14. nóvember 2016

Ekki horfa ... Hjálpaðu

Neyðarsöfnun okkar vegna vannærðra barna í Nígeríu og nágrannaríkjunum fer fram undir yfirskriftinni "Ekki horfa ... hjálpaðu".

Ekki horfa ... Hjálpaðu!

Við hér hjá UNICEF í Íslandi sýnum því skilning að margir eru orðnir ónæmir fyrir því sem þeir sjá í fréttum og samfélagsmiðlum á hverjum einasta degi, oft á dag. Það er erfitt að horfa upp á börn sem hafa verið sprengd í loft upp, börn sem grafast undir rústum, börn sem drukkna á flótta og börn sem svelta til dauða.
Þessar óhugnanlegu myndir vilja oft renna saman í eina heild og geta skapað vanmáttarkennd.

Við heyrum það aftur og aftur frá fólki í kringum okkur að það geti ekki horft á meiri hrylling, geti ekki horft á þetta vídeó, þessa mynd og svo framvegis – og það er mjög skiljanlegt. Svona líður okkur sjálfum á hverjum degi í vinnunni.

Okkur langaði því að einmitt þetta yrði fókusinn í neyðarsöfnuninni okkar vegna vannærðra barna í Nígeríu og nágrannaríkjunum. Það er bara mannlegt að vilja verja sig fyrir þeim hörmungum sem eiga sér stað. Það er ekki hægt að taka inn á sig allt sem maður sér á Facebook, á Twitter, í fréttum og þar fram eftir götunum.

Það er ekkert skrýtið að maður fyllist vanmætti og segi „æi, ég get ekki horft á þetta, oh, þetta er svo sorglegt.“


Núna ríkir afar alvarlegt ástand í Nígeríu og löndunum í kring. Hálf milljón barna er í lífshættu vegna vannæringar. Það getur auðveldlega virkað yfirþyrmandi.

Það sem við viljum benda á er að fólk þarf hins vegar ekki nauðsynlega að horfa á hræðileg myndbönd eða myndir af vannærðum börnum, sem við höfum öll séð svo oft áður, til að bregðast við. Það þarf ekki að horfa á beinaber börn og bólgna maga til að veita hjálp. Það getur treyst starfsfólki UNICEF á vettvangi til að gera allt sem það getur til að bjarga lífi barnanna. UNICEF hefur 70 ára reynslu af því að bregðast við erfiðum aðstæðum sem þessum.

Við viljum einnig benda á að þó að við lokum tölvunni, slökkvum á sjónvarpinu eða lítum undan, þá fer vandamálið ekki. Enn verða hálf milljón barna í lífshættu vegna vannæringar á svæðinu. Saman getum við hins vegar komið börnum til hjálpar.

Okkur langaði heldur ekki að nota hinar hefðbundnu, sjokkerandi vannæringarmyndir í neyðarsöfnuninni. Við teljum að það eigi ekki að þurfa að sýna hræðilegar myndir til að fólk bregðist við, auk þess sem UNICEF vill af virðingu við börnin ekki birta ljósmyndir af þeim illa höldnum og á verstu augnablikum í lífi þeirra.

Við hvetjum þig til að horfa á vídeóin okkar sem verða birt á næstu dögum þar sem Páll Óskar, Sigríður Thorlacius, Árni Vilhjálmsson og Una Torfadóttir tala um það hvernig maður þarf einmitt ... ekki ... að horfa ... til að hjálpa!

Fleiri
fréttir

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira
Fara í fréttasafn