14. nóvember 2016

Nærri hálf milljón barna í fjórum ríkjum í Vestur- og Mið-Afríku er í lífshættu vegna vannæringar: UNICEF á Íslandi hefur neyðarsöfnun í dag

Nærri hálf milljón barna í fjórum ríkjum í Vestur- og Mið-Afríku er í bráðri hættu vegna vannæringar og stór hluti þeirra gæti látið lífið á næstu mánuðum berist ekki hjálp. Verst er ástandið í norðausturhluta Nígeríu þar sem talið er að nærri 75.000 vannærð börn muni láta lífið fái þau ekki meðferð. Það eru fleiri en 200 börn á dag.

Nærri hálf milljón barna í fjórum ríkjum í Vestur- og Mið-Afríku er í bráðri hættu vegna vannæringar og stór hluti þeirra gæti látið lífið á næstu mánuðum berist ekki hjálp. Verst er ástandið í norðausturhluta Nígeríu þar sem talið er að nærri 75.000 vannærð börn muni láta lífið fái þau ekki meðferð. Það eru fleiri en 200 börn á dag.

UNICEF á Íslandi hefur í dag neyðarsöfnun til hjálpar þessum börnum. Hægt er að styrkja hana með því að senda sms-ið BARN í númerið 1900 (1.000 kr) – sem jafngildir vikulangri meðferð fyrir vannært barn.

Ástæða neyðarinnar er meðal annars skortur á uppskeru, hækkandi matvælaverð og stórfelldur fólksflótti vegna árása vígahreyfingarinnar Boko Haram. Löndin sem um ræðir eru Nígería, Tsjad, Níger og Kamerún en svæðið er eitt það fátækasta í heimi.

Barn sem þjáist af alvarlegri bráðavannæringu er níu sinnum líklegra til að deyja af völdum sjúkdóma en önnur börn sem veikjast, til dæmis af malaríu, lungnabólgu og niðurgangspestum. Venjulega er því talað um að börn láti lífið af orsökum tengdum vannæringu. Staðan er hins vegar svo slæm núna að sums staðar í Borno-héraði í norðausturhluta Nígeríu svelta börn til dauða.

Ef hægt er að veita öllum börnum í Borno, sem þjást af alvarlegri vannæringu, viðeigandi meðferð er hægt að bjarga meira en 99% þeirra.

UNICEF hefur í áratugi verið á staðnum í öllum fjórum ríkjunum sem um ræðir og hefur nú þegar útvegað mikið magn af lífsnauðsynlegum hjálpargögnum, meðal annars með hjálp heimsforeldra.

111.326 börn hafa þegar fengið meðferð við vannæringu. Þar sem ástandið er enn að versna er hins vegar þörf á að stórauka allar neyðaraðgerðir á svæðinu.

„Þessar hörmungar hafa farið hljótt, þrátt fyrir það hversu umfangsmiklar og alvarlegar þær eru. Tíminn er naumur og mikið undir. Góðu fréttirnar eru þær að með réttri meðhöndlun ná langflest vannærð börn sér á einungis nokkrum vikum,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

„Við hjá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, höfum þá reynslu og þekkingu sem þarf til að bjarga lífi vannærðra barna á svæðinu. Við leggjum einnig ríka áherslu á að ná til barna áður en þau verða veik.“

UNICEF leggur áherslu á heildrænar aðgerðir í hjálparstarfi sínu á svæðinu. UNICEF meðhöndlar meðal annars vannærð börn, keppist við að fyrirbyggja að fleiri börn verði vannærð, veitir veikum börnum lyf, styður næringarmiðstöðvar vítt og breitt um svæðið, sér fólki fyrir grunnheilsugæslu og útvegar hreint vatn. Börn sem hafa þurft að flýja vegna Boko Haram fá líka sálrænan stuðning og hjálp við að vinna úr reynslu sinni, auk þess sem keppst er við að koma þeim aftur í skóla.

Hægt er að styrkja neyðarhjálp UNICEF með því að senda sms-ið BARN í númerið 1900 (1.000 kr). Einnig er hægt að styrkja neyðarsöfnunina hér eða með því að leggja inn á neyðarreikninginn: 701-26-102050 (kt. 481203-2950).


Lesa meira um neyðarástandið: Smelltu hér.
Lesa um hugmyndina á bak við yfirskriftina "Ekki horfa ... hjálpaðu": Smelltu hér.

Fleiri
fréttir

27. mars 2024

Níu ár af stríði í Jemen: Milljónir barna vannærð
Lesa meira

15. mars 2024

Þrettán ár af stríði í Sýrlandi: UNICEF aðstoðaði milljónir í fyrra en þörfin aldrei meiri
Lesa meira

13. mars 2024

Sögulegur árangur í baráttunni gegn barnadauða
Lesa meira
Fara í fréttasafn