Menu

3 milljónir barna hafa fæðst í Jemen síðan stríðið braust út

Jemen talinn einn versti staður í heimi til að vera barn

 

Staða barna í Jemen er skelfileg. Eftir meira en 1000 daga af linnulausum átökum er Jemen talið einn af verstu stöðum á jörðinni til að vera barn. Á tíu mínútna fresti deyr barn í Jemen af orsökum sem hægt væri að fyrirbyggja, m.a úr vannæringu, kóleru og niðurgangspestum. Meira en 11 milljónir barna í Jemen þurfa á lífsnauðsynlegri hjálp að halda. Það er nánast hvert einasta barn í landinu!

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNICEF, Born into War sem gefin var út í dag.

Borgarastyrjöld hefur geisað í Jemen síðan 2015. Ofbeldið bitnar hvað verst á börnunum. Milljónir hafa flúið landið eða eru á vergangi innan Jemen. Landið var fyrir eitt af fátækustu ríkjum heims og alvarleg bráðavannæring var mjög útbreidd meðal ungra barna áður en átökin brutust út.

Stríð gegn börnum

Stríðið í Jemen er því miður stríð gegn börnum. Eftir átök síðustu ára eru innviðir landsins í rúst. Heilbrigðiskerfið er hrunið. Nærri 5.000 börn hafa verið drepin eða slasast alvarlega síðastliðin tvö og hálft ár. Þúsundir skóla og heilsugæslustöðva hafa verið skemmd eða gjöreyðilögð. Rúmlega átta milljónir manns þarfnast mataraðstoðar og tæpar tvær milljónir barna þjást af vannæringu. 

Það hefur verið erfitt fyrir hjálparstofnanir að koma hjálpargögnum til barna sem þurfa á að halda. Hafnir og flugvellir hafa verið lokaðir og linnulaus átök valdið því að erfitt er að flytja hjálpargögn á vettvang. 

Hvað er UNICEF að gera í Jemen?

UNICEF er á vettvangi í Jemen og veitir neyðaraðstoð við gífurlega erfiðar aðstæður. Við höfum þrýst á að hjálparstofnunum sé tryggður óheftur aðgangur til þess að hægt sé að koma mat, vatni og lyfjum til fólks í landinu.

Í lok nóvember náði UNICEF að flytja bóluefni með flugi til Sana og hjálpargögn með skipi til hafnarinnar í Hodeida sem innihéldu m.a vítamínbætt jarðhnetumauk til að meðhöndla vannærð börn, vatnshreinsitöflur og bóluefni.  Í kjölfarið er UNICEF að hefja stórt bólusetningarátak gegn kíghósta, berklum, lungnabólgu og heilahimnubólgu sem mun ná til 600.000 barna.

Á síðasta ári hafa UNICEF og samstarfsaðilar meðal annars náð að:

  • Bólusetja 4.8 milljón börn gegn mænusótt.
  • ​Meðhöndla 82.000 börn við alvarlegri bráðavannæringu.
  • Tryggja 2.2 milljón manns aðgengi að hreinu drykkjarvatni.
  • Veita hundruð þúsunda barna sálræna aðstoð.  

Gífurleg þörf er á stórauknum neyðaraðgerðum og birgðum af hjálpargögnum til landsins.

UNICEF kallar á alla aðila að átökunum sem og alþjóðasamfélagið að vinna tafarlaust að friðsamlegri lausn og binda enda á ofbeldið gegn börnum. Veita þarf UNICEF og öðrum hjálparsamtökum skilyrðislausan aðgang að öllum þeim börnum sem þurfa hjálp meðan á átökunum stendur og aflétta takmörkunum á innflutningi á vörum og hjálpargögnum.  

Hvernig er hægt að hjálpa?

UNICEF er á staðnum í Jemen núna og verður það áfram.  Það er með hjálp heimsforeldra sem UNICEF hefur tekist að veita milljónum barna hjálp og staðið fyrir umfangsmiklum neyðaraðgerðum í landinu. Hægt er að skrá sig sem heimsforeldri á www.unicef.is.

Einnig er hægt að styðja við neyðaraðgerðir UNICEF í Jemen hér.

Ég vil gefa mánaðarlega

Þitt framlag

Eða

Önnur upphæð