26. febrúar 2020

Fimmtán barnahermönnum bjargað í Suður-Súdan

Í dag var fimmtán drengjum á aldrinum 16-18 ára sleppt úr ánauð hermennsku í Suður-Súdan. Allir höfðu þeir verið teknir höndum í átökum stríðandi fylkinga í norðurhluta landsins árið 2019. Nú hefja þeir nýtt líf og við tekur vinna við að hjálpa þeim að aðlagast lífinu utan hersins.

26. febrúar 2020 Í dag var fimmtán drengjum á aldrinum 16-18 ára sleppt úr ánauð hermennsku í Suður-Súdan. Allir höfðu þeir verið teknir höndum í átökum stríðandi fylkinga í norðurhluta landsins árið 2019. Nú hefja þeir nýtt líf og við tekur vinna við að hjálpa þeim að aðlagast lífinu utan hersins.

Að lausn drengjanna komu UNICEF, friðargæsla Sameinuðu þjóðanna og nefnd suður-súdanskra stjórnvalda um afvopnun (e. National Disarment, Demobilization and Reintegration Commission). Tvær vikur eru síðan aðgerðaáætlun um að binda enda á brot gegn börnum var undirrituð af ríkisstjórn Suður-Súdan. Áætlunin er sú fyrsta sinnar tegundar og afar mikilvægt skref.

„Með stofnun nýrrar samsteypustjórnar í Suður-Súdan og vonandi frið til lengri tíma þá höfum við gullið tækifæri til að tryggja að engin börn verði skilin eftir í skotgröfunum,“ segir Mohamed A Ayoya, fulltrúi UNICEF í landinu.

„Lausn drengjanna í dag sýnir vilja til að framfylgja áætluninni sem undirrituð var og hvet ég alla herforingja um allt land til að veita börnum lausn frá hermennsku tafarlaust.“

Drengirnir verða fluttir tímabundið á sérstaka miðstöð þar sem þeim verður veitt sálfræði- og félagsaðstoð og þarfir þeirra metnar. Næstu skref verða síðan að hafa upp á fjölskyldum þeirra og unnið að því til langs tíma að hjálpa þeim að aðlagast lífinu á nýjan leik enda ljóst að þeir hafa vafalaust upplifað skelfilega hluti sem ekkert barn ætti að ganga í gegnum. Það ferli getur tekið allt að þrjú ár.

Takist ekki að hafa upp á fjölskyldum þeirra fljótlega verður börnunum komið fyrir hjá fósturfjölskyldu meðan leit heldur áfram.

„Það er ekkert hægt að stytta sér leið þegar kemur að aðlögun,“ segir Ayoya. „Það er að segja ef okkur er alvara með að koma þeim á réttan kjöl og koma í veg fyrir að þeir lendi aftur í klóm stríðandi fylkinga. Þetta prógramm okkar er þaulreynt og árangursríkt en engu að síður fjársvelt. Hætt er við að því verði lokað nema með auknu fjármagni,“ segir Ayoya, líkt og fjallað var um hér á síðunni um daginn.

Fleiri
fréttir

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira
Fara í fréttasafn