Menu

Geta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna bætt stöðu barna á Íslandi?

UNICEF, ásamt samstarfsaðilum, stóð í dag fyrir opnum fundi um heimsmarkmiðin og stöðu barna á Íslandi.

 

22. júní 2017

UNICEF, ásamt verkefnastjórn um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, Hagstofu Íslands og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, stóð í dag fyrir opnum fundi um heimsmarkmiðin og stöðu barna á Íslandi. Yfirskrift fundarins var: „Geta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna bætt stöðu barna á Íslandi?“

Fundurinn var haldinn í tilefni af útgáfu nýrrar skýrslu UNICEF sem fjallar um stöðu barna í efnameiri ríkjum með hliðsjón af þeim heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem talin eru mikilvægust fyrir velferð þeirra. 

Skýrslan er sú fjórtánda í Report Card rannsóknarritröð Innocenti rannsóknarmiðstöðvar UNICEF sem mælir velferð barna í efnameiri ríkjum heims. Hana má nálgast hér.

Katrín Oddsdóttir lögfræðingur var fundarstjóri.

Dagskráin hófst á því að Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, fór yfir skýrsluna og stöðu barna á Íslandi miðað við hvert þeirra tíu heimsmarkmiða sem tekin voru fyrir í skýrslunni.

Þar kom fram að heilt yfir raðast Ísland í sjötta sæti af því 41 landi sem skýrslan náði til. Þá stöndum við okkur best allra landa er kemur að jöfnuði og að tryggja frið og réttlæti.

Ísland stendur ekki jafn vel að vígi ef litið er til geðheilbrigði barna, menntunarárangurs eða umhverfisvitundar þeirra, en þar má nefna að tæpur fjórðungur íslenskra barna á aldrinum 11-15 ára upplifa tvö eða fleiri einkenni geðræns vanda oftar en einu sinni í viku.

 Þrátt fyrir góða stöðu megum við ekki slá slöku við. 

Bergsteinn talaði auk þess um mikilvægi þess að afla frekari gagna um stöðu barna hér á landi svo að hægt sé að tryggja velferð þeirra með öruggari hætti.

„Meðaltalsmælingar heilla ríkja fela oft ýmis konar mismunun og jaðarsetningu hópa sem falla á milli fjala. Ítarlegra mælinga er þörf því þrátt fyrir góða stöðu megum við ekki slá slöku við heldur eigum við að láta skýrsluna vera okkur brýningu til frekari góðra verka í þeirri viðleitni að skilja ekkert barn eftir í baráttunni fyrir bættum lífskjörum á Íslandi,“ sagði Bergsteinn. 

Fjöldi fólks mætti á fundinn.

Þá flutti Héðinn Unnsteinsson, formaður verkefnastjórnar stjórnarráðsins um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, erindi um þá vinnu sem hefur átt sér stað í Stjórnarráðinu við innleiðingu heimsmarkmiðanna.

Þar kom fram að innleiðing heimsmarkmiðanna feli í sér þverfaglega vinnu milli ráðuneyta sem og Hagstofu Íslands. Í haust mun verkefnastjórnin skili stöðuskýrslu með tillögum að forgangsröðun markmiða til ríkisstjórnarinnar. Á næstu mánuðum stendur auk þess til að tengja heimsmarkmiðin lögum um opinber fjármál. 

Kolbeinn Stefánsson, sérfræðingur á Hagstofu Íslands.

Næst tók Kolbeinn Stefánsson, sérfræðingur á Hagstofu Íslands, til máls og fjallaði um mælingar á lífsgæðum barna. Hann benti á að mikilvægt væri að mæla ekki einungis stöðu heimila heldur einnig stöðu barna sérstaklega, því ekki eru alltaf tengsl á milli fjárhags heimilis og lífsgæða barna.

Þá kom fram að heildarmyndin í mælingum á stöðu barna sé jákvæð en útkoman þó misgóð eftir því hvaða þættir í lífum barna eru mældir. 

Erna Björg Sigurðardóttir, deildarstjóri gæða og rannsókna á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, dróg erindin saman og setti þau í samhengi við daglegt starf á vettvangi. Hún fjallaði meðal annars um hvernig Reykjavíkurborg nýtir sér rannsóknir til að bæta þjónustu við þá sem eru í fjárhagserfiðleikum. 

Í lokin gafst fólki kostur á að spyrja frummælendur spurninga. Úr urðu skemmtilegar umræður. 

Erna Björg Sigurðardóttir, deildarstjóri gæða og rannsókna á velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

UNICEF færir öllum þeim sem komu að fundinum og þeim sem mættu kærar þakkir. 

Ég vil gefa mánaðarlega

Þitt framlag

Eða

Önnur upphæð