11. júlí 2017

Áheit í Reykjavíkurmaraþoni renna til neyðaraðgerða vegna vannærðra barna

Áheit til UNICEF á Íslandi í Reykjavíkurmaraþoninu í ár munu renna til neyðaraðgerða UNICEF vegna vannæringar í Suður-Súdan, Jemen, Nígeríu og Sómalíu. Hungursneyð var fyrr á árinu lýst yfir í Suður-Súdan, þeirri fyrstu í heiminum í sex ár. Jemen, Nígería og Sómalía eru að auki á barmi hungursneyðar.

11. júlí 2017

Áheit til UNICEF á Íslandi í Reykjavíkurmaraþoninu í ár munu renna til neyðaraðgerða UNICEF vegna vannærðra barna í Suður-Súdan, Jemen, Nígeríu og Sómalíu. Hungursneyð var fyrr á árinu lýst yfir í Suður-Súdan, þeirri fyrstu í heiminum í sex ár. Í kjölfar umfangsmikilla neyðaraðgerða hjálparsamtaka ríkir hungursneyð þar ekki lengur en staðan er á hinn bóginn enn grafalvarleg og gríðarlegur fjöldi barna í hættu. Jemen, Nígería og Sómalía eru að auki á barmi hungursneyðar og Sameinuðu þjóðirnar segja heimsbyggðina nú standa frammi fyrir stærsta neyðarástandi síðan við lok seinni heimsstyrjaldarinnar.

Þegar hafa fjölmargir skráð sig í áheitahlaup fyrir UNICEF á Íslandi í Reykjavíkurmaraþoninu og safna áheitum fyrir börn sem þjást vegna vannæringar. Framlögin munu meðal annars fara í að tryggja börnum vítamínbætt jarðhnetumauk en 1.000 krónur duga sem dæmi fyrir vikulangri meðferð fyrir vannært barn. Það sem af er ári hefur UNICEF meðhöndlað nærri 80.000 börn á svæðinu gegn alvarlegri bráðavannæringu og að auki meðhöndlað nærri 300.000 börn vegna malaríu, lungnabólgu og niðurgangspesta. Þetta hefur meðal annars verið gert með framlögum frá Íslandi, bæði í neyðarsöfnunina og með framlögum heimsforeldra.

Framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, Bergsteinn Jónsson, segir það virkilega ánægjulegt að sjá hversu fjölmennur hópur hlaupi fyrir réttindum barna á hverju ári. „Það er alltaf ótrúlega gaman að fylgjast með á hliðarlínunni. Við munum eins og ávallt fjölmenna á hvatningastöðina okkar og hvetja hlauparana áfram.“

Hann bendir auk þess á að allir sem hlaupa fyrir UNICEF á Íslandi geti komið í heimsókn á skrifstofuna og fengið #runicef-ennisband.

UNICEF á Íslandi hefur staðið fyrir neyðarsöfnun fyrir börn sem þjást af vannæringu og þegar hafa yfir 11 milljónir króna safnast frá almenningi og fyrirtækjum á Íslandi. Neyðin á svæðinu er enn gríðarleg og hvert framalag skiptir miklu máli.

Neyðaraðgerðir okkar miða að því að veita lífsnauðsynlega hjálp, meðhöndla börn gegn vannæringu og koma í veg fyrir að fleiri börn verði vannærð. UNICEF er með mikinn viðbúnað í löndunum sem um ræðir og hefur til að mynda á árinu veitt á hundruð þúsunda barna meðferð við vannæringu, öruggt drykkjavatn og hreinlætisaðstöðu.

Hægt er að styðja við neyðaraðgerðir UNICEF á svæðinu með því að heita á hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu hér eða með því að senda SMS-ið BARN í númerið 1900 (1.000 krónur).

Fleiri
fréttir

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira
Fara í fréttasafn