Menu

Fyrstu Réttindaskólar á Íslandi

Alþjóðlegt verkefni UNICEF sem sýnt hefur mikinn árangur tekið upp hér á landi

Flataskóli, Laugarnesskóli og Laugalækjarskóli verða fyrstu Réttindaskólar UNICEF hér á landi. Samkomulag þess efnis var undirritað nú fyrir hádegi og markar tímamót. Réttindaskólar eru alþjóðlegt vottunarverkefni sem sýnt hefur mikinn árangur alþjóðlega.

Þátttökuskólarnir leggja Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna til grundvallar í öllu sínu starfi. Markmiðið er að byggja upp lýðræðislegt námsumhverfi, auka þekkingu á mannréttindum og stuðla að gagnkvæmri virðingu innan skólasamfélagsins. Með verkefninu er skapaður rammi utan um þau markmið sem koma fram í aðalnámskrá grunnskóla, grunnskólalögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, jafnrétti og lýðræði. 

Skólastjóri Laugarnesskóla, skólastjóri Laugalækjarskóla, forstöðumaður Kringlumýrar, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi og skólastjóri Flataskóla undirrita samstarfssamninginn nú í dag.

Réttindaskólar voru upphaflega þróaðir af UNICEF í Bretlandi og kallast þar Rights Respecting Schools Award. Í Bretlandi eru í dag ríflega 4.000 Réttindaskólar auk þess sem fjöldi slíkra skóla er nú í Kanada, Þýskalandi, Svíþjóð, Danmörku og Slóveníu.

Rannsóknir sem gerðar hafa verið í meira en 1.600 Réttindaskólum hafa sýnt fram á jákvæð áhrif á skólastarf. Dregið hefur úr einelti og ofbeldi í skólunum, nemendum líður betur og þeir sýna meira umburðarlyndi fyrir fjölbreytileika, starfsánægja kennara hefur aukist umtalsvert, nemendur taka aukinn þátt í skólastarfinu og þeir hafa meira sjálfstraust.

Mikil eftirspurn frá skólum
 
Starfsfólk UNICEF á Íslandi mun á skólaárinu vinna náið með Flataskóla, Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla og frístundamiðstöðvum þeirra að innleiðingu verkefnisins. Eftir ítarlega úttekt næsta vor munu þau geta sótt um viðurkenningu sem Réttindaskólar. Samstarfið hófst formlega í morgun með undirritun samstarfssamningsins.

„Ný aðalnámskrá fyrir grunnskóla leggur mikið upp úr mannréttindum og lýðræði. Frá því að hún var samþykkt höfum við hjá UNICEF á Íslandi fundið fyrir mikilli eftirspurn frá skólum og frístundamiðstöðvum eftir fræðslu og stuðningi við að uppfylla þessi metnaðarfullu markmið. Við erum því spennt að fara af stað með þetta tilraunaverkefni og stolt af því að fá Réttindaskóla til Íslands. Vonir standa til að geta boðið enn fleiri skólum þátttöku næsta vetur,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

„Við í Flataskóla viljum taka þátt í verkefninu til að efla enn frekar lýðræðislegt námsumhverfi og gera börnin okkar færari í að þekkja og virða mannréttindi sem byggja á virðingu og jafnræði,“ segir Ólöf S. Sigurðardóttir, skólastjóri Flataskóla. 

Skólastjóri Laugarnesskóla, skólastjóri Laugalækjarskóla, forstöðumaður Kringlumýrar, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi og skólastjóri Flataskóla undirrita samkomulagið nú í morgun.

Við þurfum markvisst frá unga aldri að þjálfa börn í að hafa trú á eigin rödd.

Um 40 starfsmenn skólanna og frístundamiðstöðvanna sem taka þátt í verkefninu sitja nú námskeið hjá erlendum sérfræðingi UNICEF í hugmyndafræði Réttindaskóla. Á komandi vikum og mánuðum munu börnin í skólunum meðal annars fá fræðslu um Barnasáttmálann og fræða síðan foreldra sína, sérstökum réttindaráðum verður komið á fót þar sem börn eru í meirihluta, unnið verður markvisst að því að byggja upp lýðræðislegt námsumhverfi og börnin fá þjálfun í að þekkja muninn á réttindum og forréttindum.

„Oft er sagt að börnin séu framtíðin. Vissulega eru það þau sem taka við en æskan er ekki einungis biðstofa fullorðinsáranna. Börn eiga réttindi og sjálfstæða tilvist hér og nú. Við þurfum markvisst frá unga aldri að þjálfa börn í að hafa trú á eigin rödd, æfa þau í lýðræðislegum vinnubrögðum og gera þau meðvituð um að þeirra reynsla og viðhorf skipta máli. Réttindaskólar eru sprottnir upp úr þessari hugsun,“ segir Bergsteinn Jónsson hjá UNICEF á Íslandi.
 

Gleði á undirituninni áðan. Gaman að fá Réttindaskóla hingað til lands og hefja spennandi tilraunaverkefni!

Ég vil gefa mánaðarlega

Þitt framlag

Eða

Önnur upphæð