31. janúar 2020

Líf níu milljón barna í hættu ef ekkert er að gert

Í fyrra lést barn á 39 sekúndna fresti af völdum lungnabólgu í heiminum. Ef ekkert er að gert má áætla að 9 milljónir barna muni láta lífið af völdum lungnabólgu á næstu tíu árum. Þetta kemur fram á fyrstu alþjóðaráðstefnunni um lungnabólgu barna sem hófst í Barcelona á miðvikudag.

31. janúar 2020 Í fyrra lést barn á 39 sekúndna fresti af völdum lungnabólgu í heiminum. Ef ekkert er að gert má áætla að 9 milljónir barna muni láta lífið af völdum lungnabólgu á næstu tíu árum. Þetta kemur fram á fyrstu alþjóðaráðstefnunni um lungnabólgu barna sem hófst í Barcelona á miðvikudag.

Samkvæmt reiknilíkani Johns Hopkins háskólans geta aukin meðferðarúrræði og forvarnir tengd lungnabólgu bjargað lífum 3,2 milljóna barna undir fimm ára aldri næsta áratuginn sem einnig myndi hafa afleidd áhrif og koma í veg fyrir dauða 5,7 milljón barna til viðbótar af öðrum algengum barnasjúkdómum.

Lungnabólga var banvænasti barnasjúkdómurinn á síðasta ári og kostaði 800 þúsund börn lífið. Sú staðreynd er þungbær í ljósi þess hversu auðveldlega má meðhöndla sjúkdóminn með sýklalyfjum og koma í veg fyrir ýmsar tegundri hans með bólusetningum. Allt án mikils tilkostnaðar.

Eins og gefur að skilja eru dauðsföll barna af völdum lungnabólgu bundin við fátækustu lönd veraldar og gera spár ráð fyrir að á næstu árum muni flest þeirra milljóna barna sem láta munu lífið af völdum sjúkdómsins koma frá Nígeríu, Indlandi, Kongó og Eþíópíu.

Þau inngrip sem nauðsynlegt er að gera strax snúa að því að bæta næringu, útvega sýklalyf, auka bólusetningu og auka hlutfall mæðra sem gefa barni sínu brjóst. Öll þessi lykilatriði til að koma í veg fyrir og meðhöndla lungnabólgu myndu einnig fyrirbyggja að börn létu lífið af völdum mislinga, niðurgangs og blóðeitrunar svo fátt eitt sé nefnt.

„Ef okkur er alvara með að bjarga lífi barna þá verðum við að lyfta grettistaki í baráttunni gegn lungnabólgu,“ segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, í tilefni ráðstefnunnar.

Kevin Watkins, framkvæmdastjóri Save the Children, segir að fjöldi lífa sem bjarga megi með samstilltu átaki sé líklega hærri en áætlanirnar geri ráð fyrir því þær taki ýmsa þætti ekki með í reikninginn.

„Það væri siðferðilega óverjandi að sitja hjá og leyfa milljónum barna að deyja því þau skorti aðgang að bóluefni, ódýrum sýklalyfjum eða súrefnismeðferð.“

Á tímum aukinnar umhverfisvitundar er mikilvægt innlegg í þessa umræðu að að mengun í andrúmsloftinu ber ábyrgð á nærri einu af hverjum fimm dauðsföllum barna af völdum lungnabólgu samkvæmt rannsóknar Institute for Health Metrics and Evaluation. 91 prósent heimsbyggðarinnar eru að anda að sér mengaðra lofti en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælir með.

Quique Bassat, rannsóknarprófessor við ISGlobal-stofnunina í Barcelona og stjórnarformaður Alþjóðaráðstefnunnar um lungnabólgu barna (e. Global Forum on Childhood Pneumonia) segir að ekki sé hægt að vanrækja sjúkdóminn lengur.

„Þetta er sjúkdómurinn sem dregur flest börn til dauða og það er ekki hægt að vanrækja hann lengur. Rannsóknir og nýsköpun verða að ýta á stefnubreytingu og leiða byltinguna í að draga úr lungabólgutengdum dauðsföllum.“

Á ráðstefnunni, Global Forum on Childhood Pneumonia í Barcelona sem hófst í gær 29. Janúar og stendur þar til í dag, komu níu leiðandi heilbrigðis og barnaverndarsamtök að borðinu og töluðu fyrir þessu brýna málefni við heimsleiðtoga. Þetta eru ISGlobal, Save the Children, UNICEF, Every Breath Counts, „la Caixa“ Foundation, Bill & Melinda Gates Foundation, USAID, Unitaid and Gavi og Vaccine Alliance. Ráðstefnan er sú fyrsta sinnar tegundar.

Fleiri
fréttir

27. mars 2024

Níu ár af stríði í Jemen: Milljónir barna vannærð
Lesa meira

15. mars 2024

Þrettán ár af stríði í Sýrlandi: UNICEF aðstoðaði milljónir í fyrra en þörfin aldrei meiri
Lesa meira

13. mars 2024

Sögulegur árangur í baráttunni gegn barnadauða
Lesa meira
Fara í fréttasafn