03. september 2020

Report Card 16: UNICEF gefur út nýja skýrslu um velferð barna í efnameiri ríkjum

Fyrir of mörg börn í efnameiri ríkjum heims ógnar fátækt, ójöfnuður og mengun andlegri og líkamlegri vellíðan þeirra og offita, vanlíðan, brotin sjálfsmynd og léleg félagsfærni eru orðin of algeng einkenni barnæskunnar.

Efnameiri ríki heimsins þurfa að grípa til tafarlausra umbóta ef tr yggja á öllum börnum jafna möguleika á góðu lífi. Fyrir of mörg börn ógnar fátækt, ójöfnuður og mengun andlegri og líkamlegri vellíðan þeirra og offita, vanlíðan, brotin sjálfsmynd og léleg félagsfærni eru orðin of algeng einkenni barnæskunnar. Þetta er niðurstaða nýjustu skýrslu í ritröð rannsóknarmiðstöðvar UNICEF í Flórens, Innocenti (Report Card 16) sem mælir velferð barna í efnameiri ríkjum heims. Þar kemur einnig fram að mörg af efnameiri ríkjum heimsins hafa þau úrræði og þjónustu sem þarf til að veita börnum tækifæri til að þróa hæfileika sína en eru ekki að framfylgja sínum stefnum til fulls til að ná til allra barna, og er Ísland þar ekki undanskilið.

Skýrslan, sem ber heitið Worlds of Influence: Understanding what shapes child well-being in rich countries er gefin út í dag, 3. september. UNICEF mun kynna skýrsluna og helstu niðurstöður hennar í pallborðsumræðum með sérfræðingum víðs vegar að úr heimunum. Umræðunum verður streymt beint í gegnum hlekkinn hér kl 13:00 að íslenskum tíma í dag og öllum er frjálst að skrá sig til þátttöku.

Ísland í 24. sæti

Skýrslunni er ætlað að leggja mat á og bera saman velferð barna í efnameiri ríkjum heims með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Settir eru fram ýmsir mælikvarðar á velferð barna, svo sem efnisleg velferð, mennta- og heilbrigðismál og umhverfisáhrif og er löndum raðað eftir árangri á þeim sviðum. Einnig er huglægt mat barna á eigin lífsánægju mælt. Holland, Danmörk og Noregur koma best út úr könnuninni sem þau lönd þar sem best er að vera barn. Ísland er í 24. sæti af 41 ríki Evrópsambandsins og OECD.

Yfir heildina litið mælist Ísland með góð skilyrði fyrir börn að alast upp og stendur vel að vígi í mælingum á þeim úrræðum sem eru til staðar, m.a í félags- heilbrigðis og umhverfismálum. Hlutfallsleg fátækt meðal barna mælist einna minnst hér á landi, aðgengi að hreinu vatni og bólusetningum er með því besta sem þekkist og lífsánægja barna mælist vel yfir meðallagi, en þar er Ísland í níunda sæti. Aftur á móti er árangur í að tryggja félagslega færni, grunnhæfni í lestri og stærðfræði, líkamlega heilsu og geðheilbrigði barna eingöngu í meðallagi.

Í að minnsta kosti einu af hverjum fimm löndum sem skýrslan nær til segjast börn eiga erfitt með að eignast vini vegna þess að þau skortir sjálfstraustið til þess og þar er Ísland í þriðja neðsta sæti ásamt Japan og Síle. Áhyggjuefni er hvað offita hefur aukist meðal barna síðastliðin ár, en eitt af hverjum þremur börnum frá 5 – 19 ára í efnameiri ríkjum heimsins glímir við offitu eða yfirþyngd. Á Íslandi er hlutfallið 28,3%.

Aðgerðaráætlanir vegna COVID-19 þurfa að styðja við barnafjölskyldur

UNICEF bendir á að ef ekki sé brugðist við sé mikil hætta á að afleiðingar kórónaveirunnar verði til þess að staða barna versni og að efnahagsþrengingar og aukið atvinnuleysi muni ýta undir frekari ójöfnuð. „Ef ríkisstjórnir landanna grípa ekki til tafarlausra aðgerða með velferð barna að leiðarljósi, sem hluta af sínum aðgerðaráætlunum vegna heimsfaraldursins, þá má búast við aukinni fátækt barna, versnandi andlegri og líkamlegri líðan og auknum ójöfnuði milli barna,“ segir Gunilla Olsson, framkvæmdastjóri rannsóknarmiðstöðvar UNICEF, Innocenti. „Stuðningur vegna COVID-19 við fjölskyldur og börn er verulega ófullnægjandi. Það verður að gera meira til að veita börnum örugga og hamingjusama æsku, og það verður að gera það núna.“

Fyrir áhugsama þá stendur UNICEF fyrir pallborðsumræðum kl 13:00 í dag til að ræða helstu niðurstöður skýrslunnar og aðgerðir í kjölfarið. Viðburðinum verður streymt hér.

Report Card 16 má nálgast hér.

Fleiri
fréttir

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira

15. apríl 2024

Ár af stríði í Súdan: Hvergi fleiri börn á flótta í heiminum
Lesa meira
Fara í fréttasafn