28. júní 2018

Mörk strákanna okkar útvega 414 leikjakassa fyrir börn í neyð

Samtals söfnuðust 8 milljónir frá fyrirtækjum á Íslandi í áskorun á mörk liðsins. Áheitin mun UNICEF á Íslandi nýta til að útvega börnum leikföng og námsgögn sem notuð eru á barnvænum svæðum UNICEF um allan heim.

28. júní 2018

Á meðan þjóðin er að rifna úr stolti yfir frammistöðu íslenska karlalandsliðsins á HM er ánægjulegt að segja frá því að þrátt fyrir að komast ekki upp úr riðlinum þá skilaði gengi liðsins á mótinu mikilvægum framlögum fyrir börn í neyð.

Samtals söfnuðust 8 milljónir frá fyrirtækjum á Íslandi í áskorun á mörk liðsins. Áheitin mun UNICEF á Íslandi nýta til að útvega börnum leikföng og námsgögn sem notuð eru á barnvænum svæðum UNICEF um allan heim.

Lyfjafyrirtækið Alvogen ákvað að hefja áskorun á liðið undir yfirskriftinni Leikur fyrir #öllbörn með því að heita einni milljón króna á hvert mark liðsins til styrktar UNICEF. Hugmyndin var að sameina leik og gleði fótboltans og réttindi barna til að stunda tómstundir og leika sér í öruggu umhverfi.

Fjölmörg fyrirtæki svöruðu kallinu og hétu frá 250 - 500 þúsund á liðið, en það voru Norðurál, Eimskip, Deloitte, Vörður tryggingar og Alvotech.

„Þetta var ótrúlega fallegt framtak og gerði það enn meira spennandi að fylgjast með leikjunum,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. „Við erum ótrúlega stolt af strákunum sem börðust eins og hetjur og gleðjumst yfir því að þátttaka þeirra á stórmótinu hjálpi börnum sem búa í flóttamannabúðum eða á hamfarasvæðum. Strákarnir okkar útveguðu því börnunum okkar mikilvægan stuðning við erfiðar aðstæður. Samstarfsfólk okkar á vettvangi skilar góðum kveðjum og hafa lýst því hversu fallegt það er að Ísland styðji réttindi barna með þessum hætti.“

UNICEF nýtir áheitin til að útvega leikjakassa (e. Recreational kits) sem innihalda fótbolta, ýmis leikföng, skólatöskur og námsgögn. Þeir eru notaðir á barnvænum svæðum í flóttamannabúðum og á hamfarasvæðum víða um heim, til dæmis fyrir börn á flótta í Sýrland, Írak, Bangladess og Jemen. Mörk Alfreðs og Gylfa söfnuðu því 4 milljónum hvort í áheit, sem saman útvega 414 leikjakassa fyrir börn.

Þessir kassar verða nú sendir úr alþjóðlegri birgðastöð UNICEF í Kaupmannahöfn á þau svæði sem þurfa þá mest. Á barnvænu svæðunum geta börn haldið menntun sinni áfram, leikið sér og fengið sálrænan stuðning til að vinna úr áföllum sínum.

„Alvogen vill með þessu leggja sitt af mörkum við að tryggja að börn fái að vera börn. Öll börn eiga rétt á að þroskast og læra í gegnum leik og tómstundir og barnvænu svæðin eru mikilvægur staður þar sem börn geta fundið öryggi og stuðning á erfiðum tímum,“, sagði Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, um áskorunina. „Við erum mjög þakklát þeim fyrirtækjum sem tóku þátt með okkur og okkur líður vel að geta starfað með UNICEF að bættum heimi fyrir börn.“

Alvogen hefur verið dyggur samstarfsaðili UNICEF á Íslandi í fjölda ára og meðal annars styrkt menntaverkefni á Madagaskar, neyðaraðgerðir UNICEF á Sahel svæðinu í Afríku og staðið fyrir styrktartónleikum fyrir börn í Nepal eftir mannskæðan jarðskjálfta þar í landi.

Fleiri
fréttir

27. mars 2024

Níu ár af stríði í Jemen: Milljónir barna vannærð
Lesa meira

15. mars 2024

Þrettán ár af stríði í Sýrlandi: UNICEF aðstoðaði milljónir í fyrra en þörfin aldrei meiri
Lesa meira

13. mars 2024

Sögulegur árangur í baráttunni gegn barnadauða
Lesa meira
Fara í fréttasafn