25. apríl 2016

Eitt ár í dag frá jarðskjálftanum í Nepal

Eitt ár er í dag liðið frá því að mannskæður jarðskjálfti reið yfir Nepal og varð nærri níu þúsund manns að bana. Þriðjungur þeirra var börn. Þúsundir Íslendinga studdu neyðaraðgerðir UNICEF.

Eitt ár er í dag liðið frá því að mannskæður jarðskjálfti reið yfir Nepal og varð nærri níu þúsund manns að bana. Þriðjungur þeirra var börn. Jarðskjálftinn mældist 7,8 stig á Richter-kvarðanum og varð vart um allt landið. Fjórtán héruð urðu afar illa úti í skjálftanum og ljóst var frá fyrstu stundu að neyðaraðgerðir yrðu afar umfangsmiklar og uppbyggingarstarfið gríðarlegt.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, brást strax við. UNICEF hafði verið í Nepal í meira en fjóra áratugi, þekkti innviði vel og gat strax dreift lífsnauðsynlegum hjálpargögnum sem komið hafði verið fyrir í birgðastöðvum UNICEF víða um landið til að bregðast við hamförum sem þessum. Þessar birgðir brúuðu þann afdrifaríka tíma sem leið þar til hjálpargögn fóru að berast annars staðar frá.

„Það var gríðarlega mikilvægt að geta brugðist strax við. Miklu skiptir hversu vel fólk um allan heim tók við sér. Hér á landi styrktu þúsundir manna neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir Nepal, auk þess sem heimsforeldrar studdu neyðaraðgerðirnar. Þetta er ómetanlegt og við erum afar þakklát fyrir þennan mikla stuðning,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Meðal þess sem UNICEF hefur gert í Nepal undanfarið ár er eftirfarandi:

• Þótt víða hafi 90% skólabygginga eyðilagst gátu börn á jarðskjálftasvæðunum flest mætt aftur í skóla einungis einum mánuði eftir skjálftann. UNICEF hjálpaði til við að reisa 1.793 tímabundna skóla og útvegaði nærri 900.000 börnum námsgögn.

• Til að koma í veg fyrir mislingafaraldur studdi UNICEF bólusetningarátak sem náði til hálfrar milljónar barna yngri en fimm ára. Þá hefur náðst að bólusetja 3,6 milljónir barna við mænusótt og koma í veg fyrir að sjúkdómurinn taki sig upp í Nepal.

• UNICEF lagði einnig áherslu á að tryggja drykkjarhæft vatn og örugga hreinlætisaðstöðu. Alls náðist að tryggja 1,3 milljón manna aðgang að hreinu vatni.

Tveimur vikum eftir fyrri skjálftann reið annar jarðskjálfti af stærðargráðunni 7,3 yfir auk þess sem mörg hundruð minni skjálftar urðu. Til að minnast þess að ár er liðið frá fyrsta skjálftanum birtir UNICEF nú skýrslu um þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í landinu síðustu tólf mánuðina. Skýrslan sýnir vel hverju UNICEF getur áorkað með traustum stuðningi heimsforeldra og þess gríðarlega fjölda sem styrkti neyðarsöfnun UNICEF fyrir Nepal.

Þrátt fyrir öflugt hjálparstarf frá fyrsta degi er ljóst að umfangsmikil uppbygging er enn framundan, enda var eyðileggingin gríðarleg.

Ennþá á eftir að tryggja mörgum fjölskyldum varanlegt húsnæði í stað neyðarskýlanna sem þær hafast við í. Mörg börn stunda enn nám í óöruggum og illa búnum byggingum. Í flestum héruðum sem verst urðu úti fer heilsugæsla enn fram í tjöldum sem komið var upp strax eftir skjálftann. Aðgengi að vatni er víða vandamál.

„Ástandið í Nepal er ennþá slæmt og mikil uppbygging framundan. Segja má að tímabilið fyrst eftir skjálftann hafi einkennst af fyrstu viðbrögðum við hamförunum, en nú taki við tímabil þar sem innviðir verða styrktir til framtíðar. Mikilvægt er að halda áfram og það gera heimsforeldrar okkur kleift,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Fleiri
fréttir

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira

15. apríl 2024

Ár af stríði í Súdan: Hvergi fleiri börn á flótta í heiminum
Lesa meira
Fara í fréttasafn