni sem kynnt var í morgun kemur fram að eitt stærsta baráttumál UNICEF í Sýrlandi undanfarið hefur verið að tryggja börnum aðgang að menntun. Skólasókn hefur hrunið frá upphafi stríðsins, enda oft hvorki aðstaða né kennarar til staðar. UNICEF áætlar að meira en 2,1 milljón barna innan Sýrlands og 700.000 sýrlensk flóttabörn í nágrannaríkjunum séu utan skóla. Til að bregðast við þessu var No Lost Generation-átakið sett af stað, svo ekki vaxi úr grasi heil kynslóð Sýrlendinga sem fer á mis við menntun og önnur mikilvæg réttindi. Á síðasta ári tókst með þessu að sjá yfir einni milljón barna fyrir skólagögnum – meðal annars með stuðningi heimsforeldra á Íslandi.

Ég vil gefa mánaðarlega

Þitt framlag

Eða

Önnur upphæð