Menu

Börnum sem líða efnislegan skort á Íslandi fjölgar

■ 9,1% barna á Íslandi líða efnislegan skort ■ Flest börn líða skort á sviði húsnæðis ■ Ný leið til að greina efnislegan skort meðal barna kynnt nú í morgun ■ UNICEF á Íslandi mælist til þess að greiningin verði framkvæmd árlega

Húsfylli á kynningu UNICEF þar sem skýrslan um börn sem líða efnislegan skort á Íslandi var kynnt.

Alls líða 9,1% barna á Íslandi efnislegan skort og skorturinn mælist mestur á sviði húsnæðis. Þetta kom fram á kynningu UNICEF á Íslandi sem fram fór í morgun og þar sem fjallað var um nýja skýrslu um börn á Íslandi sem líða efnislegan skort

Greiningin nær til barna á aldrinum 1-15 ára og fram kom að gera má ráð fyrir að rúmlega 6.100 börn á þeim aldri líði efnislegan skort hér á landi. Af þeim líða tæplega 1.600 börn verulegan skort. Það þýðir að þau skortir þrennt eða fleira af lista lífskjararannsóknar Evrópusambandsins, sem greiningin byggir á. Börn sem skortir tvennt eða fleira af listanum eru sögð líða skort. 

Efnislegur skortur meðal barna á Íslandi hefur rúmlega tvöfaldast frá árinu 2009. Þá liðu 4,0% barna hér á landi skort en árið 2014 var hlutfallið komið upp í 9,1%. Verulegur skortur hefur þrefaldast á milli mælinga og er nú 2,4%. Vert er að benda á að í þeim gögnum sem safnað var árið 2009 má ætla að enn sé að finna áhrif góðærisins og skorturinn þá hafi því mælst óvenju lágur. 

Skortgreining UNICEF leiðir í ljós ​að mestan skort á meðal barna á Íslandi er að finna hjá þeim sem eiga foreldra sem vinna hálft starf eða minna – þar með talið börnum þeirra sem eru atvinnulausir. Meira en fjórða hvert barn í þessum hópi líður efnislegan skort. Næst á eftir koma börn foreldra sem eru yngri en 30 ára og síðan börn foreldra sem eru í leiguhúsnæði.

Að auka velferð barna á Íslandi 
Skortgreining UNICEF er aðferð sem var þróuð af rannsóknarstofnun UNICEF og greinir marghliða skort meðal barna. Skortgreiningin er alþjóðleg en hefur ekki verið framkvæmd með sama hætti í neinu öðru efnameiri ríki og nú hefur verið gert hér á landi. Hagstofa Íslands vann greininguna að beiðni UNICEF á Íslandi og greindi svör úr lífskjararannsókn Evrópusambandsins sem þegar lágu fyrir og hafði verið safnað árin 2009 og 2014. Við greininguna notaði Hagstofan skortgreiningu UNICEF. 

UNICEF á Íslandi gaf í morgun bæði út skýrsluna Réttindi barna á Íslandi: Börn sem líða efnislegan skort með niðurstöðum greiningarinnar og opnaði mælaborð á netinu sem DataMarket setti upp. Þar má nálgast gagnasett greiningarinnar.

„Það er von UNICEF á Íslandi að aðferðin sem hér er kynnt, sem og opin og ítarleg rannsóknargögn, geri okkur mögulegt að vinna saman, með sömu niðurstöður, að því að auka velferð og tryggja réttindi barna á Íslandi,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. 

Börn skortir í dag allt að sjö atriði af listanum
Árið 2009 skorti ekkert barn meira en fjögur atriði af lista lífskjararannsóknar Evrópusambandsins. Árið 2014 skorti börn á Íslandi hins vegar allt að sjö atriði af listanum. Skorturinn hefur því dýpkað.

Skortgreining UNICEF skiptir skorti barna upp í sjö svið. Það svið þar sem börn á Íslandi líða mestan skort á eftir húsnæði er félagslíf. Þetta er jafnframt það svið þar sem skorturinn hefur aukist mest á milli ára. Félagslíf barna er mælt með því að athuga hvort þau hafi tök á að halda upp á viðburði, s.s. afmæli sitt, og hvort þau geti boðið vinum heim. 5,1% barna á Íslandi geta ekki gert þetta. Hjá börnum sem búa við verulegan skort fer hlutfallið hins vegar upp í 48,6%. Nær helmingslíkur eru þannig á að barn sem býr við verulegan skort á Íslandi líði skort hvað varðar félagslíf. 

„Skortgreining UNICEF er gagnleg því hún gerir okkur kleift að kafa vandlega ofan í skortinn og finna þau börn sem eru mest berskjölduð gagnvart barnafátækt og félagslegri einangrun. Ef hún er framkvæmd reglulega getum við betur tryggt að þær aðgerðir sem ráðist er í til að sporna gegn fátækt gagnist þeim sem verst standa,“ segir Bergsteinn Jónsson.

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað bent íslenskum yfirvöldum á skort á víðtækri og reglulegri gagnaöflun um stöðu barna hér á landi. Samhliða útgáfu skýrslunnar mælist UNICEF á Íslandi til þess að Hagstofu Íslands verði fengið það verkefni að mæla árlega efnislegan skort meðal barna og nota til þess skortgreiningu UNICEF. Óásættanlegt sé að ekki sé fylgst markvisst með skorti meðal barna hér á landi.

Húsfylli á kynningu UNICEF þar sem skýrslan um börn sem líða efnislegan skort á Íslandi var kynnt.

Staða barna sem eiga foreldra fædda erlendis batnar
Næst á eftir skorti á sviði félagslífs hjá börnum á Íslandi er skortur hvað varðar klæðnað og afþreyingu. Einungis hvað varðar næringu og upplýsingar batnar staðan í nær öllum hópum á milli áranna 2009 og 2014. Á fyrrnefnda sviðinu er m.a. spurt hvort börn fái daglega grænmeti eða ávexti og því síðarnefnda t.d. hvort aðgengi sé að tölvu á heimilinu.

Almennt jókst skortur barna í dreifbýli meira á milli ára en skortur barna á höfuðborgarsvæðinu eða í stærri bæjum. Skortur meðal barna mælist þó mestur í stærri bæjum, eða 11,2%.

Mikill munur mælist á skorti barna eftir menntun foreldra þeirra. Börn þeirra sem eingöngu eru með grunnmenntun eru líklegri á öllum sviðum til að líða skort en börn háskólamenntaðra. 

Sömu sögu er að segja um börn leigjenda samanborið við börn foreldra í eigin húsnæði. Skortgreining UNICEF leiðir auk þess í ljós að börn foreldra sem vinna hálft starf eða minna, þar með talið atvinnulausra, eru nær alltaf líklegri til að líða skort en börn foreldra í meiri vinnu. Loks eru börn foreldra í lægsta tekjubilinu nær alltaf líklegri til að líða skort en börn foreldra í hæsta tekjubilinu. 

Skortgreining UNICEF sýnir að staða barna sem eiga foreldra fædda erlendis hefur batnað hér á landi. Þau nýmæli hafa orðið að hlutfallslega fleiri börn sem eiga foreldra sem fæddir eru á Íslandi búa nú við skort en börn sem eiga foreldra fædda erlendis. Hjá síðarnefnda hópnum hefur skorturinn dregist saman um helming frá 2009 og mælist nú 6,8%. Hjá börnum sem eiga foreldra fædda á Íslandi hefur skorturinn á hinn bóginn rúmlega þrefaldast og mælist nú 9,4%. 

Heimsforeldrar hjálpa til
„UNICEF berst fyrir réttindum allra barna, bæði á Íslandi og erlendis. Við leggjum áherslu á varanlegar umbætur sem breyta heiminum þegar til lengri tíma er litið – og trúum því að það að fylgjast vandlega með efnislegum skorti barna hér á landi og setja í framhaldinu skýr, mælanleg markmið um að draga úr skortinum, bæti stöðu barna á Íslandi til frambúðar,“ segir Bergsteinn Jónsson hjá UNICEF á Íslandi. 
Heimsforeldrar UNICEF styðja skýrslu UNICEF á Íslandi sem kom út í morgun, mælaborðið og baráttu UNICEF hér á landi. Á Íslandi eru tæplega 27.000 heimsforeldrar.

Ég vil gefa mánaðarlega

Þitt framlag

Eða

Önnur upphæð