Menu

Dauðsföll aldrei fleiri á Miðjarðarhafinu

Málefni flóttafólks rædd á leiðtogafundi á Möltu

 

9. febrúar 2017

Flóttafólk og innflytjendur voru í brennidepli á óformlegum fundi 28 aðila Evrópubandalagsins sem haldinn var á Möltu nýverið. UNICEF hvatti til þess að gripið yrði til tafarlausra aðgerða.

Á fundinum voru m.a ræddar leiðir til þess að stemma stigu við flóttamannastraumnum frá Líbíu til Ítalíu, koma í veg fyrir starfsemi smyglara, bjarga mannslífum og auka samvinnu við yfirvöld í Líbíu.

Dauðsföll aldrei fleiri

Að minnsta kosti 1.354 manns drukknuðu í Miðjarðarhafinu frá nóvember 2016 til janúar 2017. Meirihluti dauðsfallanna átti sér stað á hinni hættulegu sjóleið milli Líbíu og Ítalíu en talið er að 1.191 manns hafi farist þar.

Þetta eru 13 sinnum fleiri dauðsföll en á sama tíma á árunum 2015-2016 og vegna áframhaldandi vetrarhörku í Evrópu getur þessi hættulega leið, sem og aðrar, orðið að enn frekari dauðagildru.

Talið er að af þeim sem létust hafi verið tæplega 200 börn.*

„Vaxandi fjöldi þeirra barna sem týnast á sjóleiðinni frá Norður-Afríku til Ítalíu undirstrikar þennan bráðavanda sem og hina knýjandi þörf fyrir sameiginlegt átak stjórnvalda beggja megin Miðjarðarhafsins,“ segir Justin Forsyth, aðstoðarframkvæmdarstjóri UNICEF. Hann segir enn fremur að þær ákvarðanir sem teknar verði á fundinum muni í orðsins fyllstu merkingu varða líf og dauða þúsundir barna sem bíða flutnings eða eru strandaglópar í Líbíu.

Þetta eru 13 sinnum fleiri dauðsföll en árið á undan. Bregðast þarf tafarlaust við. 

Ljóst hvað þarf að gera

Ákvarðanir sem UNICEF lagði til að yrðu teknar á fundinum á Möltu;

*Að komið verði í veg fyrir misbeitingu og mansal á börnum.

*Að meginreglunni um non-refoulement verði í hvívetna fylgt, en hún kveður á um bann við brottvísun flóttamanna til staða þar sem líf þeirra og frelsi kann að vera í hættu.

*Að öll þau úrræði verði styrkt sem lúta að því að tryggja öryggi barna í Líbíu.

*Að fjármagni verði varið í móttöku- og aðhlynningarmiðstöðvar í Líbíu sem sjái um menntun og heilbrigðisþjónustu.

*Að fjármagni verði varið til raunhæfra verkefna er lúta að búferlaflutningum og sameiningu fjölskyldna til að koma í veg fyrir að örvæntingarfullir flóttamenn og innflytjendur leiti á náðir smyglara og hætti þar með lífi sínu.

Vetrarhörkur í Evrópu hafa enn aukið á þá hættu sem fjölskyldur á flótta og faraldsfæti standa frammi fyrir. Mikilvægt er að bregðast við.

Starfsemi UNICEF

UNICEF starfar á hinum svokölluðu innflytjendaleiðum, þ.á.m í Líbíu þar sem við sjáum fólki á flótta og faraldsfæti fyrir vatni, heilbrigðisþjónustu og menntun.

Fyrir stuttu tókum við þátt í að bjarga, ásamt félögum okkar í Intersos, 754 manns við Miðjarðarhaf. Meðal þeirra sem bjargað var úr sjónum voru 148 fylgdarlaus börn. Síðastliðna daga hefur ítalska strandgæslan, með stuðningi UNICEF og Intersos, bjargað 285 börnum.

Erfitt er að áætla rétta tölu þeirra barna sem týna lífinu þar sem mörg þeirra eru fylgdarlaus og dauði þeirra því hvorki skráður né tilkynntur.

Heimildir: UNHCR, United Nations High Commisioner for Refugees og IOM, International Organiation for Migration.

Ég vil gefa mánaðarlega

Þitt framlag

Eða

Önnur upphæð