Menu

Bolludeginum er reddað

Við elskum bolludaginn!

 

Gerbollur, vatnsdeigsbollur, súkkulaðibollur, lakkrísrjómabollur - namm!

En hver kannast ekki við tilfinninguna þegar rjóminn er einu andartaki frá því að flæða út úr eyrunum á manni, glassúrofnæmið frá því í gamla daga er búið að taka sig upp - og tilhugsunin um eina bollu í viðbót fær mann til að vilja bókstaflega kasta upp? Samt langar mann í eina viðbót því bolludagurinn er jú bara einu sinni á ári ...

Við erum með einfalda lausn á þessu máli. 

Það er með gleði, stolti og eftirvæntingu sem við kynnum ... vatnshreinsibolluna, námsgagnabolluna og bóluefnabolluna!

Þær kosta jafnmikið og bolla í bakaríi en munurinn er sá að þú þarft ekki að borða þær.

Það sem meira er: Þær gera gagn. Þær hjálpa börnum. Þær eru sannar gjafir. Halló, eru til betri bollur?!

Hér að neðan má sjá úrvalið hjá okkur. Verði ykkur að góðu!

Þessi bolla er einstaklega hreinsandi. Vatnshreinsandi, sem sé. Við kynnum bollu ársins 2017.

Vatnshreinsibolla

Nei, þetta er ekki vatnsdeigsbolla - þetta er VATNSHREINSIBOLLA.

Vatnsdeigsbollur eru svo 2016. Vatnshreinsibollan er þvert á móti bolla ársins 2017. Hún er nútíminn, framtíðin, svarið við svo mörgu. Engin matarsóun (halló, maður getur aldrei borðað allan rjómann á bollunni). Ekkert umbúðavesen (hversu mörgum bollukössum er hent á einum degi?). Engar biðraðir í loftlausu og útúrstöppuðu bakaríi. Bara betri heimur!

Vatnshreinsibollan er auk þess algjörlega laus við kaloríur, svona ef þú varst eitthvað að spá í það. Góðu fréttirnar eru þær að fyrir hverja keypta vatnshreinsibollu getum við útvegað 500 vatnshreinsitöflur.

Samkvæmt hávísindalegum mælingum okkar fæst um það bil einn desilítri af þeyttum rjóma með hverri keyptri bollu úr bakaríi. Með þessari ofurbollu fást hins vegar 2.500 lítrar af hreinu vatni.

Góður díll? Nei, við segjum nú bara svona.

Verð: 420 krónur. 

 

Einhverjir gætu haldið að bláum matarlit hefði verið bætt í rjómann á þessari bollu. Svo er ekki. Hún inniheldur engar dýraafurðir - engan rjóma.

Námsgagnabolla

Námsgagnabollan er vegan. Að sjálfsögðu. Enginn rjómi, engin egg, ekkert smjör.

Hún inniheldur engar dýraafurðir og tryggir í ofanálag sjö börnum námsgögn. Ding dong, er hægt að finna bollu sem er meira spot-on í dag?

Þessi bolla slær svo margar flugur í einu höggi að það er rugl. Ekkert dýravesen og svo er menntun líka framtíðin. 

Verð: 456 krónur.

Þessi bolla er stútfull af réttu efnunum.

Bóluefnabollan

Flestar bollur eru stútfullar af einhverjum efnum. Ef ekki sultu og rjóma, þá bragðefnum og litarefnum ... og svo eru þær örugglega piparhúðaðar ... eða piparfylltar ... eða með piparkroppi eða hvað þetta pipar-dót allt heitir. 

Það er því með sérstakri gleði sem við kynnum bollu sem er bókstaflega troðfull af góðum efnum.
BÓLUEFNUM

Hver keypt bóluefnabolla gerir okkur kleift að útvega 20 skammta af bóluefni gegn mænusótt. Mænusótt er sjúkdómur sem enginn maður vill að nokkur barn fái. Engin lyf eru til við honum og eina leiðin til að koma í veg fyrir mænusótt er með bólusetningu. Þessi bolla er frábær kostur - fyrir alla.

Verð: 483 krónur. 

Við hvetjum ykkur til að bolla yfir ykkur á bolludaginn í ár ... bæði með hefðbundnum bollum og hjálpargagnabollum!

Ég vil gefa mánaðarlega

Þitt framlag

Eða

Önnur upphæð