Menu

Fatimusjóður veitir styrk upp á átta milljónir króna

Gáfu alls 12 milljónir króna á árinu vegna Sýrlands

 

Fatimusjóður gaf í desember átta milljónir króna í neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi vegna stríðsins í Sýrlandi. Framlagið hefur verið sent til Jórdaníu og fer í menntaverkefni fyrir börn og ungmenni sem flúið hafa frá Sýrlandi.

Framlag Fatimusjóðsins kemur til viðbótar fjögurra milljóna króna framlagi sem þau afhentu í vor, í kjölfar skákmaraþons Hrafns Jökulssonar og Skákfélagsins Hróksins. Alls gaf Fatimusjóður þannig 12 milljónir króna á árinu til neyðaraðgerða UNICEF vegna hörmunganna í Sýrlandi.

„Við erum innilega þakklát fyrir þetta rausnarlega framlag,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

„Milljónir sýrlenskra barna eru í neyð og stríðið hefur bráðum staðið yfir í sex ár. Það er lykilatriði að hjálpa börnum að halda menntun sinni áfram, enda er menntun grundvallaratriði og skólinn mikilvægur fastur punktur í tilveru sem farin er á hvolf.“

Hafa áður gefið 20 milljónir

Árið 2015 gaf Fatimusjóður alls 15 milljónir króna til UNICEF á Íslandi í áðurnefnt menntaverkefni fyrir börn frá Sýrlandi í Jórdaníu. Það var ekki í fyrsta skipti sem sjóðurinn styrkti UNICEF rausnarlega því árið 2013 gáfu þau tvær milljónir króna í neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir Sýrland.

Árið 2012 styrktu þau UNICEF í Jemen um þrjár milljónir króna og fór framlagið í næringar- og heilsuverndarverkefni fyrir börn.

„Við erum innilega þakklát því mikla hugsjónafólki sem stendur að Fatimusjóðnum. Sérstakar kveðjur fara til hinnar miklu baráttukonu Jóhönnu Kristjónsdóttur,“ segir Bergsteinn Jónsson