Menu

Afhentu tæpar 600.000 krónur í hjálparstarf fyrir börn á flótta

Ungmennaráð UNICEF á Íslandi stóð fyrir átakinu #30sek

 

Ungmennaráð UNICEF á Íslandi stóð nýverið fyrir verkefninu #30sek til að vekja athygli á því að á hálfrar mínútu fresti neyðist barn til að leggja á flótta sökum stríðs, fátæktar eða umhverfisáhrifa. Þau létu gera þrjár tegundir af flottum bolum sem þau seldu og hver króna rann í neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn frá Sýrlandi

Alls söfnuðust 591.350 krónur í átakinu!

Fulltrúar ungmennaráðsins hafa nú afhent UNICEF á Íslandi upphæðina góðu. Það var Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri, sem tók á móti framlaginu.

„Þetta er einstaklega flott hjá ungmennaráðinu og við erum alveg ótrúlega stolt af þeim. Þau hafa látið sig hin ólíkustu mál varða og það er frábært að fylgjast með þeim,“ segir Bergsteinn. 

#30sek var okkar leið til að leggja okkar af mörkum til að hjálpa þeim börnum sem minna hafa. 

Fulltrúar ungmennaráðsins með Bergsteini Jónssyni framkvæmdastjóra og skjali sem þau afhentu ásamt 591.350 krónum!

„Skilaboðin með verkefninu voru að vekja fólk til umhugsunar um stöðu flóttabarna í heiminum og að á hverjum þrjátíu sekúndum verður barn að flóttabarni. #30sek var okkar leið til að leggja okkar af mörkum til að hjálpa þeim börnum sem minna hafa. Við erum öll hluti af heiminum og #öllbörn eiga skilið að fá jöfn tækifæri til lífs og verndar. Öll börn eiga réttindi og við eigum að standa vörð um þau og sjá til þess að allir fái að njóta þeirra,“ segja fulltrúar ungmennaráðsins. 

Þau bentu í tengslum við bolasöluna á að börn sem þurfi að flýja þurfi að yfirgefa allt sem þau þekki og elski í von um betra líf. Börn eigi rétt á vernd og öryggi samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og honum beri að fylgja.

Enn fremur undirstrikuðu þau að íslensk stjórnvöld hefðu ítrekað brotið á börnum í leit að skjóli. Í meðferð barna skorti mannúð og ábyrgð. Þessu vildu þau breyta og biðluðu til samfélagsins að standa saman í því að opna hjörtu okkar og landamæri fyrir flóttafólki.

Fólk sem keypti boli var hvatt til þess að birta myndir af sér í þeim á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #30sek til að auka vitund almennings um stöðu barna á flótta. 

"Við grátum öll á sama tungumáli" - einn af bolunum þremur sem ungmennaráðið seldi.

Mynd: Rakel Andrésdóttir

"Ég færi heim ef ég gæti" - einn af bolunum þremur sem ungmennaráðið seldi.

Mynd: Rakel Andrésdóttir

"Aðgerðarleysi er stríðsglæpur" - einn af bolunum þremur sem ungmennaráðið seldi.

Mynd: Rakel Andrésdóttir

Ég vil gefa mánaðarlega

Þitt framlag

Eða

Önnur upphæð