01. desember 2016

Jólakort sem sannar gjafir

Viltu hjálpa Stúfi að koma námsgögnum til barna í neyð? Þvörusleiki að dreifa ormalyfjum? Og Giljagaur að koma hlýjum teppum til barna á flótta? Jólakortin okkar gætu þá hentað þér.

Lindex og Te & Kaffi munu fyrir jólin selja falleg og óvenjuleg jólakort sem eru sannar gjafir. Hvert jólakort kostar 1.500 krónur og er sönn gjöf sem UNICEF sendir til barna í neyð. Íslensku jólasveinarnir prýða kortin og myndirnar eru teiknaðar af Brian Pilkinton.

Hvert jólakort með Stúfi gefur sem dæmi námsgögn fyrir 20 börn. Stúfi er mikið í mun að öll börn fái tækifæri til að vaxa í átt að draumum sínum og markmiðum. Þú getur hjálpað Stúfi í þessari baráttu!

Á hverju korti er skemmtileg vísa um viðkomandi jólasvein og hjálpargögnin sem hann gefur.

Íslensku jólasveinarnir eru þekktir fyrir stríðni og pretti en hafa þó fyrir þessi jól, eins og í fyrra, ákveðið að taka höndum saman, bæta ráð sitt og hjálpa UNICEF við að koma hinum ýmsu hjálpargögnum til barna í neyð.

Fyrr á árinu lögðu jólasveinarnir land undir fót og hjálpuðu UNICEF að dreifa þeim sönnu gjöfum sem keyptar voru hér á landi fyrir seinustu jól.

Bjúgnakrækir fór til dæmis í langa för til Afganistan með skóla í kassa. Nú eru þeir bræður komnir aftur til landsins og að gera sig klára fyrir annasama daga. Þeir vona innilega að þeim verði jafn vel tekið og í fyrra, enda neyðin mikil og þörfin brýn.

Fleiri
fréttir

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira
Fara í fréttasafn