21. júlí 2016

310 sinnum í neyðaraðgerðum árið 2015

Árið 2015 brást UNICEF við neyðaraðstæðum 310 sinnum í 102 löndum. Þetta eru einhverjar mestu neyðaraðgerðir samtakanna frá upphafi. Mikið af árangri UNICEF í þessum neyðarastæðum byggir á því að samtökin hafa verið með starfsemi í löndunum áður en neyðin verður, sem gerir UNICEF kleift að bregðast hraðar við en ella.

Árið 2015 brást UNICEF við neyðaraðstæðum 310 sinnum í 102 löndum. Þetta eru einhverjar mestu neyðaraðgerðir samtakanna frá upphafi. Mikið af árangri UNICEF í þessum neyðarastæðum byggir á því að samtökin hafa verið með starfsemi í löndunum áður en neyðin verður, sem gerir UNICEF kleift að bregðast hraðar við en ella.

„Þetta er einn mikilvægasti þátturinn í starfi UNICEF. Allan ársins hring erum við að störfum um allan heim. Þótt neyðaraðgerðir veki oft mesta athygli byggir árangur þeirra á langtímauppbyggingu UNICEF – bæði fyrir og eftir neyðarástandið,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Hægt er að fá yfirlit yfir viðbrögð og árangur neyðaraðgerða UNICEF árið 2015 í tveimur skýrslum sem nýlega voru birtar. Sú fyrri sýnir helstu atriðin á einfaldan og myndrænan hátt, en sú síðari kafar dýpra í árangur neyðaraðgerðanna.

Neyðaraðgerðir UNICEF voru 310 talsins árið 2015, en voru af mjög fjölbreyttum toga. Í skýrslunum eru þær flokkaðar eftir því hvers konar neyð var brugðist við. Algengast var að einhvers konar náttúruhamfarir hefðu valdið neyðarástandinu, eins og sjá má hér að neðan:

• 97 neyðaraðgerðir vegna náttúruhamfara, t.d. ofsaveðurs, flóða og þurrka
• 92 vegna heilbrigðisástands, t.d. alvarlegrar vannæringar eða útbreiðslu smitsjúkdóma
• 63 vegna samfélagsástands, t.d. átaka eða efnahagshruns
• 36 vegna annars neyðarástands
• 22 vegna annarra náttúruhamfara, t.d. jarðhræringa eða eldvirkni

UNICEF stóð í neyðaraðgerðum í 102 löndum árið 2015, en aldrei áður hafa samtökin brugðist við neyð í jafnmörgum löndum. Það væri of langt mál að telja upp allt það sem gert hefur verið, en hér að neðan eru nokkur dæmi um þann árangur sem UNICEF náði á árinu:

• Flóttamenn í Evrópu: 81 þúsund börn nýttu sér barnvæn svæði UNICEF, þar sem þau geta hvílt sig, leikið sér, fengið sálfélagslegan stuðning, þjónustu barnaverndar og heilsugæslu.
• Nepal: 326.091 barn á aldrinum 6-59 mánaða fékk næringarduft (umfram markmið).
• Ebólu-faraldurinn í Síerra Leone, Gíneu og Líberíu: 3,7 milljónir heimila fengu ráðgjöf um leiðir til að verjast smiti.
• Sýrlenskir flóttamenn í Írak, Jórdaníu, Líbanon, Tyrklandi og Egyptalandi: 630 þúsund flóttabörn settust á skólabekk (umfram markmið).
• Sýrland: 278 þúsund börn skráð í skóla (55% af markmiði).
• Jemen: 158.409 börn á aldrinum 6-59 mánuða fengu meðhöndlun við alvarlegri vannæringu (74% af markmiði).
• Írak: 346.558 börn fengu kennsluefni (63% af markmiði).
• Afganistan: 160.160 börn á aldrinum 0-59 mánuða voru meðhöndluð við alvarlegri vannæringu (umfram markmið).
• Mjanmar: 146 börnum sem voru barnahermenn var hjálpað að losna úr hersveitunum og fengu aðstoð við endurkomu inn í samfélagið, m.a. með grunnmenntun og færniþjálfun.
• Úkraína: 1,6 milljón manna var útvegað hreint vatn (umfram markmið).
• Haítí: 127 þúsund manns á þurrkasvæðum fengu neyðarbirgðir af vatni (umfram markmið).
• Nígería: 84.012 börn undir 5 ára aldri fengu aðstoð vegna alvarlegrar vannæringar (umfram markmið).
• Mið-Afríkulýðveldið: 41.584 heimila fengu aðstoð til að tryggja sér hreint drykkjarvatn og hreinlætisaðstöðu (umfram markmið).
• Búrúndí: 333.936 börn undir 5 ára aldri fengu bóluefni gegn mislingum (umfram markmið).
• Suður-Súdan: 297.040 manns fengu aðgang að viðunandi hreinlætisaðstöðu.

Árangur UNICEF á síðasta ári byggir á langtímauppbyggingu, sem gæti ekki átt sér stað ef ekki væri fyrir dyggan stuðning einstaklinga sem hafa gerst heimforeldrar. Sem dæmi má nefna að strax fyrstu vikuna eftir að jarðskjálftar riðu yfir Nepal í apríl 2015 náði svæðisskrifstofa UNICEF að koma sex sendingum til nauðstaddra, samtals um 85 tonnum af lífsnauðsynlegum hjálpargögnum.

Með því að gerast heimsforeldri styður þú öll verkefni UNICEF, bæði langtímauppbyggingu og neyðaraðstoð.

Fleiri
fréttir

27. mars 2024

Níu ár af stríði í Jemen: Milljónir barna vannærð
Lesa meira

15. mars 2024

Þrettán ár af stríði í Sýrlandi: UNICEF aðstoðaði milljónir í fyrra en þörfin aldrei meiri
Lesa meira

13. mars 2024

Sögulegur árangur í baráttunni gegn barnadauða
Lesa meira
Fara í fréttasafn