Menu

HB Grandi gefur fimm milljónir króna í neyðarsöfnun fyrir vannærð börn Nígeríu

■ Löng viðskiptasaga við Nígeríu í tengslum við útflutning á sjávarafurðum ■ Yfir 20 milljónir króna hafa safnast í neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi ■ Söfnunin er enn í fullum gangi

 

HB Grandi hefur gefið fimm milljónir króna í neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi vegna hörmunganna sem nú ríkja í Nígeríu og nágrannaríkjunum. Fleiri en 200 börn á dag látast þar úr vannæringu.

Með styrknum frá HB Granda er neyðarsöfnunin komin vel yfir 20 milljónir.

Framlögin fara í að meðhöndla vannærð börn og veita veikum börnum lyf, auk þess sem áhersla er lögð á að fyrirbyggja að fleiri börn verði vannærð. Með réttri meðhöndlun í tæka tíð má koma í veg fyrir 99% dauðsfalla hjá vannærðum börnum á svæðinu.

„HB Grandi á langa viðskiptasögu við Nígeríu í tengslum við útflutning á sjávarafurðum og því er þetta rausnarlega framlag þeirra einstaklega gleðilegt. Við erum HB Granda mjög þakklát fyrir stuðninginn. Tíminn er naumur og hver mínúta skiptir máli. Gjöf eins og þessi mun því veita okkur ómetanlega hjálp við að bjarga lífi barna,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Neyðarsöfnunin er enn í fullum gangi og hægt er að styrkja hana með því að senda sms-ið BARN í númerið 1900 (1.000 kr).

UNICEF hefur meðhöndlað fleiri en 136.000 börn síðastliðin misseri í norðausturhluta Nígeríu, þar sem ástandið er verst. Neyðin er hins vegar gríðarleg og þörf á að stórauka aðgerðirnar.

Hálf milljón barna

Hálf milljón barna í Nígeríu, Tsjad, Níger og Kamerún er í lífshættu vegna vannæringar. Ástæðan er meðal annars skortur á uppskeru, hækkandi matvælaverð og stórfelldur fólksflótti vegna árása vígahreyfingarinnar Boko Haram.

Ástandið í Borno-héraði í norðausturhluta Nígeríu er það slæmt að það kemur meira að segja reyndustu næringarsérfræðingum UNICEF á óvart.

Hægt er að styrkja neyðarhjálp UNICEF með því að senda sms-ið BARN í númerið 1900 (1.000 kr). Eitt sms í jafngildir sem dæmi vikulangri meðferð fyrir barn sem þjáist af vannæringu.

Einnig er hægt að styrkja neyðarsöfnunina hér eða með því að leggja inn á neyðarreikninginn: 701-26-102050 (kt. 481203-2950).

Frekari upplýsingar um ástandið: www.unicef.is/nigeria

 

Ég vil gefa mánaðarlega

Þitt framlag

Eða

Önnur upphæð