Menu

Dagur rauða nefsins gekk framar vonum: Fleiri en 1850 nýir heimsforeldrar

Framkvæmdastjóri UNICEF segir viðtökurnar framar björtustu vonum

 

9. júní 2017

Dagur rauða nefsins hjá UNICEF á Íslandi náði hámarki í kvöld í rúmlega þriggja klukkustunda skemmti- og söfnunarþætti í beinni útsendingu á RÚV. Meginmarkmið átaksins var að gleðja landsmenn, fræða þá um baráttu UNICEF í þágu barna um allan heim og bjóða þeim að gerast heimsforeldrar.

Átakið gekk framar öllum vonum. Rúmlega 1850 manns gengu til liðs við heimsforeldra UNICEF og mikill fjöldi núverandi heimsforeldra hækkuðu mánaðarlegt framlag sitt. Auk þess söfnuðust um 5,5 milljónir í stökum framlögum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Miðað við reynslu fyrri ára má áætla að heildarvirði söfnunarinnar sé um 220 milljónir.

Heimsforeldrar eru hjartað í lífsnauðsynlegu starfi UNICEF um allan heim og eru nú orðnir tæplega 28.000 talsins á Íslandi. UNICEF starfar í yfir 190 löndum og heimsforeldrar eru hlutfallslega hvergi fleiri í heiminum en á Íslandi. Skráningar halda áfram eftir dag rauða nefsins á https://unicef.is/skraning

Þakklát þeim fjölmörgu sem lögðu okkur lið

Það er ljóst að sá gríðarlegi stuðningur sem landsmenn veittu í kvöld mun snerta líf ótal barna um allan heim.

,,Við gætum ekki verið ánægðari með niðurstöðuna sem er framar okkar björtustu vonum. Við bjóðum alla nýja heimsforeldra UNICEF hjartanlega velkomna og erum þakklát og hrærð yfir því hversu stór hluti þjóðarinnar leggur baráttu UNICEF lið,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Landsmenn brugðust við sláandi umfjöllun um starf UNICEF víða um heim. Í forgrunni var ferð söngkonunnar Sigríður Thorlacius til Bangladess þar sem hún kynnti sér aðstæður barna. Þar hitti hún meðal annars götubörn, sem búa við afar hættulegar aðstæður, og börn sem vinna mikla erfiðisvinnu, en varð einnig vitni að því hvernig UNICEF ásamt heimsforeldrum beita sér af alefli á hverjum degi fyrir bættum lífskjörum barna þar í landi.

Saga Garðarsdóttir og Dóra Jóhannsdóttir voru grínstjórar dagsins og Tjarnargatan framleiddi grínefnið. Auglýsingastofan Jónsson og Le‘macks vann að markaðsátaki dagsins og það eru Vodafone, Lindex á Íslandi og Kvika sem greiða kostnaðinn vegna framleiðslu og markaðssetningar. Auk þess kom fjöldi listamanna fram í þættinum í sjálfboðavinnu og um fimmtíu sjálfboðaliðar svöruðu í símann í símaveri Vodafone.

Stjórn og starfsfólk UNICEF á Íslandi eru afar þakklát öllum þeim ótalmörgu sem lögðu sitt af mörkum og gerðu dag rauða nefsins að veruleika.

Ég vil gefa mánaðarlega

Þitt framlag

Eða

Önnur upphæð