02. september 2016

Hálf milljón barna hefur þurft að reiða sig á smyglara í Evrópu

Í dag er eitt ár frá því að Aylan litli Kurdi lést. Við minnumst þeirra sem hafa látist á flótta, misst ástvini sína og þurft að flýja allt sem þau þekkja. Við hugsum til þeirra fjölmörgu sem eru í sömu sáru og ómanneskjulegu stöðunni og fjölskylda Aylans litla. Samkvæmt tölum sem UNICEF birtir í dag hefur um hálf milljón barna á flótta neyðst eins og Aylan Kurdi til að reiða sig á smyglara í Evrópu síðan í janúar 2015. Fylgdarlaus börn eru nærri því 100.000 af heildarfjöldanum og þau eru sérstaklega berskjölduð gagnvart smyglurum.

2. september 2016.

Í dag er eitt ár frá því að Aylan litli Kurdi lést. Við minnumst þeirra sem hafa látist á flótta, misst ástvini sína og þurft að flýja allt sem þau þekkja. Við hugsum til þeirra fjölmörgu sem eru í sömu sáru og ómanneskjulegu stöðunni og fjölskylda Aylans litla.

Í dag vekur UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, jafnframt athygli á þeirri skelfilegu hættu sem börn standa frammi fyrir þegar þau eru neydd til að reiða sig á smyglara til að koma sér í öruggt skjól. Aylan var fórnarlamb slíks smyglara og komst aldrei í skjól. Litli drengurinn var einn af fjölmörgum sem hafa látist í leit að öryggi.

Samkvæmt tölum sem UNICEF birtir í dag hefur um hálf milljón barna á flótta og faraldsfæti neyðst til að reiða sig á smyglara í Evrópu síðan í janúar 2015. Fylgdarlaus börn eru nærri því 100.000 af heildarfjöldanum og þau eru sérstaklega berskjölduð gagnvart smyglurum.

„Að loka landamærum (í Evrópu) var eins og að læsa dyrunum en skilja gluggana eftir opna, sem aftur ýtti börnum, ekki síst þeim sem eru fylgdarlaus, út í að taka enn meiri áhættu en ella,“ segir Marie-Pierre Poirier, sem samhæfir allar aðgerðir UNICEF í flóttamannamálum í Evrópu.

„Evrópuríki ættu að vera að koma sér upp sterkari barnaverndarkerfum, ekki að byggja hærri múra.“

UNICEF bendir á að lokun landamæra, hertari reglur og umdeilt samkomulag Evrópusambandsins og Tyrklands hafi leitt til þess að glæpagengi noti nú smygleiðir sem séu þekktar til að smygla vopnum og fíkniefnum til þess að flytja flóttamenn og fólk á faraldsfæti. Ef til staðar væru öruggar og lögleglar leiðir til að fara um myndu börn og fjölskyldur þeirra hins vegar ekki neyðast til að reiða sig á smyglara eða enda jafnvel í mansali.

Að sögn Europol hefur verðið á smyglleiðinni inn til Evrópu allt að þrefaldast og margir borga sem nemur allt að 400.000 íslenskum krónum fyrir einn legg leiðarinnar.

Börn enda oft í skuldaánauð hjá smyglurunum og miklar hættur stafa að þeim við að gera upp skuldina. Fylgdarlaus börn í Frakklandi og Ítalíu hafa sem dæmi verið neydd út í vændi og neydd til að fremja glæpi.

Til að vernda börn á flótta og faraldsfæti er afar áríðandi að mati UNICEF að rannsaka ítarlega smygl og mansal í Evrópu sem beinist að börnum á flótta, auk þess að safna skipulega gögnum um börn í tengslum við viðbrögð Evrópuríkja. Í löndum þar sem börn fara um, sérstaklega á Grikklandi og Ítalíu, er gríðarlega mikilvægt að barnaverndarkerfum sé gert kleift að veita öllum börnum í viðkvæmri stöðu persónulega ráðgjöf og stuðning, ekki síst öllum fylgdarlausum börnum.

UNICEF bendir á að það að tryggja börnum viðtal innan 72 klukkustunda, tryggja þeim betri aðang að upplýsingum og reglulegar upplýsingar um stöðu þeirra eigin máls, útvega þeim talsmann og sjá til þess að þau fái aukinn aðgang að lögfræðiaðstoð minnki til muna líkurnar á því að börnin hverfi óséð og haldi áfram með smyglurum.

UNICEF hefur komið á fót hreyfanlegum teymum með sérfræðingum í barnavernd sem eru staðsett á lykilstöðum. Teymin veita börnum á flótta þjónustu og hjálpa til við að bera kennsl á börn sem gætu verið fórnarlömb smygls og mansals. Sem dæmi eru sérfræðingar að störfum við miðstöðvar fyrir fylgdarlaus börn í og í kringum Aþenu í Grikklandi og við höfnina í Lampedusa á Ítalíu. Þeir hjálpa til við að bera kennsl á og aðstoða konur og stúlkur sem gætu hafa orðið fyrir kynferðislegri misneitingu og verið beittar kynferðislegu ofbeldi.

Fleiri
fréttir

27. mars 2024

Níu ár af stríði í Jemen: Milljónir barna vannærð
Lesa meira

15. mars 2024

Þrettán ár af stríði í Sýrlandi: UNICEF aðstoðaði milljónir í fyrra en þörfin aldrei meiri
Lesa meira

13. mars 2024

Sögulegur árangur í baráttunni gegn barnadauða
Lesa meira
Fara í fréttasafn