08. júlí 2016

El Niño hefur enn mikil áhrif á börn um allan heim

Áætlað er að rúmlega 26 milljónir barna í austur- og suðurhluta Afríku séu berskjölduð fyrir vannæringu og lífshættulegum sjúkdómum eftir mikla þurrka og flóð af völdum veðurfyrirbrigðisins El Niño. Þar af er ein milljón barna sem þarf lífsnauðsynlega meðferð við bráðavannæringu.

Áætlað er að rúmlega 26 milljónir barna í austur- og suðurhluta Afríku séu berskjölduð fyrir vannæringu og lífshættulegum sjúkdómum eftir mikla þurrka og flóð af völdum veðurfyrirbrigðisins El Niño. Þar af er ein milljón barna sem þarf lífsnauðsynlega meðferð við bráðavannæringu.

Þrátt fyrir að veðurfyrirbrigðið El Niño hafi að mestu fjarað út, má sjá alvarlegar afleiðingar þess víða, eins og fram kemur í yfirliti um El Niño sem UNICEF gaf út í dag. Áhrif El Niño undanfarið ár hafa verið meiri en nokkru sinni fyrr og uppskerubrestur, tap á búfénaði, vatnsskortur og sjúkdómar ógna nú lífi tugmilljóna barna og fjölskyldna þeirra. Má þar nefna sjúkdóma eins og niðurgangspestir og kóleru sem nú þegar draga fjölda barna til dauða árlega. Að auki eru sífellt fleiri börn sem detta úr skóla vegna flutninga, veikinda eða hungurs.

Miklar líkur eru á öðru veðurfyrirbrigði á næstunni, La Niña, sem má segja að sé spegilmynd af El Niño. Þar sem áður voru þurrkar verða nú flóð og öfugt. Þetta getur haft gríðarlegar afleiðingar á sömu samfélög og sömu börn sem þegar eru viðkvæm fyrir vegna afleiðinga El Niño.

“Milljónir barna og fjölskyldur þeirra þurfa aðstoð til þess að lifa af, og þau þurfa aðstoð við að búa sig undir La Niña sem mun skapa enn meiri neyð á svæðinu,“ segir Afshan Khan, yfirmaður neyðaráætlana UNICEF. Miklar veðursveiflur koma alltaf verst niður á börnum. Börn eru fyrri til að veikjast en fullorðnir og fljótari að látast. Yngstu börnin eru varnarlausust allra.

UNICEF vinnur nú að því að styðja þau samfélög sem verst hafa orðið úti af völdum El Niño og þá sérstaklega þau börn sem eru hvað mest berskjölduð. Starfsfólk UNICEF kappkostar að bregðast við mikilli neyð á svæðinu, meðal annars með því að veita meðhöndlun við bráðavannæringu, tryggja aðgengi að drykkjarhæfu vatni, sinna sjúkdómsvörnum og bólusetningum og koma á fót vatnsveitu- og hreinlætisaðstöðu í skólum og heilsugæslum.

Heimsforeldrar UNICEF leggja baráttu UNICEF lið í hverjum mánuði og gera UNICEF þannig kleift að bregðast strax við þegar neyðarástand sem þetta skellur á. UNICEF á Íslandi fylgist náið með þróun mála enda hætt við að ástandið verði enn alvarlegra þegar líður á árið.

Fleiri
fréttir

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira

15. apríl 2024

Ár af stríði í Súdan: Hvergi fleiri börn á flótta í heiminum
Lesa meira
Fara í fréttasafn